Fara í efni
Menning

Markmiðið að tónlistin sé eins og stórt faðmlag

Ný plata tónlistarkonunnar Kjass – Fanneyjar Kristjáns Snjólaugardóttur – kemur út í dag. Þetta er önnur plata Kjass en sú fyrsta, Rætur, hlaut afar góðar móttökur og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í opnum flokki.

Nýja platan ber nafnið Bleed´n Blend. „Markmið mitt er að skapa tónlist sem er eins og stórt faðmlag sem kemur þegar við þurfum mest á því að halda. Það er alveg sama hvað við erum að fara í gegnum erfiða hluti, það er alltaf einhver sem skilur okkur og getur stutt okkur í gegnum það,“ segir tónlistarkonan.

Fanney syngur sem fyrr, Mikael Máni Ásmundsson og Anna Gréta, sem hafa spilað með Kjass frá upphafi eru á sínum stað, Rodrigo Lopes spilar á trommur, Stefán Gunnarsson á bassa, Ásdís Arnardóttir á selló og Tómas Jónsson spilar á Hammond orgel í tveimur lögum. Daníel Starrason spilar á gítar í lokalagi plötunnar. ,,Það sem kom á óvart í ferlinu er hvað við náum að komast á djúpt plan tilfinningalega. Þannig skapaðist eitthvað sem er miklu stærra og dýpra en ég hefði geta gert mér í hugarlund. Ég er mjög ánægð með þennan hóp. Þau virkilega gáfu hjarta sitt í þetta verkefni og ég hlakka mikið til að deila því með heiminum í lifandi flutningi.“

Spennandi tímar

Fanney segir margt spennandi fram undan, tónleikar og skemmtileg verkefni sem fylgja því að gefa út plötu. ,,Það er virkilega spennandi að gefa út eitthvað nýtt og það verður gaman að sjá hvernig fólk tekur í nýju plötuna.“

Fanney fær innblástur víðs vegar að og upplifir það alltaf mjög valdeflandi að sjá flotta og vandaða list sem aðrar konur eru að gera, segir hún. „Það skiptir mig máli að konur tjái sig á sinn hátt. Það er svo mikill munur á því að vera með sitt eigið verkefni sem kona í staðinn fyrir að ganga inn í eitthvað karllægt form. Ég er því ótrúlega þakklát fyrir það hvað ég hef geta gefið mér góðan tíma í þetta verkefni og unnið á mínum forsendum. Að skapa tónlist alveg út frá sér, sínum reynsluheimi og kvenleikanum í víðustu merkingu þess orðs er virkilega dýrmætt.“

Útgáfu plötunnar verður fagnað með útgáfutónleikum í Reykjavík og á Akureyri. „25. ágúst verð ég með útgáfutónleika á Græna Hattinum á Akureyri og 27. ágúst í Mengi í Reykjavík. Ég hlakka til að hitta ykkur og fagna útgáfunni,“ segir Fanney en hægt er að kaupa miða á tónleikana fyrirfram á vefsíðum tónleikastaðanna og nánari upplýsingar má finna á samfélagsmiðlum Kjass.

Árin í FÍH lærdómsrík

„Fanney hefur vakið athygli fyrir söng sinn, tónsmíðar og tónlistarmyndbönd síðustu ár. Hún er búsett á Akureyri og hefur verið dugleg að taka þátt í að glæða tónlistarlíf bæjarins ásamt því að kenna tónlist,“ segir í tilkynningu sem send var út í tilefni nýju plötunnar.

Fanney stundaði nám í djasssöng og tónlistarkennslu í Tónlistarskóla FÍH. Hún segir að árin í FÍH hafi verið mjög lærdómsrík og Kjass verkefnið hafi í raun og veru byrjað þar. „Þar lærði ég að útsetja og semja lög og í raun allt sem þarf að kunna til þess að geta stjórnað eigin tónlistarverkefnum. Ég hef verið að gera það síðan ég útskrifaðist ásamt því að kenna tónlist.“

Facebook: https://www.instagram.com/kjass.music/

Instagram: https://www.facebook.com/kjassid

YouTube: https://www.youtube.com/channel/UCN_2egMVAZTzXMzmrrjf1g