Fara í efni
Fréttir

Met á HSN: 842 PCR próf á einum degi

Sigríður Dagný Þrastardóttir, verkefnastjóri HSN með sýnatökum á Akureyri.

Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Akureyri tók 842 PCR sýni á þriðjudaginn, fleiri en nokkru sinni á einum degi síðan Covid faraldurinn hófst árið 2020.

Sigríður Dagný Þrastardóttir, verkefnastjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) með sýnatökum á Akureyri, segir að algengt sé að tekin séu um 700 hraðpróf á dag en 250 til 400 PCR próf, en flest slíkt hafi verið tekin seint í síðasta mánuði, 636 á dag, þar til metið var slegið í fyrradag.

„Það er ekki gott að segja hvers vegna svo margir komu í PCR próf  [á þriðjudaginn], hugsanlega vegna þess að um 1.000 manns greindust um helgina og sá fjöldi smita tengist inn í margar fjölskyldur,“ segir Sigríður Dagný við Akureyri.net.

Í janúar voru tekin 10.500 PCR próf á Akureyri og fyrstu átta dagana í febrúar voru þau 3.768. 

  • Opið er fyrir PCR próf alla sjö daga vikunnar, í starfsstöð HSN í Strandgötu 31, frá klukkan 9 til 11 fyrir hádegi og fyrir hraðpróf frá klukkan 11.15 til 12.30 alla daga. 

Sigríður Dagný segir að þjónustan sé aukin eins og þurfa þykir. Nýverið var tekið upp á því að taka próf í bílalúgu, eins og hún tekur til orða. „Þegar Covid smitaðir þurfa að koma með börn í próf förum við út að bíl og tökum sýni þar, til þess að þeir sem eru veikir komi ekki inn til okkar. Þetta gerum við frá klukkan 11.30 til 12 alla daga.“ Þá er farið að taka sýni á flugvellinum þegar vélar koma frá útlöndum, til þess að þeir sem mögulega eru smitaðir fari beint heim og bíði eftir niðurstöðu í stað þess að vera á ferli og mæti í próf í Strandgötunni. „Það hefur gefist vel, til dæmis komu 11 smitaðir með flugi frá Færeyjum um daginn,“ segir Sigríður.