Fara í efni
Fréttir

Heilsugæslustöð við Norðurtorg?

Gamla Sjafnarhúsið í Glerárhverfi, þar sem verslunarmiðstöðin Norðurtorg verður opnuð á næsta ári. T…
Gamla Sjafnarhúsið í Glerárhverfi, þar sem verslunarmiðstöðin Norðurtorg verður opnuð á næsta ári. Til greina kemur að reisa húsnæði undir heilsugæslustöð á lóðinni. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Lóð við gamla Sjafnarhúsið í Glerárhverfi þykir koma greina undir heilsugæslustöð, en áður höfðu aðallega tveir aðrir staðir verið nefndir. Miklar framkvæmdir standa yfir á svæðinu og verslunarmiðstöðin Norðurtorg verður opnuð þar á næsta ári. Pétur Bjarnason, athafnamaður, sem stendur að Norðurtorgi, hefur boðið lóð á svæðinu undir heilsugæslustöð.

Ákveðið hefur verið að tvær heilsugæslustöðvar verði í bænum og leysi af hólmi þá einu, sem er í afar óhentugu húsnæði í miðbænum. Ljóst er að önnur stöðin verður nyrst á svokölluðum tjaldstæðisreit; svæði sem afmarkast af Byggðavegi, Þingvallastræti, Þórunnarstræti og Hrafnagilsstræti. Þar hefur verið tjaldstæði í fjöldamörg ár en svæðið er hugsað undir blandaða byggð og starfsemi; íbúðir, verslanir og þjónustu.

Næsta víst er, skv heimildum, að Framkvæmdasýsla ríkisins láti byggja aðra heilsugæslustöðina, þá á tjaldstæðisreitnum, en leigi húsnæði undir hina. Sú lóð sem sögðu er „skora hæst“ í athugunum vegna síðurnefndu stöðvarinnar er á mótum Skarðshlíðar og Undirhliðar, norðan kirkju og safnaðarheimilis hvítasunnusafnaðarins, sem oft hefur verið nefnd. Fleiri kostir hafa verið skoðaðir, ekki er langt síðan hugmynd var sett fram um að kanna kost lóðarinnar við Sjafnarhúsið/Norðurtorg og hún þykir einnig koma vel til greina. 

Stefnt er að því að starfsemi heilsugæslunnar verði flutt í nýju stöðvarnar tvær árið 2023.