„Mér þykir mjög vænt um nafnið Nýja bíó“
Eigendur Sambíóanna hyggjast leggja áherslu á nafnið Nýja bíó á kvikmyndahúsi sínu á Akureyri héðan í frá. Nafnið blasir við ofarlega á framhlið hússins fallega efst við Strandgötu – við Ráðhústorg – en Sambíó skilti er ofan við dyrnar þar sem bíógestir ganga inn í þessa áratuga gömlu menningarmiðstöð. Það verður fljótlega lagt til hliðar, þótt áfram verði um Sambíó að ræða, og gamla Nýja bíós skiltið tekur þá á móti fólki á nýjan leik.
„Án þess að hljóma of væminn þá þykir mér mjög vænt um nafnið Nýja bíó. Ég er alinn upp í Keflavík og frá því að mér var trillað inn í salinn þar, sennilega þriggja ára gömlum, hef ég verið starfandi við þennan geira,“ segir Björn Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna við akureyri.net. Afi hans opnaði kvikmyndahús suður með sjó fyrir margt löngu og bíókóngur Íslands, Árni Samúelsson faðir Björns, stofnaði Sambíóin snemma á níunda áratug síðustu aldar. Fjölskyldufyrirtækið SAMfélagið hefur rekið Sambíó á Akureyri í aldarfjórðung, síðan árið 2000.

Sambíó - Nýja bíó við Ráðhústorg. Mynd: Skapti Hallgrímsson
„Það var í seinni heimsstyrjöldinni sem langafi minn, Eyjólfur Ásberg, tók upp á því að reisa kvikmyndahús í Keflavík; það var opnað 1947 og afi skýrði það Nýja bíó,“ segir Björn. „Það var opið frá því ári til 1. nóvember 2024 þegar við þurftum að loka eftir gríðarlega erfiða tíma eftir Covid faraldurinn. Það var mjög erfið ákvörðum að loka því þarna byrjaði allt okkar ævintýri.“
Fleiri lúxusstólar
Það er ekki síst vegna þess að bíóinu í Keflavík – Reykjanesbæ – var lokað sem „mig langar að endurvekja Nýja bíó nafnið á Akureyri og munu Akureyringar fljótlega sjá nafnið vakna til lífs,“ segir Björn.
„Eins og bæjarbúar hafa kannski tekið eftir höfum við verið að dytta að bíóinu, skipt var um sæti í sölunum, upplýsingaskjám bætt við inni í bíóinu, nýbúið er að teppaleggja sal 1 og og teppalagt veður framan við salina í byrjun árs.“
Síðast en ekki síst nefnir Björn að beðið sé eftir fleiri lúxusstólum. Nokkrir slíkir hafa verið fremst í stóra salnum og Björn segir þá mjög vinsæla; algengt sé að bíógestir komi snemma í því skyni að ná slíku sæti. „Við fáum fleiri VIP legubekki í janúar og þá verður öll fremsta röðin þannig. Okkur langar að gera ýmislegt fleira en hve fljótt það gerist ræðst af aðsókn.“
Undanfarið hafa Sambíóin í auknum mæli sýnt eldri myndir, sem mælst hefur vel fyrir að sögn Björns, og hann er bjartsýnn á framhaldið. „Nú er bransinn að jafna sig hratt, stærri myndir eru farnar að berast til okkar hraðar og 2026 lítur mjög vel út,“ segir Björn Árnason.
