Fara í efni
Menning

Magnús Orri valinn Ungskáld Akureyrar

Viðurkenningar veittar í gær. Frá vinstri: Halla Jóhannesdóttir, fyrir hönd Egils Andrasonar, Stefán Elí Hauksson, Alda Rut Sigurðardóttir, Guðbjörg Helga Aðalsteinsdóttir fyrir hönd Magnúsar Orra Aðalsteinssonar, Jóndís Hinriksdóttir, Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, Þórður Sævar Jónsson og Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir.

Magnús Orri Aðalsteinsson hlaut 1. verðlaun í ritlistakeppni Ungskálda 2020 á Akureyri, fyrir ljóðið Sálarlaus hafragrautur, en úrslit voru kunngjörð síðdegis í gær. Vegna Covid-19 var það gert í beinni útsendingu á Facebooksíðu Akureyrarbæjar. Magnús Orri varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri á þessu ári, en keppnin er fyrir 16 til 25 ára.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin:

  1. Sálarlaus hafragrautur, eftir Magnús Orra Aðalsteinsson
  2. Rauðhetta og naflinn, eftir Stefán Elí Hauksson
  3. Biðin, eftir Öldu Rut Sigurðardóttur

Einnig voru veitt sérstök hvatningarverðlaun að þessu sinni en þau hlutu Jódís Hinriksdóttir, fyrir Orðin sem mig skorti og dropi af hollensku viskí og Egill Andrason fyrir ÍGRUNDAGAR.

Í dómnefnd sátu Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir, bókmenntafræðingur og aðstoðarskólameistari Menntaskólans á Akureyri, Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, bókmenntafræðingur og MA í ritstjórn, og Þórður Sævar Jónsson, ljóskáld, þýðandi og bókavörður á Amtsbókasafninu.

 

Verðlaunaljóð Magnúsar Orra, Sálarlaus hafragrautur

Samanbrotnir pappírsbútar
með myndum af merkum mönnum
gægjast úr veskinu mínu,
sem gægist úr buxnavasanum,
á buxunum sem gægjast undan rúminu.

Við, hinsvegar, erum alveg falin.
Hituð af sænginni, sem við gáfum hita.

Klukkutíma síðar,
eða hvernig líður tímanum, eiginlega?
Skipti ég löngu dauðum biskup
og jafn dauðum forsetanum,
út fyrir sígarettupakka
sem ég reyki einn,
á meðan sálarlaus systkini
borða hafragraut.

 

Aldrei hafa fleiri sent inn verk til þátttöku í ritlistakeppninni, en markmiðið með henni er að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16 til 25 ára. Alls bárust 100 verk frá 48 höfundum,19 drengjum og 29 stúlkum. Um var að ræða afar fjölbreytta flóru ritverka: Ljóð, ör- og smásögur, ljóðabálka og heila barnabók.

Verkefnið Ungskáld er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Hér fyrir neðan má sjá hin verkin sem hlutu viðurkenningu

 

2. verðlaun - Rauðhetta og naflinn eftir Stefán Elí Hauksson

„Hvað í veröldinni er þetta?“

„Þetta? Þetta er naflinn á mér mín kæra“

Rauðhetta virtist yfir sig óttaslegin er hún glápti á gapandi nafla úlfsins. Naflinn leit út sem stjörnuþoka eða sólkerfi á stærð við eldhúsborð sem hringsnerist í miðjum maga úlfsins.

„Af hverju er naflinn þinn svona stór?“ Spurði Rauðhetta

„Ó gæskan mín, hvernig dettur þér í hug að ég viti það?“

„Ég er hrædd“

Úlfurinn hafði fengið nóg af þessu endalausa kveini og tók Rauðhettu og tróð henni af öllu afli inn í naflann á sér. Hún skældi og skældi á meðan hún þeyttist í gegnum neónlituð ormagöng vitandi ekkert um það hvort hún héldi sínu litla lífi. Eftir rússibanaferðalagið steyptist Rauðhetta að lokum út úr naflagöngunum og lenti á nýjum stað. Hún lenti í vídd sem var ekki að nokkru leyti lík okkar eðlilegu veröld. Hér var ekkert nema hennar eigin amma. Blómin voru amma, skýin voru amma, plánetan var amma, dýrin voru amma og jafnvel hún sjálf var amma sín. Eins undarlegt og það hljómar þá upplifði Rauðhetta notalega tilfinningu við að vera í þessum heimi, hún jú elskaði ömmu sína.

Það leið þó ekki á löngu þar til stúlkan litla áttaði sig á því að hér lægju fyrir vandamál. Það varð henni ljóst að hennar eina fæða yrði amma hennar og hvernig gæti hún nokkurn tímann gert þarfir sínar vitandi að það væri hennar eigin amma sem hún sturtaði niður.

Eftir að dvelja hér um nokkur ár fann Rauðhetta frið. Henni tókst að venjast veröldinni og lifði hamingjusöm til æviloka.

 

3. verðlaun - Biðin eftir Öldu Rut Sigurðardóttur

Eftir að hafa tilkynnt komu mína til konunnar í afgreiðslunni tilli ég mér í sæti á biðstofunni. Ég er kannski heldur snemma á því í dag. Ég fæ mér því sæti upp við vegginn í horninu þar sem ég get auðveldlega séð allt rýmið sem biðstofan er. Mér finnst nefnilega frekar þægilegt að geta séð og tekið eftir hlutum svo heppnin var með mér þegar ég náði þessu fína sæti. Við hlið sætisins er lítið borð með stafla af tímaritum, gömlum tímaritum sem hefur örugglega ekki verið skipt um í nokkur ár. Ég sé þar Hús og híbýli og Vikuna en ég gríp mér heldur eitt eintak af Gestgjafanum, þar sem ég gæti mögulega fundið einhverjar uppskriftir til að prófa með nýju hrærivélinni minni sem ég fékk í innflutningsgjöf frá mömmu. Ég hef ekki fengið tækifæri til þess að fletta lengi þegar ég tek eftir því að konan sem situr þremur sætum frá mér stendur upp. Hún virðist fullorðin en ég átta mig ekki beint á aldri hennar. Hún er samt sem áður í ansi fallegri kápu. Hún er líka með fallegan köflóttan trefil sem hún lætur hanga yfir öxlum sér, sem er næstum því eins og minn sem ég á heima. Konan gengur í átt að vatnsvélinni virðist ætla að fylla á glasið sitt þegar nafn hennar er kallað upp og fer með lækni inn fyrir. Ég sný mér aftur að því að fletta Gestgjafanum.

Hugur minn fer alltaf á flug meðan ég bíð eftir læknistíma, sem og eiginlega öllu. Mér er næstum farið að finnast það óþægilegt hvað ég á það til að hugsa mikið og það að hugsa hvað ég er að hugsa. Ég hlakka til að hitta lækninn minn og segja honum hvernig mér líður. Eftir erfitt sumar hef ég núna verið á lyfjum í hvað, fjóra mánuði og verð ég að segja að mér líður bara aðeins betur. Ég hugsa enn þá mjög mikið og á það til að ofhugsa hlutina um of. Þunglyndið hefur batnað, held ég, en ég er miklu fljótari að ná mér upp aftur eftir miklar lægðir. Það er bara svo margt að pæla þessa dagana, svona kortér í jól. Ég á eftir að kaupa allar jólagjafir, bæði handa vinkonum og fjölskyldu og ég á eftir skila bókum á bókasafnið, sem ég þarf að fara að gera – vil ekki lenda í því að geta ekki tekið bækur að láni um jólin. Svo eru enn þá slatti af verkefnum eftir í skólanum og þá er prófatíðin alveg eftir. Hvernig á ég að meika þetta?! Sjit hvað ég hlakka bara til að komast í áhyggjulaust jólafrí, hversu næs það verður að leggjast undir hlýja sæng og lesa heilu dagana á eftir öðrum. Síðan ég keypti áritaða eintakið af nýju bókinni hans Arnalds Indriða hef ég verið að bíða með að byrja á henni fyrr en ég hef klárað allt í skólanum en þessi stanslausa bið er senn á enda. Í þessum hugsuðu orðum er kallað upp annað nafn, ekki mitt. Það stendur samt enginn upp og læknirinn kallar aftur en eftir engan árangur kemur hann inn á biðstofuna og kallar í þriðja sinn. Við fáu sem enn sitjum og bíðum horfum á hvort annað vandræðalega og ég yppti öxlum. Konan í afgreiðslunni bendir lækninum á strák sem labbar inn á biðstofuna. Nei, á ég að trúa þessu? Þetta er strákurinn sem ég er án djóks alltaf að mæta í skólanum. Hvað er hann að gera hér?

„Kristján?“ spyr læknirinn og beinir orðum sínum að sæta stráknum. Já, hann er sko sætur. Ég hef í alvöru aldrei séð jafn myndarlegan og vel gefinn strák og hann. Og nú veit ég hvað hann heitir!

„Það er hann“ svarar Kristján og ég skynja ákveðinn hressleika í röddinni hans sem er svo ljúf en djúp á sama tíma. Hann fer með lækninum inn fyrir og ég ímynda mér hvað hann sé að gera, hvað hann sé að tala um. Mér sýndist hann ekki vera við neina lélega heilsu þannig séð, bara voða hress. Gekk á báðum fótum og sveiflaði höndunum þannig það getur ekki verið að hann sé eitthvað stórslasaður þannig séð. En vá hvað hann var sætur!

***

Núna hef ég beðið óvenju lengi eftir tímanum mínum. Það er í alvöru eins og það sé eitthvert lögmál á biðstofum að láta fólk bíða aðeins lengur en það þyrfti. Núna er ég örugglega búinn að bíða í svona hálftíma og ekkert bólar á mínum lækni, hann hlýtur að fara kalla upp nafnið mitt þar sem enginn situr á biðstofunni nema ég. Frammi heyri ég að einhver er að kveðja sinn lækni og vona ég að það fari nú að koma að mér. Innst inni vona ég samt svo innilega að þetta hafi verið þessi Kristján. Það er í alvöru eins og ég finni anganin af honum þegar ég sé hann labba inn á biðstofuna aftur og áður en ég næ að átta mig á því almennilega er hann sestur á móti mér! – Í fyrsta lagi, hvað er hann að gera aftur á biðstofuna?... Og í öðru lagi, af hverju í ósköpunum settist hann á móti mér þegar hann hafði öll önnur sætin um að velja?! Ég sekk mér beint ofan í Gestgjafann, sem ég held enn þá á einhverra hluta vegna því það er langt síðan ég kláraði að fletta í gegnum blaðið. Ég ákveð að líta aðeins upp og tékka hvað hann er að gera. Kannski er hann bara í símanum að bíða eftir fari eða eitthvað. Það fyrsta sem ég sé er að hann horfir beint á mig til baka!

„Hæ“ kemur upp úr honum! Var hann að segja hæ við mig, getur það verið? Ég lít í kringum mig og ég átta mig aftur á því að við erum tveir einir á biðstofunni, þá hlýt ég að þurfa að svara.„Hæm“ segi ég, með mjög svo óþægilegu hiki og ég roðna í framan. Hann brosir til mín og ég brosi til hans þegar bið mín er á enda, ég heyri nefnilega nafn mitt loksins.

„Hermann?“ heyri ég lækninn minn kalla og ég stend upp.

 

Jóndís Hinriksdóttir fékk hvatningarverðlaun fyrir eftirfarandi sem hún kallar Orðin sem mig skorti og dropi af hollensku viskí

Þá og nú
Í rökkur dettur sál mín
Hún var róandi
Röddin

Í höfði er söngurinn
Sem eitt sinn
Var sunginn

Í hljóði er harmurinn
Þá og nú
Borinn

Orð
Afturbeygt skandinavískt orð
Kristallast í bæjarlæknum
Með haustlegu ívafi
Samt litlaust

Framliðið beiskt orð
Á fjallstoppi stendur
Rennir sér niður
Skriðurnar

Grátlegt tært orð
Speglast í andardrættinum
Friðsælt í hálkunni
Bráðnar

Gullfoss
Þyngslin í hálsinum
Raddböndin drukkna
Og gömul sár blæða
Líkt og gullfoss
Ef hann væri kona

Fyrirgefning
Í höfðinu bergmálast
Ryðguð fyrirgefning
Sem aldrei skilaði sér
Hvorki á varir
Né blað

Í höfðinu fæddist
Flæddi í vímu
Blindaðist á leiðinni
Hurðin læst
Komst ekki út

Liðnir og lifandi
Í nótt
Liðnir vaka og lifandi sofa
Í nótt
Ég missti minn þrótt
Stökk í fossinn
Fannst aldrei
Nú er ég ein af þeim liðnu sem vaka
Þegar þeir lifandi sofa

Hollenskt viskí
Ég missti hollensk viskí
Ofan í þriðja kaffibolla
dagsins
Hann var ekki síðasti kaffibolli
dagsins
Hann var samt sá síðasti
Sem ég naut þess að drekka kaffibolla
með
Hann ofnotaði engin orð
En hann lyktaði eins og hollenskt viskí

Heim
Ég sendi
Allt bárujárnið mitt
Heim
En það var enginn heima
Til að taka á móti því

Sjáumst
Jafnvel sjáumst við aftur
Sem svanir
Á tjörn
Sem varð til
Eftir rigningu
Lengst upp á Öxnadalsheiði

 

Egill Andrason hlaut einnig hvatningarverðlaun fyrir ÍGRUNDAGAR

Ertu með lyklana í vasanum?

Nei en ég er með hjartað í buxunum,
lifrina í heilanum,
rassinn í munninum,
sálina í skónum,
fingurna í augunum,
augun í hnakkanum,
og eyrun í símanum?