Fara í efni
Menning

Markús á flótta undan réttvísinni í 40 ár!

Akureyri laust fyrir aldamót 1900. Tukthúsið þaðan sem Markús strauk snýr einum litlum glugga upp í Búðargil. Fangelsisgarðurinn virðist tvískiptur.

Jón Hjaltason sagnfræðingur fjallar í nýrri bók um Markús nokkurn sem var á flótta í 40 ár. Öðruvísi Íslandssaga, er undirtitill bókarinnar.

Markús var Ívarsson, Eyfirðingur og nokkuð fyrir heiminn eða hvað á að segja um mann sem átti fimmtán börn með átta konum? Og til að bæta gráu ofan á svart komst upp á kant við lögin, sat þrjú ár í betrunarhúsi í Kaupmannahöfn og gerðist seinna flóttamaður, sá seigasti í því fagi sem Ísland hefur átt, að sögn Jóns. Markús andaðist 1923 og hafði þá verið eftirlýstur síðan hann strauk úr tukthúsi á Akureyri árið 1881.

Jón segir þó ekki aðeins sögu Markúsar. Í kjarnyrtum styttri köflum varpar hann einnig ljósi á samfélag 19. aldar og tekst á við goðsagnir. Máttu fátækir giftast? Hvað með „falleraðar“ konur? Alræði bænda? Voru einstæðar mæður réttlausar? Fjallað er um tukthús og böðla, ótrúlegar skyldur presta, hór, legorð og faðernispróf 19. aldar.

Snemma í bókinni er kaflinn, Slúðrið í sveitinni, og er þá átt við Eyjafjarðarsveit sem nú er. Berum þar niður:

Það var slúðrað í sveitinni og þurfti ekki neina flökkumenn til að bera út hviksögur. Bændur og hjú fóru á milli bæja og sögðu tíðindi og í baðstofum var hvíslað um syndir náungans. Eflaust hefur Markús Ívarsson verið á milli tanna fólks. Sauðaþjófnaðir voru ekki daglegt brauð í sveitinni og ekki alvanalegt að réttað væri yfir Eyfirðingum í hinum konunglega Landsyfirrétti. Markús var sjálfur grunaður um að bera út kjaftasögur. Að minnsta kosti sá tuttugu og þriggja ára vinnukona á Espihóli, Guðrún Ólafsdóttir, ástæðu til að kvarta undan illkvittnismælgi Markúsar. Dag einn haustið 1854 bar hún hugarangur sitt upp við Jón bróður sinn sem var skrifari sýslumanns. Jóni þótti illa vegið að mannorði systur sinnar og kærði Markús.

Eggert Briem sýslumaður reyndi að bera klæði á vopnin en Markús þverneitaði að hafa talað nokkuð ljótt um Guðrúnu. Jú það væri rétt að hann hefði komið á Espihól síðastliðið laugardagskvöld, bæði fyrir og eftir fjóstíma og þá borist í tal að Guðmundur vinnumaður „hefði verið á henni“ í bæjargöngunum en Guðmundur kvartað yfir því „að hann gæti það ekki fyrir brókinni“ .

– Ég var þá spurður hvort þetta hefði verið Guðrún Árnadóttir en ég svaraði að það væru fleiri Gunnur til á Stórhóli. En ég þverneita að hafa sagt við Guðrúnu Ólafsdóttur „að hún væri ekki nema lýgin og líðilegheitin,“ svaraði Markús sýslumanni og þvertók enn og aftur fyrir að hafa talað eitthvað konunni „til hneysu“.

Markús viðurkenndi þó að hafa ögrað Guðrúnu Ólafsdóttur. Hún hefði borið sig illa undan dylgjunum um hana og Guðmund vinnumann sem fengið höfðu vængi í sveitinni og hann svarað henni: – Ætli sé ekki líklegast að þú hafir verið í göngunum með Guðmundi fyrst þú tekur þér þetta svona nærri.

Svo hafði hann fimmtudaginn á eftir verið að flækjast fullur á Espihóli og manað Guðrúnu til að fara lengra með málið, hann hefði ekkert oftalað um hana né sagt neitt til að sverta mannorð hennar. Markús var herskár þetta fimmtudagskvöld og þrumandi röddu fór hann með tvíræðar vísur yfir fólkinu í baðstofunni á Espihóli um leið og hann gjóaði augum á Guðrúnu Ólafsdóttur. Hún skyldi bara kæra hann fyrir sýslumanni ef hún þyrði.

Og Guðrún þorði.

Eftir að hafa hlustað á Markús bera af sér sakir og eftir að hafa yfirheyrt þrjú vitni – Guðrún Ólafsdóttir var þó aldrei leidd fyrir réttinn – reyndi Eggert Briem sýslumaður enn að koma á sáttum, eflaust orðinn langþreyttur á þessu þrefi vinnufólksins. Og nú var Markús orðinn leiðitamari. Hann hefði kannski ýjað að einhverju við Guðrúnu sem hefði „einungis verið í grandaleysi, en seinna nokkuð í ertíngum“ en mergurinn málsins væri sá að hann vissi ekki til þess að blettur hefði fallið á sóma konunnar.

– Og hafi ég talað þau meiðandi orð sem talin eru í kærunni þá var þeim ekki stefnt að Guðrúnu Ólafsdóttur „heldur máske til Guðmundar“, voru lokaorð Markúsar sem innsigluðu sáttina sem báðir málsaðilar féllust á.

Skrifuðu þeir svo nöfn sín í dómabókina, Jón Ólafsson, fyrir hönd systur sinnar, og Markús Ívarsson, vinnumaður á Litlahóli, en Eggert Briem sagði upp réttinum og prísaði sig sælan að argaþrasið varð ekki langvinnara.

En þegar ein báran rís er önnur vís. Aðeins hálfu ári síðar eða vorið 1855 rættist þetta spakmæli með svo eftirminnilegum hætti að aldrei leið úr minni Eggerts Briem sýslumanns.