Fara í efni
Mannlíf

„Mikilvægt að hlusta á tónlist“ - MYNDASYRPA

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ágæt stemning var á tónleikum sem 1100 skólabörn sóttu í vikunni í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Eins og greint var frá í gær á Akureyri.net voru þrennir tónleikar þá, þeir síðustu, en jafn margir á mánudag og þriðjudag. Börnum hvaðanæva úr Eyjafirði var boðið, auk barna austan frá Húsavík og úr Fjallabyggð – en þau síðastnefndu komust reyndar ekki vegna ófærðar.

Tónlistarfélag Akureyrar stóð fyrir samkomunum í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar, List fyrir alla og Sóknaráætlun Norðurlands eystra, sem styrkti verkefnið. Hugmyndin var Ásdísar Arnardóttur, sellóleikara og bæjarlistamanns Akureyrar 2020.

„Þegar ég kom upphaflega norður, árið 2007, lagði Sinfóníuhljómsveit Norðurlands mikla áherslu á skólatónleika, en eftir hrunið breyttist það og þeir hafa ekki verið settir á dagskrá á ný, hvernig sem á því stendur,“ sagði Ásdís við Akureyri.net í gær.

„Við sem vinnum við að spila klassíska tónlist teljum mikilvægt að vera alltaf að; að kynna krökkum sífellt klassíska tónlist. Við erum að byggja upp hlustendur til framtíðar og ég held að við megum ekki missa neinn árgang úr. Við verðum að halda áfram og vonandi verða skólatónleikar endurvaktir og reglulega á dagskrá aftur. Sinfóníuhljómsveitin sá um þetta á sínum tíma og ég skora á Menningarfélagið; ég veit að allir eru að berjast um fjármagn, en ég er sannfærð um að tónleikar eins og þessir séu svakalega mikilvægir. Það er mikilvægt að hlusta á tónlist og ég er mikill talsmaður þess að fólk hlusti á alls konar tónlist.“

Börnin höfðu greinilega gaman af stefinu úr James Bond kvikmyndunum, Á Sprengisandi og fleiri verkum. Lengsta verk tónleikanna var ævintýrið um Stúlkuna í turninum eftir Snorra Sigfús Birgisson við sögu Jónasar Hallgrímssonar. Snorri las ævintýrið með tilþrifum meðan tónverk hans hljómaði og voru viðbrögð hinna ungu hlustenda á ýmsa lund. Ein stelpan sagðist nærri því hafa sofnað, en margir höfðu greinilega gaman af og lifðu sig inn í tónlistina.