Fara í efni
Mannlíf

Með 100 húsfélög á borðinu

Jón Heiðar Daðason rekur einu sérhæfðu húsfélagsþjónustu Akureyrar. Mikið er að gera enda málefni húsfélaga oft flókin og margþætt. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir.

Eignaþjónusta Akureyrar þjónustar um 100 húsfélög og fer starfsemin sístækkandi. Jón Heiðar Daðason, eigandi fyrirtækisins, segir að eitthvað hljóti hann að vera að gera rétt því fyrirtækið hefur aðeins einu sinni auglýst sig og starfsemin vaxið á orðsporinu einu saman.

Fyrirtækið, sem er eina sérhæfða húsfélagsþjónustan á Akureyri, flutti nýlega í nýtt og stærra húsnæði, fyrir ofan Greifann við Glerárgötu. „Það bætast við 2-3 ný húsfélög í viðskipti hjá okkur á hverjum mánuði. Við erum núna þrjú sem vinnum hérna og við þurftum orðið stærra húsnæði undir starfsemina,“ segir Jón Heiðar. Fyrirtækið sérhæfir sig í umsjón húsfélaga frá a-ö, hvort sem er að boða löglega til húsfunda, leita tilboða í viðhald, reikna rétt út gjöld sem húseigendur eiga að greiða eða leysa úr ágreiningsmálum. „Það er oft mjög erfitt að fá fólk til þess að taka umsjón húsfélagsins að sér í sjálfboðavinnu.Oft er líka bara betra að hafa einhvern utanaðkomandi sem horfir á hlutina utan frá. Þá geta íbúar líka gert meiri kröfur til húsfélagsins þegar það er ekki rekið í sjálfboðavinnu af einhverjum í húsinu.“

Jón Heiðar ásamt dóttur sinni Valgerði sem vinnur einnig hjá Eignaþjónustu Akureyrar.

Löng reynsla af húsfélagsmálum

Eignaþjónusta Akureyrar var stofnuð fyrir fimm árum en Jón Heiðar hefur áratuga langa reynslu af húsfélagsmálum því hann starfaði áður sem húsnæðisfulltrúi Akureyrarbæjar í 17 ár. „Í því starfi fann ég að það var mikil eftirspurn eftir svona þjónustu. Ég var þá sjálfur kominn með nokkur húsfélög í fangið í húsum sem bærinn átti íbúðir í en enginn fékkst til að sinna húsfélagsþjónustunni. Það var svo um áramótin 2017-18 að ég ákvað að stíga skrefið til fulls og hætti hjá bænum og fór að sinna þessu eingöngu.“ Fyrsti viðskiptavinur Eignaþjónustu Akureyrar var Akureyrarbær en fyrirtækið tók að sér umsjón með nokkrum húsfélögum á vegum bæjarins. Starfsemin hefur síðan smátt og smátt undið upp á sig og í dag þá sinnir fyrirtækið allskonar húsfélögum, allt frá þríbýlum, atvinnuhúsnæði og upp í 40 íbúða fjöleignarhúsum.

Fæddist með sjaldgæfan augnsjúkdóm

Jón Heiðar ólst upp á Grenivík. Hann fór á sjóinn 18 ára gamall og stundaði sjómennsku í 10 ár. Þegar hann kom í land 28 ára gamall kláraði hann stúdentinn og fór svo beint í rekstrarfræði í Háskólanum á Akureyri sem hann kláraði 36 ára. Þaðan lá leiðin eins og áður segir í starf húsnæðisfulltrúa hjá Akureyrarbæ. Jón Heiðar segist hafa hætt á sjónum á sínum tíma vegna þess að sjónin hjá honum hafði þá versnað mikið. Hann hefur reyndar alla tíð verið með slæma sjón en hann fæddist með sjaldgæfan augnsjúkdóm. „Í grunnskóla var ég látinn sitja alveg upp við töfluna og auðvitað var mér strítt en ég steytti bara hnefann. Þegar ég lauk fyrsta bekk kom í ljós að ég var ólæs og var því látinn sitja hann aftur. Ég var mjög ósáttur með það og einsetti mér að læra að lesa. Ég tók framförum og mér var sagt að með þessu áframhaldi gæti ég komist aftur í sama bekk og jafnaldrar mínir. Ég vildi alls ekki vera í tossabekk og á þrjóskunni tókst mér að ná lestrinum og var fluttur upp um bekk á miðjum vetri. Um vorið fékk ég verðlaun fyrir framfarir frá Lionsklúbbnum Þengli á Grenivík og var það mikil hvatning,“ rifjar Jón Heiðar upp. Síðar átti hann sjálfur eftir að ganga í Lionsklúbbinn Hengil á Akureyri en þar hefur hann verið öflugur félagsmaður og verið skreyttur ýmsum orðum og alþjóðlegum viðurkenningum.

„Ég vildi alls ekki vera í tossabekk og á þrjóskunni tókst mér að ná lestrinum og var fluttur upp um bekk á miðjum vetri,” segir Jón Heiðar sem vegna sjaldgæfs augnsjúkdóms átti í námsörðugleikum allan grunnskólann. Í dag nýtir hann ýmis hjálpargögn í starfi sínu, meðal annars stóran tölvuskjá.

Bætir sjónina upp á öðrum sviðum

Jón Heiðar segir að allan grunnskólann hafi hann átt við námsörðugleika að etja vegna sjónarinnar en úrræðin á þeim tíma hafi verið fá. Hann segist í raun ekki hafa fengið viðeigandi námsaðstoð fyrr en hann hóf nám í VMA. Í dag segist hann nota hjálpartæki á borð við stóran tölvuskjá og fleira til að sinna starfinu. Talið berst nánar að starfinu sem gengur mikið út á samskipti við fólk og þar er Jón Heiðar á heimavelli. „Ég held að vegna þess sem ég hef upplifað í tengslum við sjónina þá met ég lífið öðruvísi og get auðveldlega sett mig í aðstæður og spor annarra. Það er kostur í þessu starfi sem gengur út á það að þjónusta fólk. Ætli það megi ekki segja að ég bæti sjónina upp á öðrum sviðum,“ segir Jón Heiðar. Hann viðurkennir að starfið sé ekki alltaf þakklátt, hann hafi oft fengið á sig ávirðingar sem ekki hafi verið sanngjarnar en hann hafi þó aldrei misst svefn vegna þessa. „Maður þarf að hafa gaman af fólki og vera með þjónustulund til þess að vera í þessu starfi. Auðvitað eru ekki allir ánægðir með mann eins og gengur og fólk er miserfitt í samskiptum, en ég væri ekki í þessu nema vegna þess að þetta á við mig.“

Dýrahald, fíkniefni og hávaði

Aðspurður út í það hvers konar mál fyrirtækið sé aðallega að fást við, þá segir hann að verkefnin séu mjög fjölbreytt. „Fyrst þegar við fáum húsfélag í okkar umsjón þá þarf yfirleitt að byrja á því að reikna gjöldin út upp á nýtt. Fólk er oft með kolranga skiptingu á húsfélagsgjöldunum, svo oft þarf að byrja á að leiðrétta það,“ segir Jón Heiðar og heldur áfram. „Síðan eru oft ýmis ágreiningsmál og nágrannaerjur sem þarf að koma að. Við veitum húsfélögum ráðgjöf en oft þurfa þau síðan að leita aðstoðar lögfræðinga í erfiðum málum.“ Ef um er að ræða ónæði af hendi íbúa eða fíkniefnaneyslu í fjölbýlishúsum hvetur Jón Heiðar fólk til þess að hringja í lögreglu því það sé sterkt vopn að fá öll tilvik skráð hjá lögreglu ætli húsfélagið sér að fá viðkomandi út úr húsinu.

Hvað varðar dýrahald í fjölbýli, sem að hans sögn sé oft mikið hitamál, þá séu þar skýrar reglur. Hundahald í Akureyrarbæ er t.d. óheimilt nema að fengnu leyfi og uppfylltum skilyrðum. Ef um fjölbýlishús er að ræða þarf að liggja fyrir samþykki eigenda íbúða fjöleignahúsa. Séu óskráður hundur í húsinu í óþökk íbúa þá getur húsfélagið haft samband við bæinn. Hvað framkvæmdir varðar þá segir Jón Heiðar að mikilvægt sé að boða rétt til húsfunda þegar verið er að ákveða framkvæmdir. Eigendur geta ekki komið sér undan greiðslum við sameiginlegar framkvæmdir hafi þær verið löglega kynntar og samþykktar. „Menn verða auðvitað að viðhalda eignum sínum. Mér sýnist nú húsfélög almennt yfirleitt passa sig á því að íþyngja íbúum ekki um of með því að fara of geyst í hlutina. Það skiptir miklu máli að sjá fram í tímann og byrja tímanlega að safna fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum með því að hækka greiðslur í framkvæmdasjóð, þá verða allar framkvæmdir léttari,“ segir Jón Heiðar.

Sum mál eru þó erfiðari en önnur eins og reykingarlykt sem berst út í sameign eða af svölum. „Reykingar teljast til friðhelgi einkalífsins og það er ekki hægt að banna húseigendum að reykja heima hjá sér. Það er mjög lítið hægt að gera í slíkum málum, þetta er bara eins og með skötu- eða hangikjötslykt, fólk má elda þennan mat á heimilum sínum.“

Ungt fólk jákvæðara fyrir dýrahaldi

Á þeim meira en 20 árum sem Jón Heiðar hefur komið að málum er snerta sambýli fólks í fjölbýli hefur að hans sögn ýmislegt breyst. Fyrir það fyrsta er erfiðara að fá fólk í sjálfboðastörf fyrir húsfélög. Þá er erfiðara að fá fólk til að bjóða fram húsnæði sitt undir húsfundi og er Jón Heiðar oft að halda húsfundi í stigagöngum fjölbýlishúsa, en covid hefur kannski haft þar eitthvað að segja. Þá finnst Jóni Heiðari viðhorf fólks til dýrahalds vera að breytast. „Mér finnst yngra fólk almennt vera hlynntara dýrahaldi. Áður fyrr var dýrahald yfirleitt bannað í lögum húsfélaga en nú þegar ný húsfélög eru að semja húsfélagsreglur þá finnst mér þau frekar samþykkja gæludýrahald.“ Þá nefnir Jón Heiðar líka að minna sé um það að húsfélög taki framkvæmdalán eins og algengt hafi verið áður, enda hagstæðari vaxtaprósenta í boði þegar hver einstaklingur semur um lánakjör fyrir sig. Þá sé mikil ábyrgð fólgin í því að húsfélagið taki lán þar sem þá standa allir eigendur hússins fyrir láninu og þurfi að greiða það upp, líka fyrir eigendur sem ekki standa í skilum. 

Spurður að því hvernig hann sjái Eignaþjónustu Akureyrar þróast þá segir Jón Heiðar að ef verkefnum fyrirtækisins haldi áfram að fjölga þá þurfi hann að bæta við sig starfsfólki. „Ég hef nú hingað til ekki verið með neinar áætlanir fyrir fyrirtækið heldur spunnið þetta eftir hyggjuvitinu. Hins vegar er tvennt sem hefur komið mér á óvart við reksturinn. Í fyrsta lagi hversu mörg minni húsfélög nýta sér þjónustuna og í öðru lagi hversu mikil tölvupóstsamskipti fylgja þessu. Ég hafði ekki séð fyrir mér þessar gríðarlegu miklu póstsendingar þar sem fólk er að spyrja um hitt og þetta, það er alveg fullt starf að svara póstinum. En það er alveg tækifæri til vaxtar hjá fyrirtækinu, það eru enn fjölbýli hér í bænum sem eiga eftir að koma í þjónustu hjá mér. Svo erum við líka farin að teygja okkur út fyrir bæinn. Ég var t.d. að taka að mér húsfélag á Patreksfirði.“