Fara í efni
Íþróttir

Magnaður sigur Þórs og mikilvægur

Nikola Radovanovic var frábær í fyrsta deildarleiknum með Þór, þegar liðið vann ÍR í kvöld. Hann varði 20 skot og fagnar hér hressilega eftir eina vörsluna. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar léku við hvern sinn fingur í kvöld þegar þeir fengu ÍR-inga í heimsókn í Olísdeildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þetta var fyrsti leikur Þórs í deild þeirra bestu síðan vorið 2021 og þeir héldu upp á daginn með því að vinna mjög sannfærandi sigur. Lokatölur urðu 29:23 eftir að staðan var 16:9 í hálfleik.

Þórsarar náðu mest 10 marka forystu, 21:11, þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, ÍR-ingar náðu aðeins að laga stöðuna á síðustu 20 mínútunum en áttu aldrei möguleika á að ná heimamönnum og næla í stig.

Nýr markvörður Þórsara, Serbinn Nikola Radovanovic, fór hamförum í þessum fyrsta deildarleik hér á landi; varði alls 20 skot, nærri helming þeirra sem komu á markið. Hann stimplaði sig hressilega inn strax frá byrjun og þegar um 20 mínútur voru liðnar var Radovanovic með um 60% markvörslu.

Þessir lykilmenn Þórs í fyrravetur koma vel undan sumri og léku vel í kvöld. Frá vinstri: Hafþór Már Vignisson, Oddur Gretarsson og Brynjar Hólm Grétarsson.

Áhugavert er að rifja upp að ÍR-ingar voru þekktir fyrir blússandi skemmtilegan sóknarleik og mörg mörk á síðustu leiktíð en þeir lentu á vegg í kvöld; bæði fór Radovanovic á kostum í markinu sem fyrr segir og vörn heimaliðsins var góð. Ekki var annað að sjá en nýr þjálfari Þórs, Norðmaðurinn Daniel Birkelund, hefði kynnt sér leik ÍR-inga í þaula og búið sína menn einkar vel undir rimmuna, bæði varnar- og sóknarlega.

Mikilvægur sigur

Vart þarf að nefna hve mikilvægt var fyrir Þórsara að vinna þennan fyrsta leik; alltaf er dýrmætt fyrir nýliða að ná í fyrstu stigin, tiltrúin hlýtur að aukast og í ljósi þess að fyrirliðar og þjálfarar liðanna í deildinni spá því að bæði ÍR og Þór verði í botnbaráttu í vetur var sigurinn enn sætari en ella, og mikilvægur í stóra samhenginu.

Strax um næstu helgi mæta Þórsarar Íslandsmeisturum Fram á útivelli og í þriðju umferð koma Valsmenn í heimsókn í Höllina. Þeim er spáð sigri á Íslandsmótinu í vetur. Framundan eru því tvö erfið verkefni hjá nýliðunum en vitaskuld skemmtileg. Margir áhorfendur voru á leiknum í kvöld og stemningin góð, og svo verður vonandi áfram.

Þórður Tandri óheppinn

Línumaðurinn öflugi, Þórður Tandri Ásgeirsson, sem einnig er feykisterkur í vörn, var hreint magnaður fyrsta korterið í kvöld en braut þá klaufalega á Bernard Kristján Owusu Darkoh og fékk að líta rauða spjaldið; var útilokaður frá frekari þátttöku í leiknum. Í síðustu sókn Þórs hafði hann gert fimmta mark sitt í leiknum – staðan var orðin 9:3. Þórsarar hikstuðu ekki að ráði þrátt fyrir að þessi mikilvægi leikmaður bæði í vörn og sókn hyrfi á braut og það var ánægjulegt.

Þórður Tandri Ásgeirsson stöðvar Bernard Kristján Owusu Darkoh þegar 15 mín. voru liðnar af leiknum og fær að líta rauða spjaldið. Brynjar Hólm Grétarsson, lengst til hægri á efri myndinni, var mjög sterkur í vörninni í kvöld.

Liðsheildin hjá Þór var öflug í kvöld. Frábær markvarsla Radovanovic strax frá byrjun gaf tóninn og samherjar hans létu ekki sitt eftir liggja. Voru augljóslega mjög vel undirbúnir sem fyrr segir og sannarlega klárir í slaginn. Sömu leikmenn og í fyrra voru í aðalhlutverkum og fróðlegt verður að sjá hve breiddin er mikil þegar á reynir. Ungir og efnilegar strákar eru í hópnum og spennandi verður að fylgjast með þeim. 

Skyttan Igor Chiseliov frá Moldóvu, sem nýlega er genginn til liðs við Þórsara, var ekki með í kvöld. Hann er ekki kominn með leikheimild og fylgdist því með af áhorfendapöllunum að þessu sinni en vonandi næst að ljúka nauðsynlegri pappírsvinnu sem allra fyrst svo hann geti reimað á sig keppnisskóna.

Þeir gátu glaðst að leikslokum; Þórður Tandri Ágústsson og Daniel Birkelund þjálfari Þórs.

Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 6 (2 víti) Þórður Tandri Ágústsson 5, Aron Hólm Kristjánsson 5 (2 víti), Hafþór Már Vignisson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Hákon Ingi Halldórsson 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Hafþór Ingi Halldórsson 1.

Varin skot: Nikola Radovanovic 20 (1 víti) af 41 – 48,8% 

Mörk ÍR: Baldur Fritz Bjarnason 5 (3 víti), Róbert Snær Örvarsson 4, Jökull Blöndal Björnsson 4, Eyþór Ari Waage 3, Elvar Otri Hjálmarsson 2, Sveinn Brynjar Agnarsson 2, Bernard Kristján Owusu Darkoh 1, Örn Kolur Kjartansson 1, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1. 

Varin skot: Alexander Ásgrímsson 6, Ólafur Rafn Gíslason 3.

Öll tölfræðin