Fara í efni
Íþróttir

Magnaður viðsnúningur og SA jafnaði einvígið

Jóhann Már Leifsson skoraði þrjú mörk í kvöld og fagnaði sigri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Jóhann Már Leifsson skoraði þrennu fyrir SA Víkinga þegar Akureyringar jöfnuðu einvígið um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla með sigri á SR í Laugardaglnum. Heimamenn höfðu yfirhöndina í fyrstu tveimur leikhlutunum, en Akureyringar skoruðu fjögur mörk í þriðju lotunni og unnu eins marks sigur. 

Heimamenn í SR komust yfir í fyrsta leikhluta og bættu við öðru um miðjan annan leikhluta og var markahæsti maður deildarinnar, Petr Stepanek, þar að verki í bæði skiptin. Það leið þó ekki á löngu eftir annað mark SR þar til Róbert Máni Hafberg minnkaði muninn fyrir SA. Akureyringar gerðust ágengari við mark heimamanna í framhaldi af marki Róberts Mána, en það voru hins vegar heimamenn sem skoruðu næsta mark og náðu aftur tveggja marka forystu áður en annar leikhlutinn var úti. 

Þriðji leikhlutinn átti svo eftir að verða veisla fyrir áhorfendur. Snemma leikhlutanum skoraði Jóhann Már Leifsson glæsilegt mark þegar hann skautaði upp allan völlinn með pökkinn, lék á markvörð SR og skoraði. Aftur eins marks munur og spenna. Um þremur og hálfri mínútu síðar skoraði Jóhann Már Leifsson sitt annað mark og jafnaði í 3-3 eftir mikinn atgang við mark SR, en þá kom strax svar frá SR mínútu síðar þegar Sölvi Atlason skoraði fjórða markið og heimamenn aftur með eins marks forystu. Jóhann Már Leifsson kláraði þrennuna og jafnaði í 4-4 þegar rúmar níu mínútur voru eftir. Akureyringar komst svo yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum þegar Gunnar Arason skoraði fimmta mark SA Víkinga.

SR - SA 4-5 (1-0, 2-1, 1-4)

  • 1-0 Petr Stepanek (05:15). Stoðsending: Sölvi Atlason.
    - - -
  • 2-0 Petr Stepanek (29:04). Stoðsending: Gabríel Gunnlaugsson.
  • 2-1 Róbert Máni Hafberg (32:24). Stoðsending: Atli Sveinsson.
  • 3-1 Kári Arnarsson (38:24). Stoðsending: Ólafur Björnsson.
    - - -
  • 3-2 Jóhann Már Leifsson (42:23). Stoðsending: Gunnar Arason.
  • 3-3 Jóhann Már Leifsson (45:52). 
  • 4-3 Sölvi Atlason (46:50). Stoðsending: Petr Stepanek.
  • 4-4 Jóhann Már Leifsson (50:45). Stoðsending: Andri Már Mikaelsson, Gunnar Arason.
  • 4-5 Gunnar Arason (55:52). Stoðsending: Hafþór Andri Sigrúnarson, Orri Blöndal.
  • Atvikalýsing (ihi.is)
  • Leikmannalistar (ihi.is)

Jakob Ernfelt Jóhannesson varði 24 skot í marki SA, eða tæp 86%, en Jóhann Ragnarsson varði 35 skot í marki SR, eða tæp 88%. Heimamenn dvöldu í tíu mínútur í refsiboxinu, en Akureyringar í sex mínútur.

Þriðji leikur liðanna fer fram í Skautahöllinni á Akureyri á laugardag og hefst kl. 16:45.