Fara í efni
Íþróttir

Mikilvægur sigur og afar kátt í Höllinni!

Fjölmennt var í Höllinni og stemningin frábær. Heimir Pálsson stökk til og þakkaði trommuleikurum og…
Fjölmennt var í Höllinni og stemningin frábær. Heimir Pálsson stökk til og þakkaði trommuleikurum og öðrum stuðningsmönnum fyrir þeirra framlag strax og flautað var til leiksloka. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á liði Fjölnis í Höllinni í kvöld, 23:21, í Grill66 deildinni, næstu efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þetta var síðasti heimaleikur vetrarins í deildarkeppninni en Þórsarar eiga eftir þrjá leiki á útivelli. Þeir eiga enn tölfræðilega möguleika á að komast beint upp í Olís deildina en taka annars þátt í úrslitakeppni og leika þá bæði heima og að heiman.

Staðan var 12:10 í hálfleik en Þórsarar lögðu grunninn að sigrinum með mjög góðum kafla snemma í seinni hálfleik þegar þeir náðu þægilegri forystu og töluvert af mistökum í sókninni kom ekki að sök.

Vert er að geta sérstaklega frammistöðu Arnars Þórs Fylkissonar, markvarðar, sem valinn var maður leiksins – og skyldi engan undra. Arnar var skráður með 26 varin skot og varði m.a. 14 skot í röð á besta kaflanum. Þetta er ekki prentvilla; 14 skot í röð! Tveimur mörkum munaði í hálfleik en Þórsarar náðu sex marka forystu á meðan Arnar var í mesta stuðinu og Fjölnismenn skoruðu ekki í seinni hálfleik fyrr en 12 mínútur voru liðnar.

Mörk Þórs: Heimir Pálsson 6, Viðar Ernir Reimarsson 5, Jóhann Einarsson 4, Josip Kezic 3, Tomislav Jagurinovski 2, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 2 og Aron Hólm Kristjánsson 1. 

Staða efstu liða er þessi:

  • Hörður 18 leikir – 30 stig 
  • ÍR 18 leikir – 29 stig
  • Fjölnir 18 leikir – 28 stig
  • Þór 17 leikir – 27 stig

Alls verða leiknar 20 umferðir í deildinni. 

  • Eitt lið fer beint upp og næstu fjögur í umspil um eitt sæti.
  • Lið númer 2 í deildinni leikur við lið númer 5, lið númer 3 og 4 mætast. Sigra þarf í tveimur leikjum til að komast áfram.
  • Liðin sem komast áfram bítast svo um sæti í Olís deildinni. Einnig þarf að sigra í tveimur leikjum til að vinna það einvígi.

Leikirnir sem fjögur efstu liðin eiga eftir:

Hörður – Fjölnir (heima), Þór Ak (heima).

ÍR – Berserkir (heima), Afturelding U (úti).

Fjölnir – Hörður (úti), Haukar U (úti).

Þór – Haukar U (úti), Valur U (úti), Hörður (úti).

Viðar Ernir Reimarsson brýst í gegnum vörn Fjölnis í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arnar Þór Fylkisson var valinn maður leiksins enda fór hann hamförum á milli stanganna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Josip Kezic í dauðafæri og skorar. Hann gerði þrjú mörk og lagði upp nokkur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Heimir Pálsson var öryggið uppmálað, bæði af vítalínunni og úr horninu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.