Mikilvægt að geta sett sig í spor félagsmanna

„Mjög mikilvægt er að við, sem erum í forsvari fyrir verkalýðsfélög í landinu, getum sett okkur í spor félagsmanna okkar og höfum skilning á því hvað þarf til að að lifa af og hafa það að minnsta kosti sæmilega gott. Við megum aldrei gleyma því,“ sagði Anna Júlíusdóttir, formaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju, m.a. í hátíðarræðu á samkomu félagins í Hofi að lokinni kröfugöngu á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks.
Anna sagði einnig: „Ég er ekki með hávirðulegar menntagráður úr háskóla en ég hef hlotið býsna mikla menntun í skóla lífsins í gegnum öll mín störf, bæði „á gólfinu“ eins og stundum er sagt og í gegnum öll mín félagsstörf. Þar lærði ég til dæmis að gott er að deila verkefnum og ég er trú þeirri sannfæringu minni. Þegar ég varð formaður deildi ég helstu verkefnum á milli fjögurra einstaklinga þannig að við erum nú fjögur sem höldum um stjórnartaumana. „Betur sjá augu en auga,“ segir máltækið og það eru orð að sönnu.“
Mörg brýn verkefni framundan
Anna sagði að 1. maí væri „auðvitað alltaf stór dagur hjá öllu verkafólki en í dag fögnum við 100 ára afmæli Fyrsta maí-hátíðarhalda við Eyjafjörð. Saga verkalýðshreyfingarinnar hér nær auðvitað mun lengra aftur í tímann en fyrstu áratugirnir fóru eingöngu í það að fá vinnandi fólk til að trúa því að hag þess væri best borgið í stéttarfélagi og jafnframt að fá atvinnurekendur til að viðurkenna tilvist verkalýðsfélaga og setjast að samningaborðinu,“ sagði formaðurinn.
Anna nefndi einnig að í ár væri þessi minnst að hálf öld væri liðin frá kröfugöngu kvenna þann 24. október 1975. „Þann dag lögðu um 90% kvenna á Íslandi niður störf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og krefjast sömu réttinda og launakjara á vinnumarkaði og karlar. Sá stórkostlegi atburður markaði ákveðin þáttaskil, þótt baráttan standi enn. Ég verð samt að viðurkenna að mér finnst hægt fara en við megum aldrei gefast upp.“
Viljum ekki yfirráð heldur jafnrétti
Anna nefndi að framundan væru mörg brýn verkefni „og þar vil ég sérstaklega nefna virðismat starfa. Sem dæmi má nefna að hér á árum áður, þegar ég var í grunnskóla, var mikill meirihluti kennara karlar og laun þeirra voru sambærileg þingmannalaunum,“ sagði Anna og bætti við: „Í dag, eftir að konur fóru að hasla sér völl í kennarastéttinni, hafa laun kennara stöðugt lækkað hlutfallslega. Nú eftir síðustu samninga er svo látið eins og kennarar séu að setja öll sveitafélög á hausinn. Það er ekki nýtt af nálinni að kvennastörf séu lægra metin en störf karla. Kvennagangan mikla fyrir 50 árum segir sína sögu um það. Við konur viljum ekki ná yfirráðum, við viljum einungis jafnrétti. Er það til of mikils mælst?“
Ávarp Önnu er svohljóðandi í heild:
Fundarstjóri, ágætu félagar og aðrir góðir gestir. Til hamingju með daginn.
Það er sannarlega stór dagur í dag.
Fyrsti maí er auðvitað alltaf stór dagur hjá öllu verkafólki en í dag fögnum við 100 ára afmæli Fyrsta maí-hátíðarhalda við Eyjafjörð. Saga verkalýðshreyfingarinnar hér nær auðvitað mun lengra aftur í tímann en fyrstu áratugirnir fóru eingöngu í það að fá vinnandi fólk til að trúa því að hag þess væri best borgið í stéttarfélagi og jafnframt að fá atvinnurekendur til að viðurkenna tilvist verkalýðsfélaga og setjast að samningaborðinu.
Það var svo fyrst fyrir sléttum 100 árum sem forverar okkar gáfu sér tíma til að brydda upp á skemmtun og léttleika samhliða baráttunni. Því aldarafmæli fögnum við í dag.
Við minnumst þess jafnframt að í ár er hálf öld liðin frá kröfugöngu kvenna þann 24. október 1975. Þann dag lögðu um 90% kvenna á Íslandi niður störf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og krefjast sömu réttinda og launakjara á vinnumarkaði og karlar.
Sá stórkostlegi atburður markaði ákveðin þáttaskil, þótt baráttan standi enn. Ég verð samt að viðurkenna að mér finnst hægt fara en við megum aldrei gefast upp.
Góðir gestir.
Ég ætla að segja ykkur örstutt frá sjálfri mér. Ég er Siglfirðingur með langan starfsferil að baki, aðallega í fiskvinnslu. Ég vann hjá Ísafold, Ramma og Siglósíld og svo hjá ÚA eftir að ég fluttist hingað. Ég tók snemma virkan þátt í verkalýðsstarfinu – sem trúnaðarmaður – og heillaðist mjög af því.
Ég var kjörin í stjórn Einingar-Iðju og varð formaður Matvæladeildar félagsins og svo seinna formaður matvæla- og þjónustudeildar þegar þær deildir voru sameinaðar. Ég var kjörin varaformaður félagsins árið 2012 og formaður árið 2023, fyrst kvenna í sögu Einingar-Iðju. Ég hef jafnframt verið einn af starfsmönnum félagsins síðustu 13 árin.
Kjör og aðbúnaður vinnandi fólks hafa alltaf verið mitt helsta áhugamál – og ég er sannarlega lánsöm að fá að vinna við að bæta bæði kjörin og aðbúnaðinn.
Ég er ekki með hávirðulegar menntagráður úr háskóla en ég hef hlotið býsna mikla menntun í skóla lífsins í gegnum öll mín störf, bæði „á gólfinu“ eins og stundum er sagt og í gegnum öll mín félagsstörf. Þar lærði ég til dæmis að gott er að deila verkefnum og ég er trú þeirri sannfæringu minni. Þegar ég varð formaður deildi ég helstu verkefnum á milli fjögurra einstaklinga þannig að við erum nú fjögur sem höldum um stjórnartaumana. „Betur sjá augu en auga,“ segir máltækið og það eru orð að sönnu.
Mjög mikilvægt er að við, sem erum í forsvari fyrir verkalýðsfélög í landinu, getum sett okkur í spor félagsmanna okkar og höfum skilning á því hvað þarf til að að lifa af og hafa það að minnsta kosti sæmilega gott. Við megum aldrei gleyma því.
Ég vil í þessu sambandi sérstaklega þakka trúnaðarmönnum félagsins fyrir þeirra mikla og góða starf. Trúnaðarmenn eru hjartað og lungun í hverju stéttarfélagi. Án þeirra hefur félagið sjálft enga beina aðkomu að fyrirtækjum, meðal annars til að fylgjast með því að allt sé í lagi. Hjartans þakkir, trúnaðarmenn.
Góðir gestir.
Þegar við lítum um öxl sjáum við hversu margt hefur áunnist á liðnum áratugum og á rúmri öld. Orlofsréttur, fæðingarorlofið, veikindaréttur, sjúkrasjóður, alls kyns styrkir í vinnu og frítíma, líka í veikindum og stórum áföllum, að ekki sé talað um menntastyrki af ýmsum toga. Sem sagt stuðningur bæði í starfi og leik, svo aðeins örfá atriði séu nefnd.
Ekkert af þessu hefur fengist að sjálfu sér. Við höfum þurft að berjast fyrir hverju skrefi fram á við. Og þar kem ég að einu mesta áhyggjuefni mínu.
Þrátt fyrir þá staðreynd að verkalýðsbaráttunni linni aldrei, virðist sem áhuginn fyrir starfi stéttarfélaganna minnki stöðugt. Í Covid-faraldrinum hrundi fundarsókn í stéttarfélögum eins og öðrum félögum og hún hefur ekki náð sér á strik aftur.
Við þurfum að hafa fólkið með okkur, við þurfum að fá það á fundi og í sjálfa baráttuna. Við þurfum stöðugt að berjast fyrir því að verðmætunum sé réttlátlega skipt, koma í veg fyrir að brotið sé á fólki og það hlunnfarið með ýmsum hætti. Á sama tíma halda sumir atvinnurekendur áfram einmitt því, að brjóta á réttindum fólks, tala stéttarfélögin niður og það sem þau standa fyrir.
Svo langt er gengið að jafnvel er stofnuð gervistéttarfélög á borð við Virðingu, en nafnið eitt og sér er argasta öfugmæli, því það stuðlar að því að félagsfólk fái lægri laun og minni réttindi en samið hefur verið um á vinnumarkaðnum.
Nú síðast hafa nokkrir atvinnurekendur lækkað laun ræstingafólks um allt að 20%. Aukin harka hefur færst í baráttuna, mörg fyrirtæki hafa fækkað starfsfólki og þeir sem eftir eru þurfa að hlaupa hraðar. Afleiðingar þessarar stefnu eru aukin veikindi og starfsþreyta, sem meðal annars birtist í galtómum sjúkrasjóðum margra verkalýðsfélaga.
Góðir gestir.
Þetta er ekki fögur lýsing en sönn engu að síður. Ef núverandi staða ýtir ekki við vinnandi fólki er illa komið fyrir okkur.Við þurfum fleira fólk um borð í bátinn. Við þurfum að stækka hópinn, leggjast öll á árarnar og efla liðsheildina.
Saman erum við ósigrandi afl.
Framundan eru mörg brýn verkefni og þar vil ég sérstaklega nefna virðismat starfa. Sem dæmi má nefna að hér á árum áður, þegar ég var í grunnskóla, var mikill meirihluti kennara karlar og laun þeirra voru sambærileg þingmannalaunum.
Í dag, eftir að konur fóru að hasla sér völl í kennarastéttinni, hafa laun kennara stöðugt lækkað hlutfallslega. Nú eftir síðustu samninga er svo látið eins og kennarar séu að setja öll sveitafélög á hausinn.
Það er ekki nýtt af nálinni að kvennastörf séu lægra metin en störf karla. Kvennagangan mikla fyrir 50 árum segir sína sögu um það.
Við konur viljum ekki ná yfirráðum, við viljum einungis jafnrétti.
Er það til of mikils mælst?
Ágæta samkoma.
Ég vil að lokum segja þetta: Þó ég hafi hér að framan talið upp ýmislegt sem betur má fara og ýmis óleyst baráttumál og verkefni, eru ljósu punktarnir SVO margir, ánægju- og gleðistundirnar óteljandi.
Það er frábært að vinna með öllu því góða fólki sem starfar innan verkalýðshreyfingarinnar, öllu því frábæra fólki sem vinnur í fyrirtækjum á félagssvæðinu.
Samskipti við atvinnurekendur og stjórnvöld eru líka oft ánægjuleg. Það eru gleðistundirnar sem gefa okkur byr í seglin, stundir eins og þessi sem við eigum saman hér.
Ég vona að við njótum öll þessa fallega dags og mætum tvíefld til leiks og starfa strax á morgun.
Til hamingju með daginn!