Fara í efni
Menning

Lífið hefur verið stórkostlegt ævintýri

Lífið hefur verið stórkostlegt ævintýri

„Ég hef alltaf verið sískrifandi – og man varla eftir mér öðruvísi en með litla kompu í annarri hendi og penna í hinni, svolítið sveimhuga og dreyminn á svip, sem sjálfsagt heitir öðru nafni að vera utan við sig,“ segir skjáldið og rithöfundurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson sem fagnar 40 ára rithöfundarafmæli í ár.

„Já, tíminn blakar vængjunum heldur ört,“ bendir hann á og rifjar upp menntaskólaárin heima á Akureyri, fæðingarbæ sínum: „Fyrstu ljóðin mín birtust í Gambra, því sögufræga stjórnarandstöðublaði Menntaskólans á Akureyri, en blóðrauðara blað er vandfundnara í íslenskri útgáfusögu, gott ef skólameistari bannaði það ekki um tíma, sakir skrifa um hann sjálfan, sem ég hygg að hafi verið á mína ábyrgð. En gott og vel, þarna var kominn upptakturinn að fyrstu ljóðabókinni.“

Kringumstæður var heiti hennar, segir skáldið, fyrsta bókin sem þeir félagar Arnar Björnsson og Jóhannes Sigurjónsson hjá Víkurblaðinu á Húsavík gáfu út og ku skræðan atarna átt að vera upphafið að viðamikilli bókaútgáfu blaðsins, „en þeir vinir mínir, Arnar og Jóhannes, gáfu nú ekki út fleiri, fyrsta ljóðabókin mín var upphafið og endirinn á útgáfuferli blaðsins.“

Heldur illa farið með pappírinn!

Og Sigmundur Ernir minnist fyrstu umsagnarinnar um bókina, frá afa hans og nafna sem fékk gefins eitt af fyrstu eintökunum, en karlinn fletti skræðunni og kvað svo upp úr með það að hér væri heldur illa farið með pappírinn. „Þetta er fyrsta gagnrýni sem ég fékk á ljóðaskrifin mín.“

Blessunarlega hafa umsagnirnar skánað á seinni árum – og gott betur. Nýjasta ljóðabók Sigmundar Ernis, Skáldaleyfi, sem kom út í haust, hefur fengið glimrandi dóma, ausin stjörnum og umsögnum á borð við „fengur fyrir ljóðaunnendur“ og „hér er boðið upp á allt sem prýðir góða ljóðabók“ og er bókin sögð hafa „allt til að bera sem góð ljóðabók á að hafa – yndisleg bók.“ Og norðlenski rithöfundurinn kveðst fráleitt kvarta undan viðtökum bóka sinna á þeim 40 árum sem liðin eru frá því menntaskólaskáldið kvaddi sér fyrst hljóðs, en bækur Sigmundar Ernis eru orðnar vel á þriðja tuginn, meira en tíu ljóðabækur, svo og smásögur, ævisögur og minningabækur sem margar hverjar hafa notið metsölu og margvíslegra viðurkenninga á borð við „besta ævisaga ársins“ í þrígang að mati íslenskra bóksala.

„Og allt þetta hef ég nú bara vélritað og síðar hamrað á tölvuna með vísifingrunum beggja handa af því að ég þáði ekki vélritunarkennsluna í Gagganum á sínum tíma. En puttarnir tveir hafa nú engu að síður dugað, bæði á ritvellinum og í fjölmiðlum,“ bendir hann á, sem leiðir hugann að áratugalangri fréttamennsku Akureyringsins sem byrjaði ferilinn á síðdegisblaðinu Vísi sumarið 1981.

„Ég ætlaði að skrá mig í íslensku í Háskóla Íslands um haustið, en Ellert B. Schram ritstjóri, sem réð mig, óreyndan guttann að norðan, sagðist ekki mega við því missa mig, því sameinuð blöðin, Vísir og Dagblaðið, sem runnu saman í eitt um haustið, þyrftu á öllu sínu afli að halda til að leggja til atlögu við sjálfan Moggann. „Fréttamennska og sjónvarpsþáttagerð varð að ævistarfi mínu, meðfram ritstörfum – og ég er óendanlega þakklátur fyrir allt það stórkostlega ævintýri sem fjölmiðlarnir hafa fært mér, jafnt um land allt sem og heiminn þveran og endilangan,“ segir Sigmundur Ernir sem hélt á Helgarpóstinn eftir að hafa mótað helgarblað DV, en þaðan lá leiðin á Ríkissjónvarpið uns hann tók þátt í mótun Stöðvar 2 sem var vinnustaður hans fram á nýja öld.

Barátta, ævintýri og ást

„Ég hef átti því láni að fagna að taka þátt í stofnun þriggja sjónvarpsstöðva sem allar hafa verið hæfilega klikkaðar, en fyrr utan Stöð 2 eru það NFS og Hringbraut. Ég hef sumsé lifað og hrærst á einkareknum sjónvarpsstöðvum – og þar hefur baráttan svo sannarlega verið upp á líf og dauða, en það hefur líka búið til ævintýrin og einstaka vináttu, fyrir nú utan ástina,“ en konu sinni, Elínu Sveinsdóttur sjónvarpsframleiðanda kynntist Sigmundur Ernir á upphafsárum Stöðvar 2 og eiga þau samtals sex börn. „Það má ekki minna vera,“ segir skáldið „og ég hef meira að segja staðið við kynjakvótann; þrjár dætur og þrír synir.“ Elsta dóttir hans og frumburður lést árið 2009 eftir áralanga baráttu við illvígan hrörnunarsjúkdóm og fjölfötlun, en um samskipti þeirra feðgina skrifaði Sigmundur Ernir rómaða bók, Barn að eilífu, árið 2004 sem er hans söluhæsta bók – og selst enn. „Hún hefur selst í meira en fimmtán þúsund eintökum – og það má heita að hvarvetna sem ég fer fái ég þakkir fyrir að deila leiðangri okkar Eydísar heitinnar Eddu frá því hún fæddist og flutti að heiman. Ég lagði líka hjartað á borðið í þessari bók, leyfði mér að sýna hvað maður getur verið ófullkominn pabbi, óþolinmóður og fordómafullur og alltof upptekinn af sjálfum sér, en undir niðri er þetta samt ástarsaga, eins einlæg ástarsaga og ástarsögur eiga að vera.“

Sigmundur Ernir hefur skrifað ævisögur fjölda fólks, þar á meðal Guðna Ágústssonar, Vilborgar Örnu Gissurardóttur, hestakonunnar Rúnu Einarsdóttur og flugvélasölumannsins Birkis Baldvinssonar „en það hafa ekki síður verið sögur mínar af svo til ókunnu alþýðufólki, ég nefni bækurnar Magnea, Munaðarleysinginn, Níu líf – og fleiri mætti nefna – sem hafa vakið mesta athygli, jafn merkilegt og það nú er. En ævi manns er náttúrlega einstakt viðfangsefni af því að engin tvö líf eru eins – og lífsins vegur er oft og tíðum miklu skáldlegri, ótrúlegri og magnaðri en ýktustu skáldsögur.“

Elska ólíkanir skoðanir

Sigmundur Ernir verður sextugur á næsta ári og þegar hann horfir um öxl getur hann ekki sagt annað en að hann hafi upplifað viðburðaríka ævi. „Það liggur við að maður sé búinn að gleyma þingmennskunni,“ segir hann kankvís. „Ég sat inni fjögur ár, eins og það heitir, eitthvert viðburðaríkasta kjörtímabil í þingsögu lýðveldistímans – og lagði mitt af mörkum við að reisa land og þjóð úr rústum efnahagshrunsins frá 2009 til 2013, allan tímann í fjárlaganefnd og varaformaður hennar síðustu misserin. Þetta var gríðarleg vinna, oft að nóttu sem degi, á byltingarárunum, en ég sé ekki eftir nokkurri mínútu, enda merkilegur tími á merkilegum vinnustað, þótt pólitíkin geti verið ómerkileg í eðli sínu. Það á nefnilega ekki við mig að vaða í manninn. Ég elska ólíkar skoðanir. Þar vegur fréttamaðurinn í mér þungt. Ég er lýðræðissinni fram í fingurgóma og frábið mér einsleitni í samfélagsumræðunni og þjóðlífinu almennt. Við eigum að viðurkenna og fagna breiddinni í samfélaginu – og leyfa öllum að njóta sín. Hægrimenn eru jafn lífsnauðsynlegir fyrir heilbrigð skoðanaskipti og vinstrimenn – og miðjumenn sömuleiðis,“ sem minnir Sigmund Erni enn og aftur á orð afa síns og nafna sem sagði á sinni tíð að þrennt væri mikilvægast í lífinu; að vera bjartsýnn, eignast góða konu og kjósa Framsóknarflokkinn.

Í nýju ljóðabókinni, Skáldaleyfi, kennir marga grasa, en ort er um náttúruna, yfirgefnar sveitir, ástina, æviveginn – og missinn, eins og í eftirfarandi ljóði sem kviknaði við fráfall móður skáldsins, Helgu, fyrir þremur árum:

Fylgd

Þegar ég fylgi þér
til grafar

fylgir þú mér
áleiðis

eftir malarslóðanum
milli grösugra balanna

það gnauðar í trjánum
heyrist í fugli

og ef mig svíkur ekki
minningin, síkvik minningin

höldumst við enn
í hendur.