Fara í efni
Íþróttir

Meistarar KA/Þórs töpuðu fyrir ÍBV í Eyjum

Rut Jónsdóttir var markahæst hjá KA/Þór í Eyjum og lék líka vel í vörn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsso…
Rut Jónsdóttir var markahæst hjá KA/Þór í Eyjum og lék líka vel í vörn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar KA/Þórs töpuðu með tveggja marka mun, 26:24, fyrir ÍBV í Eyjum í kvöld í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta. Staðan í hálfleik var 14:14.

Leikurinn var spennandi en nokkuð sveiflukenndur. Stelpurnar okkar voru í kjörstöðu þegar nokkrar mínútur voru eftir, tveimur mörkum yfir, en heimaliðið gerði fjögur síðustu mörk leiksins.

Fram er í efsta sæti deildarinnar með 23 stig úr 15 leikjum, Valur er með 22 stig að 16 leikjum loknum og KA/Þór er í þriðja sæti með 19 stig eftir 15 leiki.

„Þetta fer bara á lokakafl­an­um, okk­ur vantaði að kom­ast yfir frost­kafla í sókn. Við skut­um í stöng og náðum því miður ekki að skora í ágæt­is fær­um. ÍBV gerði það hins veg­ar og í svona leikj­um þá þarf að skora á stóru augna­blik­un­um, ÍBV gerði það en ekki við,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við mbl.is eftir leikinn.

Umdeilt atvik átti sér stað undir lokin þegar Unnur Ómarsdóttir gat jafnað, 25:25; hún fór inn úr horninu en skaut framhjá. Svo virtist sem brotið væri á Unni en ekkert dæmt. „Fyr­ir mér var þetta aug­ljóst ví­tak­ast, ég er gam­all hornamaður og veit að þetta er alltaf víti og meira að segja tvær mín­út­ur, mér fannst það að dæma ekki neitt, vera mjög súrt. Það er búið og áfram gakk,“ sagði Andri við mbl.is.

KA/Þór er í þriðja sæti sem fyrr segir. Efstu tvö liðin fara beint í undanúr­slit en liðin í 3. og 4. sæti eiga heima­leikja­rétt í úr­slita­keppn­i liðanna í 3.-6. sæti um tvö sæti í undanúrslitum.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Smellið hér til að lesa viðtalið við Andra Snæ þjálfara á mbl.is.