Fara í efni
Fréttir

Lindex á Íslandi brátt hluti S4S veldisins

Mynd af vef Lindex í Svíþjóð.

Framhaldssagan um sænsku fataverslunina Lindex heldur áfram! Félagið S4S hefur tilkynnt að það muni formlega taka við sem umboðsaðili Lindex hér á landi 1. mars.

Fyrr í dag var tilkynnt að íslenska félagið LDX19 hefði misst samning við móðurfélagið í Svíþjóð og að 10 verslunum hérlendis yrði lokað. Í kjölfarið greindi mbl.is frá því að annar íslenskur aðili myndi taka við verslunum, ekki væri vitað um hvern væri að ræða en nú hefur fyrirtækið S4S sem sagt tilkynnt að það taki við.

Lindex verslun hefur verið á Glerártorgi í nokkur ár sem kunnugt er. Ekki hefur verið tilkynnt hvort S4S hyggst starfrækja hana þar áfram en félagið rekur nú þegar þrjár verslanir í verslunarmiðstöðinni; Steinar Waage, Ellingsen og Air voru opnaðar í sameiginlegu rými í nóvember – eins og akureyri.net greindi frá hér.

Þar til S4S tekur við Lindexumboðinu hérlendis „verður unnið markvisst að undirbúningi, þar á meðal ráðningu starfsfólks og leit að hentugu leiguhúsnæði fyrir verslanir Lindex. Nánari upplýsingar um opnun verslana verða kynntar þegar þær liggja fyrir. Samhliða rekstri verslana Lindex mun S4S einnig taka við rekstri netverslunar Lindex á Íslandi,“ sagði í tilkynningu frá S4S í dag.

S4S rekur fjölda verslana; Steinar Waage, Ellingsen og Air voru áður nefndar, en undir hatti S4S eru einnig Kaupfélagið, Ecco, Skechers og S4S Premium Outlet, svo og netverslanirnar Skór.is, Ellingsen.is, Air.is, Rafhjólasetur.is og Premiumoutlet.is.

Verslunum Lindex á Íslandi verður lokað

Fullyrt að Lindex starfi áfram á Íslandi