Fara í efni
Fréttir

María lifir í 3 til 6 mánuði komist hún ekki í meðferð – söfnun hafin

Akureyringurinn María Guðmundsdóttir, fyrrverandi landsliðskona á skíðum, greindist fyrir fáeinum dögum með mjög sjaldgæft og alvarlegt krabbamein. Læknar hafa tjáð Maríu, sem er á 29. aldursári, að komist hún ekki í rétta lyfjameðferð sem allra fyrst lifi hún ekki nema þrjá til sex mánuði.

Meðferðin er einungis í boði í Bandaríkjunum og ljóst að hún verður gríðarlega dýr. Tíminn er mjög naumur og því er hafin fjársöfnun til þess að aðstoða Maríu og eiginmann hennar, Ryan Toney, og fjölskyldu þeirra í baráttunni.

María, sem stundar nám í Bandaríkjunum, veiktist í haust og læknar komust að því að miltað hafði stækkað gríðarlega en áttuðu sig ekki á ástæðu þess. Henni versnaði mjög í desember í miðri prófatíð en að ráði lækna héldu þau Ryan sínu striki og ferðuðust til Noregs til að verja jólunum með foreldrum Maríu, eins og ráðgert var. Það var svo í Keflavík á leiðinni vestur um haf á ný að María treysti sér ekki til að halda áfram för vegna verkja. Eftir ítarlegar rannsóknir fundu læknar hérlendis út hvers kyns var. María lá í nokkrar vikur á Landspítalanum en var útskrifuð á laugardaginn.

María flutti 16 ára til Geilo í Noregi þar sem hún hóf nám í skíðamenntaskóla. Foreldrar hennar, Guðmundur Sigurjónsson og Bryndís Ýr Viggósdóttir, sem bæði voru einnig þekktir skíðamenn, fluttu á sama tíma til Noregs.

Smellið hér til að gefa í söfnunina

Ef fólk vill leggja inn á íslenskan bankareikning Maríu er númerið 0566 - 26 - 112906 og kennitalan 290693 3069

María Guðmundsdótir og Ryan Toney á Landspítalanum.