Fara í efni
Íþróttir

Markús Íslandsmeistari elsta stigs í skólaskák

Markús Orri Óskarsson, í ljósum bol, í úrslitaeinvíginu. Mynd:Anastasia Leonova Kramarenko

Akureyringurinn Markús Orri Óskarsson varð Íslandsmeistari í skólaskák í elsta aldursflokki. Landsmótið í skólaskák fór fram í Brekkuskóla á Akureyri um helgina.

Á elsta stigi var keppnin um sigurinn mjög hörð og urðu þeir Markús Orri Óskarsson úr Síðuskóla og Mikael Bjarki Heiðarsson úr Vatnsendaskóla í Kópavogi efstir og jafnir. Markús Orri Jóhannsson úr Háteigsskóla varð þriðji og Húsvíkingurinn Kristján Ingi Smárason fjórði.

Tveir efstu menn þurftu því að tefla einvígi um meistaratitilinn og þar hafði Markús Orri betur með sigri í lokaskákinni og fékk 2,5 vinninga gegn 1,5. Markús Orri kórónaði þar með frábæran árangur sinn á undanförnum mánuðum og er greinilega kominn í hóp sterkustu skákmanna landsins í sínum aldursflokki. Akureyringar hafa reyndar oft náð góðum árangri í skólaskákinni og oft borið sigur úr býtum, þótt líklega séu liðin ein tíu ár síðan það gerðist síðast.

Keppt var í þremur aldursflokkum, 12 keppendur í hverjum flokki sem unnið höfðu sér rétt til þátttöku á svæðismótum sem haldin hafa verið víðsvegar um land að undanförnu.

Á yngsta stigi (1.-4. bekkur) kom sigurvegarinn frá Ísafirði, Karma Halldórsson. Annar varð Haukur Víðis Leósson úr Hlíðaskóla í Reykjavík og þriðji Pétur Úlfar Ernisson úr Langholtsskóla.

Á miðstigi (5.-7. bekkur) bar Birkir Hallmundarson sigur úr býtum, en annar varð Sigurður Páll Guðnýjarson. Þeir koma báðir úr Lindaskóla í Kópavogi. Þriðji varð Jósef Ómarsson úr Landakotsskóla, en bestum árangri landsbyggðarkeppenda náði Sigþór Árni Sigurgeirsson úr Oddeyrarskóla á Akureyri, sem varð fjórði.

Smellið hér til að sjá öll úrslit á mótinu 

Markús Orri Óskarsson, til vinstri, og Mikael Bjarki Heiðarsson tefla í úrslitaeinvíginu. Áskell Örn Kárason stendur við borðið. Mynd: Anastasia Leonova Kramarenko.