Listsköpun fylgir Ólafi hvert fótmál

Eftir fjölmargar krókaleiðir um landslag, listsköpun og viðfangsefni - bæði á Íslandi og í Danmörku, er myndlistarmaðurinn Ólafur Sveinsson að opna sýningu á Akureyri, þar sem hann hefur búið síðastliðin 25 ár. Sýningin er á Amtsbókasafninu og ber heitið Sjónrænar frásagnir, en Ólafur er mikill sögumaður í eðli sínu. Blaðamaður Akureyri.net heimsótti hann á vinnustofuna hans í Kaupvangsstræti.
Þetta er annar hluti viðtalsins við Ólaf, sá fyrri birtist á Akureyri.net í gær:
22 ára gamall flutti Ólafur til Danmerkur og settist að í Kaupmannahöfn. „Ég reyndi að komast inn í konunglegu listaakademíuna, en þar er hægt að sækja um þrisvar sinnum og ef þú kemst ekki inn í þriðja skipti telst það fullreynt“, segir Ólafur. „Ég sótti um tvisvar án árangurs, en ég á ennþá þriðja skiptið inni. Ég hélt uppteknum hætti, að sýna listina mína sem oftast og víðast, og hélt fyrstu sýninguna mína í Danmörku í Jónshúsi. Ég hékk svolítið á bókasafninu og las allar þjóðsögur Jóns Árnasonar og myndirnar voru í þjóðlegum anda, mikið bar á tröllum og álfum. Uppeldið kom sterkt inn þarna, en á flakki með foreldrum mínum í æsku voru þjóðsögurnar aldrei langt undan.“
„Mamma sagði mér til dæmis, að ég ætti aldrei að henda steini án þess að segja; Hendi ég steini, engum að meini. Það væru álfar allt í kring og ég gæti kannski hæft þá. Þetta hef ég enn í heiðri og hendi engum steinum án þess að hafa þetta eftir,“ segir Ólafur. „Undantekningin er þegar maður er að fleyta kerlingar. Þá er þetta óþarfi,“ bætir hann við og brosir.
Á sýningu Ólafs á Amtsbókasafninu má til dæmis sjá litríkar og lifandi teikningar þar sem fígúrur úr barnamenningu nútímans birtast í bland við kynjaverur og náttúruvætti. Mynd: RH
Málaði undir Árstíðunum með frægum typpalistamanni
Ólafur verður seint sakaður um að sitja auðum höndum. Á meðan viðtalið rennur sitt skeið, er hann að tálga lítinn fugl, á meðan hann segir frá. Eins lagðist hann aldeilis ekki í kör í Danaveldi, þó að hann kæmist ekki inn í Listaakademíuna. Hann komst í kynni við mann sem hélt árlega svokallaðar 'messur' fyrir listafólk í Forum, stórri hljómleikahöll/tónleikahúsi í Kaupmannahöfn. „Ég tók þátt í þessu í tvö ár, þar sem ég setti upp borð og kynnti sjálfan mig og myndirnar mínar. Þarna gat maður komist í samband við gallerí eða selt myndir beint,“ segir Ólafur, en í Forum sáði hann fræum til framtíðar.
„Fyrra árið sem ég tók þátt í Forum, tók ég þátt í svolítið skemmtilegu atriði, en danska sinfónían átti að spila þarna Árstíðirnar eftir Vivaldi á sviðinu,“ rifjar Ólafur upp. „Þarna var okkur boðið að mála á meðan tónlistin ómaði, og við vorum svona 12 eða 14 sem tókum þátt. Sá frægasti sem var þarna, minnir mig að heiti Jens Ole Thorsen, og hann hafði öðlast frægð fyrir að mála með typpinu á sér í sjónvarpinu. Myndirnar voru abstrakt verk. Hann var reyndar í buxunum undir Árstíðunum, en hann drakk heila rauðvínsflösku með hverri mynd.“
Vinnustofa listamanns er veisla fyrir ljósmyndarann. Hjá Ólafi ægir saman hinum ýmsu verkfærum og áhöldum til listsköpunar af öllu tagi, í bland við furðulega og forvitnilega hluti. Mynd: RH
Þessar skemmtilegu viðarfígúrur, tálgaðar og málaðar af Ólafi, standa vaktina á vinnustofunni. Mynd: RH
Aftur heim til Íslands
Ólafur flutti aftur heim til Íslands aftur árið 1996, og þá lá leiðin norður í land. Fyrst bjó hann á Langanesi, þar sem konan hans fékk vinnu, en eftir að taka ákvörðun um að fara loksins í listnám, þá flutti hann í Eyjafjörðinn. Eftir að búa í Hrísey og á Hjalteyri, keyptu þau hjónin hús á Akureyri árið 2000 og hafa búið þar síðan.
„Ég kláraði málunarbraut í Myndlistaskólanum á Akureyri, sem var mjög gaman og gagnlegt. Einnig fór ég sem gestanemi eina önn í Finnlandi,“ segir Ólafur. „Akureyri hafði alltaf setið í huga mér, en í fyrsta skipti sem ég kom hingað var árið 1978 með foreldrum mínum og þá leið mér eins og ég væri kominn til útlanda. Mér fannst svo ólíkt umhverfi hérna heldur en í Reykjavík. Reyndar hafði ég svo líka aðeins ílengst hérna á níunda áratugnum og endaði á að fara á sjó frá Siglufirði.“
Nýtti tengslin til Danmerkur og sýndi meira þar
„Þegar ég kláraði Myndlistaskólann fór ég að sýna á fullu, um allar trissur á Íslandi,“ segir Ólafur. „Svo fór ég að þreifa fyrir mér aftur í Danmörku og nýtti mér tengsl sem ég hafði myndað þar áður. Tilviljanir réðu því að ég fékk að sýna í galleríi þar, komst að vegna þess að ég gat stokkið inn með tilbúna sýningu með litlum fyrirvara. Þessi sýning hafði skemmtileg snjóboltaáhrif, en stuttu áður en átti að taka sýninguna niður, fékk ég símtal frá Randers, þar sem óskað var eftir að fá sýninguna í ráðhúsið þar í bæ. Fljótlega áður en sú sýning átti að hætta, fékk ég aftur erindi frá fyrirtæki sem heitir S4S, um að fá að hengja verkin upp hjá sér. Þannig flökkuðu þessi verk um landið, og ég seldi langflest af 63 verkum í leiðinni.“
„Ég gerði einu sinni syrpu af leikfangamyndum, og ég sýndi þær til dæmis í Bamsemuseet á Skagen, sem er mjög skemmtilegt bangsasafn,“ segir Ólafur. „Ég hef líka sýnt þær hérna heima. Á bangsasafninu vöktu myndirnar mínar athygli húseigandans, sem óskaði eftir því að ég myndi koma með sýningu aftur næsta ár, og bjóða með mér fleiri Íslendingum.“ Eins og Ólafi er von og vísa, tók hann vel í þetta og bauð með sér fólki sem hann þekkti úr Myndlistarskólanum á Akureyri. Jónína Björg Helgadóttir, Guðmundur Ármann, Hrönn Einars, Dagrún Matthíasdóttir, Þóra Karls, Þrándur Þórarinsson og Þorri Hringsson tóku þátt í þessu verkefni með Ólafi við góðan orðstír.
„Svo óheppilega vildi til að þetta var hitabylgjusumar í Danmörku og fólk sem heimsótti Skagen hafði oft meiri áhuga á því að vera úti að borða ís á ströndinni en að skoða listasýningu innandyra,“ rifjar Ólafur upp um sýninguna. „En það kom lítið að sök og við fengum flotta umfjöllun í fjölmiðlum og sýningin vakti athygli.“
Sýningin á Skagen, Nordisk perspektiv. Þarna sjást verk Þorra Hrings, Þóru Karls, Jónínu Bjargar Helgadóttur og Jónína að hengja upp. 4 klippimyndir Ólafs lengst t.v.
Tréskurðurinn alltaf staðið nærri
Ólafur hefur ekki bara stundað myndlist, en hann sker töluvert út í tré, eins og faðir hans gerði. „Ég vildi að ég hefði haft rænu á því að læra meira af honum, á meðan hann hafði heilsu til,“ segir Ólafur. „Hann fékk krabbamein og sagði að hann ætlaði bara að standa á meðan stætt er. Það gerði hann og vann á meðan. Þá fór ég oft að hjálpa honum og lærði mikið á þeim tíma. Einn daginn datt hann og gat ekki staðið upp aftur, fór þá á spítalann og dó stuttu síðar. Þetta var árið 2010, en mamma fór svo 2013.“
„Ég var byrjaður að tálga fugla þegar ég var 10 ára,“ segir Ólafur, og þvertekur fyrir það að hafi verið af sömu ástæðu og Emil í Kattholti. „Ég hef haft tálgunina með mér svona í og með í gegnum tíðina, ekki bara fugla heldur allskonar. Einnig hef ég tálgað úr horni og beini. Pabbi vann mikið fyrir Þjóðminjasafnið og ég smitaðist svolítið af þessari þjóðlegu stemningu og hef gert aska og fleira í þeim dúr.“
Að jörðu skalt þú aftur verða...
Ólafur hefur líka smíðað duftker, sem eru ætluð undir jarðneskar leifar fólks sem lætur brenna sig í stað þess að vera jarðað með hefðbundnum hætti. „Durftkerið sem ég smíðaði vann til annarra verðlauna í keppni um duftker á Ári skógarins 2011. Ég notaði reynivið, en hann er viður sakleysisins. Til dæmis voru systkini tekin af lífi fyrir sifjaspell fyrir margt löngu og jarðsett í Leyningshólum inn í Eyjafjarðarsveit. Til sönnunar þess að þau voru saklaus dæmd, segir sagan, óx stærðarinnar reynitré upp af gröf þeirra sem var ekki í vígðri jörð,“ segir Ólafur. Hér, eins og í öllu sem Ólafur tekur sér fyrir hendur, skín í gegn virðing og skilningur á efninu sem hann vinnur með.
Ólafur segir að það sé vandasamt að skera út í horn og bein. Hér eru nokkrir svoleiðis gripir eftir hann. Mynd: RH
Tálguðu fuglarnir hans Ólafs eru einstakir, hver fyrir sig. Þeir hafa verið til sölu á Gestastofunni í Gíg í Mývatnssveit, þar sem Ólafur hefur starfað sem landvörður í sumar. Á sýningu Ólafs á Amtsbókasafninu eru hins vegar bara myndlistarverk, en sú sýning verður opin út september. Mynd: RH
Listamaðurinn Ólafur á veraldarvefnum:
Þetta var seinni hluti viðtals akureyri.net við Ólaf Sveinsson, en fyrri hlutinn var birtur í gær.