Fara í efni
Mannlíf

Minningarmynd um N1 við Hörgárbraut

Árni Jóhann Arnarsson, til vinstri, og Hreiðar Garðarsson við bensíndælu N1 hjá þjónustustöðinni sem hefur verið lokað. Dælurnar verða hins vegar í notkun áfram. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Tveir 22 ára strákar, Árni Jóhann Arnarsson og Hreiðar Garðarsson, birtu í gær áhugavert myndband á youtube rás sinni, Gonzo.Creation; það sem hugsuðu sér sem heimildarmynd um þjónustustöð N1 við Hörgárbraut á Akureyri en kalla nú minningarmyndband.

„Um leið og við sáum fréttina sem þú skrifaðir á akureyri.net um að það ætti að loka þjónustustöðinni þá vissum við að við yrðum að gera þetta,“ segir Árni Jóhann. Fréttin birtist 10. júlí og hana má lesa hér:

Árni Jóhann og Hreiðar hafa nefnilega sterkar taugar staðarins. Þeir hafa alla tíð búið í grenndinni og unnu báðir á stöðinni um hríð sem unglingar. Og hafa stundað það lengi að búa til myndbönd í nafni Gonzo.Creations.

„Þetta byrjaði hjá okkur með því að við fórum að gera myndbönd fyrir Bílaklúbb Akureyrar, fyrst um Bíladaga og svo fengu þeir okkur til að gera meira. Svo gerðum við myndband um tónleika Rúnars Eff og það eru alltaf einhverjir að biðja okkur um að gera meira; við erum báðir í annarri vinnu, ég er að smíða og Hreiðar að vinna á Sprettinum, en það fer allur frítíminn í þetta,“ segir Árni Jóhann.

Árni Jóhann Arnarsson, til hægri, og Hreiðar Garðarsson við Chevrolet Nova Custom (1978) bíl Árna Jóhanns. Árni var 16 ára þegar hann gerði bílinn upp með Arnari föður sínum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Árni rifjar upp að þeir hafi reyndar byrjað snemma að leika sér að því að taka upp myndbönd. „Við höfum alltaf haft gaman að því að skapa eitthvað. Ég á upptöku síðan við vorum 8 eða 10 ára þar sem ég elti Hreiðar og tek upp video.“

Vorum mikið á stöðinni

„Við bjuggum báðir í nágrenninu þegar við vorum litlir og búum reyndar enn, ég í Lyngholti og Hreiðar í Höfðahlíð, og vorum mikið á stöðinni sem strákar. Komum oft að pumpa í dekkin á hjólunum og gömlu karlarnir voru alltaf til í að hjálpa okkur. Svo komum við oft með klink sem þeir töldu þannig að við gætum keypt okkur gos eða nammi,“ segir Árni Jóhann.

Í myndbandinu, sem má sjá hér að neðan, ræða þeir við starfsmenn á stöðinni þegar henni var lokað, fyrrverandi starfsmann og fastakúnna. „Annar starfsmaðurinn var búinn vinna hér í 22 ár og annar viðskiptavinurinn sem ræddum við var fastakúnni álíka lengi. Við töluðum líka við annan fastakúnna sem er á okkar aldri og hann hafði líka unnið á stöðinni eins og við gerðum.“

Upptökum lauk daginn sem þjónustustöðinni var lokað með kveðjuhátíð um miðjan þennan mánuð, þar sem grillaðar voru pylsur handa gestum og gangandi, og síðan hafa þeir unnið að því að klippa myndbandið sem er 24 mínútur að lengd.

SMELLIÐ HÉR EÐA Á MYNDINA TIL AÐ HORFA Á MYNDBANDIÐ.

 

Árni Þórisson sem vann á stöðinni í aldarfjórðung lék á gítar og munnhörpu þegar haldin var kveðjuhátíð fyrir starfsmenn og viðskiptavini á dögunum. Myndir: Þorgeir Baldursson