Fara í efni
Menning

Litarek Sigurðar Árna í Ásmundarsal

Myndir: Ólöf Rut Stefánsdóttir

Akureyringurinn Sigurður Árni Sigurðsson opnar í dag einkasýninguna Litarek, í Ásmundarsal í Reykjavík. „Sigurður Árni hefur í fjölda ára einbeitt sér að rýmisskynjun í verkum sínum og skoðað hvernig uppbrot á hinni vanabundnu skynjun getur haft verkun sína langt út fyrir myndflötinn,“ segir í tilkynningu. „Á einkasýningu sinni í Ásmundarsal heldur hann rannsókn sinni áfram og sýnir stórskala málverk og speglaverk.“

Sýningin verður opnuð kl. 15.00 í dag og stendur til 12. júní.

„Í Ásmundarsal sýni ég stór verk sem hafa öll óræða vídd sem er á milli strigans og litaflatarins. Í þessum nýju verkum skil ég svo eftir ósnertan striga allan hringinn sem verður svona skemmtileg ögrun vegna þess að með því afbyggi ég hugmyndina sem ég er byrjaði með. Þannig bý ég til einskonar þrívídd, eða nýja vídd sem ég brýt svo niður á sama tíma,“ segir Sigurður Árni í tilkynningunni.

Sigurður Árni hefur lengi búið í Reykjavík og starfað jöfnum höndum þar og í Frakklandi frá því að hann lauk námi frá Institut des Hautes Études en Art Plastiques í París árið 1991. Hann hefur haldið tugi einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Verk eftir Sigurð Árna er að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi sem og í opinberum söfnum og einkasöfnum víða í Evrópu og má þar nefna að nýlega eignaðist nútímalistasafnið Centre Pompidou í Paris verk eftir listamanninn.

Sigurður Árni var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum á Ítalíu árið 1999 og árið 2020 var stór yfirlitssýning sett upp í Listasafni Reykjavíkur. Af stærri opinberum verkum má nefna útilistaverkið „Sólalda“ við Sultartangavirkjun, verkið „Samhengi” í Landsbanka Íslands í Reykjavík, glerverkið „Ljós í skugga” í dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og Vegglistaverkið „Sól úr norðri" í Urriðaholti í Garðabæ auk þess sem útilistaverkið „L´Eloge de la Nature“ er staðsett í bænum Loupian í Suður-Frakklandi.