Mikil þörf eftir að Vínbúðin var flutt
Verslunin Kalt & gott var nýlega opnuð við Skipagötu í miðbænum. „Netverslun með áfengi og sjoppa,“ segir Aðalgeir Axelsson sem höndlar þar, þegar spurt er hvers kyns verslun sé um að ræða.
Aðalgeir keypti húsnæðið við annan mann, segir þá hafa velt fyrir sér alls kyns hugmyndum um starfsemi og á endanum ákveðið að fara út í umræddan verslunarrekstur því þörfin væri mikil, ekki síst fyrir ferðamenn eftir að Vínbúð ÁTVR var flutt á Norðurtorg nyrst í bænum.
„Þetta er það sem helst vantar í miðbæinn. Við finnum fyrir því að Reykvíkingar og útlendingar hafa ekki hugmynd hvar Vínbúðin er, það er langt að keyra út á Norðurtorg og margir ferðamenn eru ekki einu sinni á bíl,“ segir Aðalgeir. „Það vantaði líka sjoppu svo við ákváðum að blanda þessu saman. Við erum í raun eina sjoppan í miðbænum fyrir utan leigubílastöðina, BSO, sem er á förum fljótlega. Við seljum samlokur, skyr og fleira, traffíkin er orðin dálítil í hádeginu og á örugglega eftir að aukast. Við erum að mæta ákveðinni þörf þar eins og með netversluninni.“
Aðalgeir nefnir að fyrirkomulag á áfengissölunni sé vitaskuld ekki þannig að fólk geti mætt á staðinn og verslað heldur þarf að panta á netinu og síðan er annað hvort hægt að sækja vöruna eða fá hana senda heim.
Hann er ánægður með framtakið og bjartsýnn á framhaldið. „Við vildum prófa eitthvað; það er betra að þora og klikka en að þora ekki!“ segir Aðalgeir.