Fara í efni
Menning

Ludvig Kári Quartet og Rákir á Græna hattinum

Kvartett Ludvigs Kára Forberg heldur tónleika á Græna hattinum fimmtudaginn 7. október klukkan 21.00.

Þetta eru seinni útgáfutónleikar hljómplötunnar og geisladisksins sem ber nafnið RÁKIR, enda segir höfundurinn að þessi íslenska jazztónlist sé meðal annars innblásin af þeim rákum sem þoturnar sem fljúga yfir skilja eftir sig á himninum. Ludvig Kári Quartet flutti efni plötunnar fyrst á Jazzhátíð Reykjavíkur 2019, en svo kom alkunnugt babb í bátinn, platan kom að vísu út en ekki var unnt að leika opinberlega um sinn. Núna í sumarlok var svo haldin Jazzhátíð Reykjavíkur 2021 og þá kom kvartettinn fram á ný og hélt fyrri útgáfutónleika Ráka þar.

Einfalt mál og auðvelt er að segja að hvorir tveggja tónleikarnir á hátíðunum syðra gengu framúrskarandi vel og var einstaklega vel tekið, rétt eins og platan hefur fengið afar góða dóma. Þetta er verulega vandaður djass, sem hefur orðið til hér fyrir norðan, og hljóðfæraleikararnir eru ekki af lakara taginu. Ludvig sjálfur leikur á víbrafón, okkar ástkæri Philip Doyle blæs í saxafóna, Róbert Þórhallsson leikur á bassa og takturinn er í traustum höndum Einars Scheving. Platan og diskurinn verða til sölu á tónleikunum.

Ludvid Kári segist hafa flutt til Akureyrar 2007 og verkin öll á plötunni séu samin hér. Hann segist vera áhugasamur um flug, alinn upp við Reykjavíkurflugvöll, og rákirnar sem þoturnar hafi markað á víðum himninum yfir Eyjafirði hafi orðið sér innblástur. Lögin á plötunni séu eins konar abstrakt með áherslu á hljómaliti, línur og takt. Hann segist lengi hafa stefnt að því að gefa tónlistina út, en annir í vinnu, með fjölskyldu og við útiveru hafi tekið tíma. Svo hafi þetta loks farið að smella saman og platan orðið til. Fyrri tónleikarnir á Jazzhátíð Reykjavíkur hafi verið haldnir áður en platan kom út og síðan hafi eitt og annað slípast og lagast þannig að nú sé músíkin orðin meiri og betur unnin. Að loknum tónleikunum á Græna hattinum verði tekið til við að taka upp aðra plötu og hennar sé að vænta á næsta ári eða þarnæsta.

Það er sem sagt verulega fínn djass á Græna hattinum á fimmtudaginn og miða er hægt að kaupa á graenihatturinn.is