Fara í efni
Fréttir

Mælir aftur fyrir tillögu um þyrlu á Akureyri

Ein þyrlna Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, á Flugdeginum á Akureyri sumarið 2021. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Tillagan var lögð fram á síðasta þingi en var ekki afgreidd.

„Með tillögunni er lagt til að ein af þyrlum Landhelgisgæslu Íslands hafi starfsstöð á Akureyri allt árið um kring. Auk þess sem Akureyri er miðsvæðis á landinu er augljós tenging við sjúkraflugið í landinu sem er staðsett á Akureyri. Þar geta læknar á Akureyri mannað hluta þyrluáhafnar eins og nú er reyndin í tengslum við sjúkraflugið,“ segir m.a. í greinargerð með tillögunni.

„Í þessu samhengi er rétt að benda á að í fjölmiðlum hefur komið fram að tveir af sex þyrluflugstjórum gæslunnar búa fyrir norðan. Talið er að árlegur rekstrarkostnaður þyrlu á Akureyri sé um 500 millj. kr. og að uppbygging flugskýlis á Akureyrarflugvelli kosti 200–300 millj. kr. Nú þegar eru til staðar flugvirkjar sem geta sinnt viðhaldi auk þess sem starfsmenn í heilbrigðisstofnunum, slökkviliði og fleiri geta nýst starfseminni.“

Meðflutningsmenn Njáls Trausta eru Sjálfstæðismennirnir Bryndís Haraldsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Diljá Mist Einarsdóttir, Ólafur Adolfsson, og Guðrún Hafsteinsdóttir, Þorgrímur Sigmundsson Miðflokki, Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, bæði Framsóknarflokki, og úr Viðreisn Ingvar Þóroddsson og Eiríkur Björn Björgvinsson.

Léleg þjónusta á austurhluta landsins

Í tillögunni kemur fram að hlutfall þyrluflugs hefur verið um 15% af heildarsjúkraflugi í landinu. Nefnt er að þegar sjúkraflugi með þyrlum sé einungis sinnt frá Reykjavíkurflugvelli sé þjónustan léleg sem hægt sé að veita á austurhluta landsins.

„Fjarlægðir eru miklar og veðuraðstæður með þeim hætti að til að sinna sjúkraflutningum á austurhluta landsins með sjúkraþyrlum, í þeim tilfellum þar sem erfitt er að koma sjúkraflugi við, yrði nauðsynlegt að staðsetja þyrlu á svæðinu. Það er ekki langt síðan sjöttu þyrluáhöfninni var bætt við hjá Landhelgisgæslunni sem þýðir að tvær áhafnir eru á vakt um tvo þriðju hluta ársins. Með því að bæta við sjöundu þyrluáhöfninni væru tvær áhafnir til reiðu 95% af árinu. Það er mikilvægt skref sem nauðsynlegt er að stíga til þess að efla björgunargetu þyrluflugsveitar Landhelgisgæslunnar.“

Hér má sjá tillöguna og greinargerðina í heild