Fara í efni
Íþróttir

Meistarar – N4 sýnir mynd um gullstelpurnar

Skjáskot úr heimildarmynd N4 um gullstelpur KA/Þórs, Íslandsmeistaranna í handbolta.
Skjáskot úr heimildarmynd N4 um gullstelpur KA/Þórs, Íslandsmeistaranna í handbolta.

Handboltastelpurnar í KA/Þór áttu stórkostlegt keppnistímabil, eins og lesendur Akureyri.net vita mætavel. Draumurinn um Íslandsmeistaratitilinn varð að veruleika í fyrsta skipti og nú hefur N4 gert heimildarmynd um gullstelpurnar.

  • Þátturinn er á dagskrá stöðvarinnar á morgun, miðvikudag, klukkan 20.30.

„Eftir mikla uppbyggingu og vinnuframlag leikamanna, þjálfara, foreldra, stuðnings- og stjórnarmanna er ekki annað hægt en að skyggnast bak við tjöldin og kynnast meisturunum örlítið betur,“ segir í tilkynningu frá sjónvarpsstöðinni.

Í myndinni kynnast áhorfendur Íslandsmeisturunum betur, ekki bara á vellinum heldur líka í daglega lífinu því þremur liðsmönnum er fylgt eftir; Rakel Söru Elvarsdóttur, Mörthu Hermannsdóttur og Huldu Tryggvadóttur.

„Þá er rætt við þjálfarann Andra Snæ, Siguróla Sigurðsson, íþróttafulltrúa KA, sem og tvo fulltrúa úr stjórn kvennaliðsins. Gullstelpunum er fylgt eftir á handboltaæfingu og styrktaræfingu hjá Agli Ármanns í TFW og áhorfendum gefst kostur á því að vera á fluga á vegg innan um liðið og sjá með eigin augum hvað liðið býr yfir góðum liðsanda og frábærum karakter.“

Börnin með á æfingar

„Í myndinni sést meðal annars hvernig fjölskyldulífið tvinnast við handboltann en sumar kvennanna í liðinu taka börnin sín með á æfingar og eru börnin alvön því að taka þátt,“ segir í tilkynningunni.

Þá er fjallað um kostnaðinn við rekstur liðsins. „Siguróli íþróttafulltrúi KA segir í myndinni að 85% af kostnaðinum komi úr fjáröflunum sem þýðir að leikmenn og sjálfboðaliðar þurfa að leggja mikið á sig í fjáröflunum til þess að láta dæmið ganga upp.“