Fara í efni
Mannlíf

Lífið, gleðin, áfallið og eldmóðurinn

Kristján Þorsteinsson og afastrákurinn Tómas Örn Tómasson.

Kristján Þorsteinsson, Svarfdælingur og fyrrverandi bóndi er húsvörður í KA-heimilinu. Hann fékk heilablæðingu árið 2013 og missti minnið um tíma en náði þeim áfanga árið 2020 að verða stórmeistari í bridge. Í Bridgefélagi Akureyrar eru 15 stórmeistarar og 180 á landinu öllu.

Akureyri.net gómaði Kristján á kaffihúsi og spjallaði við hann um spilið, keppnisskapið, áfallið, eldmóðinn og framtíðardrauma spilamannsins.

Notaður sem uppfyllingarefni

Kristján er fæddur og uppalinn á Uppsölum í Svarfaðardal. Það var mikið spilað á heimilinu og hann var aðeins fjögurra til fimm ára gamall þegar faðir hans og bræður fóru að „nota hann sem uppfyllingarefni“ við spilaborðið, eins og Kristján orðar það. Þeir feðgar hlógu að honum í fyrstu en drengurinn átti auðvelt með að tileinka sér nýja hluti og var því fljótur að ná tökum á spilamennskunni enda fannst honum þetta mjög skemmtilegt. Feðgarnir hættu fljótlega að hlægja.

Sjálfstraustið jókst

Kristján hélt áfram að spila og fór að keppa fyrir ungmennafélagið sitt, Þorstein Svörfuð, í sambandskeppnum sem UMSE stóð fyrir og vann nokkrum sinnum. Þá var spilað einu sinni í viku vítt og breitt um Eyjafjörðinn. Kristján fór mjög fljótlega að vinna titla og hlutirnir þróuðust þannig að hann fór að spila með bridgefélagi Dalvíkur og nágrennis. „Þá hittumst við einu sinni í viku og spiluðum yfir vetrartímann“, segir Kristján „og tókum þátt í helstu mótum hér á svæðinu, og þá byrjaði maður aðeins að fara á Íslandsmót“, bætir stórmeistarinn við.

Það var mjög góð tilfinning að fara á fyrsta Íslandsmótið, segir Kristján. „Þá sá maður þessar stóru stjörnur sem urðu heimsmeistarar síðar meir. Maður spilaði við þessa allra bestu.“

Árið 1996 náðu hann og spilafélagi hans 4. sæti í tvímenningi á Íslandsmóti. Það var toppurinn á þeim tíma. Þá sá Kristján að hann átti raunverulega möguleika og sjálfstraustið jókst. Honum líður vel við borðið og er slétt sama þó andstæðingarnir hafi unnið einhverja heimsmeistaratitla.

Kristján varð svo Íslandsmeistari í einmenningi árið 2006 og í 2. sæti 2015. „Svo hefur þetta undið upp á sig. Maður spilar meira og fer í fleiri keppnisferðir. Mörg skemmtileg mót eins og kjördæmamót, þar sem öll kjördæmin keppa. Og við, Norðurland eystra, höfum unnið það níu sinnum og höfum næst flesta titla á eftir Reykjavík“, segir Kristján.

Áfallið

„Árið 2013 þá lendi ég í áfalli. Ég fékk heilablæðingu og missti minnið. Það horfði aðeins til verri vegar. Ég byrjaði strax aftur að spila eftir áfallið en gerði þá alls konar vitleysur sem höfðu ekki sést áður. En svo kom þetta bara aftur með þjálfun og ég náði nánast fyrri styrk“, segir Kristján og bætir við: „Eftir að ég náði mér út úr þessu þá hefur mér gengið ótrúlega vel; náð langt á Íslandsmótum og í bikarkeppnum og verið alls staðar við það að narta í toppinn“, bætir Kristján við en þarf samt að passa að verða ekki þreyttur.

Fylgifiskur áfallsins

Í veikindum sínum var Kristján mjög þunglyndur á tímabili en gekk til sálfræðings meðan hann var á Reykjalundi í endurhæfingu árið 2017. Sálfræðingurinn var nýútskrifuð kona sem „tók hann í bakaríið“ eins og hann orðar það. Hún kenndi honum að gera það besta úr hverjum degi og hafa jákvæðnina að leiðarljósi. Hann var í meðferð hjá henni í fjórar vikur til að byrja með en þá var dvöl hans framlengd um fimm vikur. Hann komst ekki að því fyrr en seinna af hverju það var: „Því hún sagði að ég yrði dauður eftir ár ef ég færi; að hún þyrfti að taka mig aðeins meira í gegn“, segir Kristján.

„Þegar enginn vildi mig í vinnu var KA tilbúið að taka við mér,“ segir Kristján. Hér er hann með Sævari Péturssyni, framkvæmdastjóra KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stórmeistari 2020

Tvö ár eru síðan stórmeistaratitillinn var í höfn. Til að öðlast þann titil þarf að hafa náð 500 meistarastigum (mst.) og þar af verða minnst 250 að vera gullstig. Þar með náði Kristján toppnum en hefur haldið áfram að safna stigum og hefur 594 í dag. „Þetta er markmið sem ég reiknaði með að hyrfi á áfallstímanum,“ segir Kristján; „að ég myndi ekki ná þessu. En það var nú annað!“

Gullstigin skipta mestu máli

„Því miður er það ekki þannig eins og í skákinni að maður fái borgað fyrir að vera stórmeistari“, segir Kristján hlæjandi og útskýrir: „Maður heldur áfram að safna stigum og þetta hefur gerst mjög hratt á síðustu árum. Það er mjög erfitt að safna þessum stigum. Maður keppir í bridgefélaginu hér og fær kannski 20 stig fyrir að vinna kvöldið. Þú þarft 100 þannig stig í eitt meistarastig svo þetta er tímafrekt. En svo höfum við verið að standa okkur mjög vel í keppnum fyrir sunnan, náð langt þannig að þetta telur mjög hratt þegar maður vinnur gullstig.“

Engir styrkir veittir til þjálfunar

Helsta markmiðið í dag? „Ná á toppinn“, svarar hann hlæjandi. „Gera eins vel og ég get, ná eins langt og ég get, og helst aðeins lengra“, bætir stórmeistarinn við og viðurkennir að hann þoli ekki að tapa.

„Mig hefur langað að spila fyrir Íslands hönd, en við sem búum hérna fyrir norðan eigum eiginlega enga möguleika, bæði vegna kostnaðar og vegna þess að öll þjálfun fer fram í Reykjavík – svo þetta er erfitt.“ Hann þyrfti að vera í Reykjavík hálfsmánaðarlega og engir styrkir eru veittir í þetta.

En hefur Kristján hugleitt að flytja suður? „Nei, það hef ég ekki gert. Mér líður mjög vel hérna á Akureyri“, svarar hann.

„Það vildi mig enginn í vinnu“

Kristján er harður KA-maður og hefur unnið hjá félaginu síðan 2014. „Þegar enginn vildi mig í vinnu var KA tilbúið að taka við mér,“ segir hann. Það vildi enginn mann í 20% vinnu en það var hlutfallið sem hann mátti vinna til að byrja með. „Í dag má ég vinna 70-80% af því að alla daga er ég þreyttur, ég vakna þreyttur á morgnana, er þreyttur allan daginn og fer þreyttur að sofa“, segir Kristján.

Lífið og gleðin

Og Kristján segir að lokum: „Að spila bridge hefur gefið mér bæði gleði og sorg. Og mér finnst það ótrúlega skemmtilegt og félagsskapurinn góður. Þar sem þetta snýst um hugann þá er þetta bara gleði.“ Hann bætir við: „Og allt sem ég get gert til að gleðja þá sem eru í kringum mig, það geri ég. Bros kostar ekkert!