Fara í efni
Fréttir

Metangas flutt frá Reykjavík til að anna eftirspurn

Metanafgreiðslustöð Norðurorku og Olís við Súluveg. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Norðurorka hefur í samstarfi við SORPU hafið flutninga á metangasi frá Reykjavík til Akureyrar. Þetta hefur reynst nauðsynlegt þar sem gömlu sorphaugarnir á Glerárdal hafa ekki reynst eins gjöfulir á metangas og vonast var til í upphafi. Vinnslan hefur þó skilað af sér 1,4 milljón Nm3 (normalrúmmetrum) af metangasi, komið í stað innflutnings á samsvarandi magni jarðefnaeldsneytis og sparað losun á því sem nemur 25 þúsund tonnum af koltvísýringi.

Verkefni samfélagsins

Sunna Guðmundsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Norðurorku, staðfestir að metan sé nú flutt frá Reykjavík til Akureyrar til að anna eftirspurninni á svæðinu. „Í samvinnu við SORPU, sem framleiðir metangas í Reykjavík, erum við farin að flytja metan til Akureyrar. Þetta er gert til þess að halda þeim markaði sem byggður hefur verið upp fyrir metan á svæðinu og skapa grundvöll fyrir frekari metanvæðingu. Frekari metanvæðing getur þó ekki hafist fyrr en metanframleiðsla við stýrðar aðstæður hefst á svæðinu enda eru flutningar á metangasi bæði kostnaðarsamir og mengandi. Ekki er ljóst á höndum hverra slík framleiðsla kemur til með að vera, hvar eða hvernig. Hlutverk Norðurorku er að safna því metani sem myndast á gömlu ruslahaugunum á Glerárdal og vinna úr því eldsneyti. Það er verkefni samfélagsins að finna lausnir til frekari framleiðslu á metangasi og hefur Norðurorka bent á mikilvægi þess að hefja þá vinnu,“ segir Sunna í svari við fyrirspurn Akureyri.net.

Sunna segir þetta í fyrsta skipti sem metan hefur verið flutt norður. „Við reiknum með að sækja einn gám á viku, 2.500 Nm3, það á að duga á meðan ekki þarf að stoppa okkar framleiðslu vegna viðhalds eða bilana. Eftirspurnin hefur verið meiri yfir sumarmánuðina svo við munum fylgjast vel með og fjölga ferðum ef þarf.“

Líforkuver?

Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, var gestur í útvarpsþættinum Samfélaginu á rás 1 Ríkisútvarpsins miðvikudaginn 31. mars og sagði þar að ástandið hafi verið óvenju slæmt núna því bilun hafi komið upp í stöðinni og hafi starfsfólk unnið við krefjandi aðstæður við að leysa úr því. Í þættinum sagðir Eyþór einnig að líklegt sé að haugurinn verði kláraður á næstu fimm til sex árum. Hann nefndi í því sambandi vonir um að hér byggist upp líforkuver sem hefur verið til skoðunar í alllangan tíma, en þær hugmyndir ganga út á að nýta til dæmis sláturúrgang og fleira við vinnslu á metangasi. Fram kom í máli Eyþórs að ekki sé aðeins verið að fást við minna magn heldur dragi einnig úr gæðum metansins sem fæst úr haugunum á Glerárdal.

Haugurinn ekki skipulagður með metanvinnslu í huga

En hver er þá ástæða þess að urðunarstaðurinn á Glerárdal virðist ekki ætla að standa undir væntingum sem gerðar voru í upphaflegum áætlunum og spálíkönum? Sunna bendir á að haugurinn hafi ekki verið skipulagður með metanvinnslu í huga.

„Við fórum því af stað í algjört tilraunaverkefni án þess að vita hvers var að vænta. Við erum að vinna með mjög gamaldags ruslahaug þar sem efnaúrgangur, heimilissorp, bílhræ og allt þar á milli er urðað í bland og við vitum ekki hvað er hvar eða hvenær það var urðað. Þetta gerir alla áætlanagerð sem og reksturinn erfiðari. Það er fleira sem kemur þarna inn í, til dæmis veðurfar. Við höfum verið að lenda í vandræðum í miklu frosti og líka í mjög þurru veðri. Þetta er eitthvað sem við getum ekki stjórnað en við reynum okkar allra besta til að fylgjast með og erum alltaf að verða betri í að læra á hauginn. Það er þó alveg ljóst að framleiðslugetan fer minnkandi,“ segir Sunna.

En þó haugurinn hafi ekki staðist ýtrustu væntingar eða farið eftir spálíkönum hefur vinnsla á metani úr honum haft umtalsverð jákvæð umhverfisáhrif. „Nú þegar við stöndum frami fyrir þessari áskorun er gott að rifja upp að frá upphafi hefur Norðurorka safnað, hreinsað og þjappað rúmlega 1,4 milljón Nm3 af metangasi. Þetta hefur sparað innflutning jafn margra lítra af jarðefnaeldsneyti og sparað losun á því sem nemur 25 þúsund tonnum af koltvísýringi. Verkefnið hefur því sannarlega skilað samfélaginu ávinningi sem við getum verið stolt af,“ segir Sunna.

Sunna segir markmið verkefnisins alltaf hafa verið að fanga það metan sem myndast á haugunum og brenna það, en þannig sé dregið margfalt úr neikvæðum umhverfisáhrifum. „Það að hreinsa gasið svo hægt sé að nýta það sem eldsneyti dregur enn frekar úr umhverfisáhrifum og það sparar innflutning á jarðefnaeldsneyti.“

Sumarið 2021 erfitt

Hámarksframleiðslugeta haugsins er í reynd talsvert minni en ráðgert var í upphafi verkefnisins. Í frétt á ruv.is 26. júlí 2021, í tengslum við erfiðleika í framleiðslunni, kemur fram að gert hafi verið ráð fyrir að gasið frá urðunarstaðnum á Glerárdal myndi nægja að minnsta kosti til ársins 2030. Þar er haft eftir Helga Jóhannssyni, þáverandi forstjóra Norðurorku, að gert hafi verið spálíkan í upphafi til að reyna að meta hve mikið haugurinn gæti gefið af sér. „Sú spá var um 600.000 normalrúmmetrar á ári, en nú erum við að nálgast 300.000 og margt bendir til að við séum komin í topp og náum ekki meira út úr honum,“ sagði Helgi í frétt á ruv.is sumarið 2021.

Í ársskýrslu Norðurorku 2021 er sagt frá því að sumarið 2021 hafi reynst framleiðslunni erfitt. „Miklir þurrkar og lítil jarðvegsþekja yfir vinnslusvæðinu voru þess valdandi að gas átti greiðari leið bæði upp úr haugnum og ofan í hann,“ segir í ársskýrslunni. Þetta ástand hafi skilað sér í minni gasgæðum, auk þess sem loka hafi þurft afgreiðslustöðinni um tíma vegna þess hve margir ferðamenn voru í bænum vegna veðurblíðunnar.

Stýrðist í byrjun af eftirspurn, en ekki lengur

Framleiðsla á metangasi úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal hófst árið 2014. Í ársskýrslu Norðurorku 2021 (sjá mynd) kemur fram að sala á metangasi hafi farið úr 75.491 Nm3 árið 2016 í 270.558 Nm3 árið 2022. Salan á árinu 2022 var rúmlega 280 þúsund Nm3. Þessi mælieining, Nm3, eða normalrúmmetrar, er notuð fyrir gasmagn við venjulegar (normal) kringumstæður í hitastigi við frostmark. Hlutfallslega hefur hægt á vextinum í sölunni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd úr ársskýrslu Norðurorku fyrir árið 2021. Til að mynda var salan 2021 um 17% meiri en árið 2020, en aukningin var um 5% frá 2021 til 2022.

Meðal notenda metansins sem vinnslan á Glerárdal gefur af sér er Norðurorka, en 15 bílar í flota fyrirtækisins ganga fyrir metani. Fyrirtækið hefur þó haft þá reglu að vera fyrst til að hætta sinni notkun þegar skortur hefur verið á metani. Strætisvagnar Akureyrar eru með fjóra metanvagna í rekstri og nokkra ferliþjónustubíla, en eins og við sögðum frá í frétt hér á Akureyri.net á dögunum eru kaup á nýjum metanvagni inn í flota SVA nú í biðstöðu vegna stöðunnar við framleiðslu á metani á svæðinu, en SVA hefur þó forgang að metani þegar um skort er að ræða á svæðinu.

Framleiðslumagnið stýrðist til að byrja með af eftirspurn á svæðinu en ekki lengur. „Nú erum við komin á þann stað að framleiðslugeta haugsins annar ekki eftirspurn viðskiptavina. Ljóst þykir að framleiðslugeta haugsins hafi náð hámarki og komi til með að minnka jafnt og þétt næstu ár. Áskorun næstu missera verður því að hámarka framleiðslumagnið án þess að fórna gæðum. Undanfarið hefur verið unnið að aðgerðum til að bæta rekstraröryggi og gæði framleiðslunnar. Þar ber helst að nefna að viðhaldsstjórnun hefur verið bætt og eftirlit með framleiðslunni aukið. Þetta er gert til þess að halda söfnun og hreinsun á metangasi eins stöðugri og á eins miklum afköstum og unnt er,“ segir Sunna.

_ _ _

  • Hvar og hvernig verður metangasið til?
  • Norðurorka hefur framleitt metangas úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal ofan Akureyrar frá árinu 2014. Vinnslan er útskýrð í stuttu máli á vef Norðurorku, en þar segir að verkefnið gangi út á að safna hauggasi úr 45 borholum á gamla urðunarstaðnum. „Fimm holur eru tengdar saman í einn safnskáp þar sem hverja og eina holu má mæla og stilla sérstaklega. Hauggasið er síðan hreinsað í svokallaðri vatnshreinsistöð og úr verður metangas. Frá hreinsistöðinni er metanið leitt að þjöppustöð sem þjappar metangasinu í 230 bar þrýsting á metanlager, jafnhliða afgreiðslu á ökutæki,“ segir á vef Norðurorku. Norðurorka framleiðir gasið, en Olís sér um markaðssetningu og smásölu.