Fara í efni
Fréttir

Legsteinn loks á leiði utanveltumannsins

Við leiði Frímanns í kirkjugarðinum á Naustahöfða. Frá vinstri: Helgi Jónsson, útgefandi bókarinnar um Frímann B. Arngrímsson, Sólveig Sigurrós Ingvadóttir, Sigrún Kristjánsdóttir eiginkona Haraldar Haukssonar, Valdimar Gunnarsson höfundur bókarinnar, Haraldur Hauksson, Svanfríður Ingvadóttir og Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, sambýliskona Valdimars. Myndir: Skapti Hallgrímsson

„Kennari, raffræðingur, vísindamaður en umfram allt hugsjónamaður,“ stendur á legsteini Frímanns B. Arngrímssonar í gamla kirkjugarðinum uppi á höfðanum á Akureyri.

Frímann dó 6. nóvember 1936 og hvíldi í ómerktri gröf í næstum níu áratugi; það var ekki fyrr en nú í vikunni sem legsteini var komið fyrir á leiðinu. Valdimar Gunnarsson, fyrrverandi menntaskólakennari, sendi í síðasta mánuði frá sér bókina Utanveltumaður, um ævi og störf Frímanns, og það voru þeir Helgi Jónsson, útgefandi, sem tóku sig til og létu gera legsteininn. 

Systurnar Sólveig Sigurrós og Svanfríður Ingvadætur voru viðstaddar þegar steininum var komið fyrir, svo og Haraldur Hauksson frændi þeirra. Langamma þeirra, Svanfríður Bjarnadóttir, var hálfsystir Frímanns.

Valdimar Gunnarsson, höfundur bókarinnar um Frímann, og útgefandinn, Helgi Jónsson, koma legsteininum fyrir.

Steinninn úr Torfufellsá

„Það er von okkar Valdimars að fólk rati á Frímann hér eftir, taki í það minnsta eftir honum, enda hefur hann legið óbættur hjá garði í 90 ár,“ sagði Helgi Jónsson eftir stundina í kirkjugarðinum. „Frímann á það skilið að minningu hans sé haldið á lofti. Misskilinn af sínum samtíma, má segja að hann hafi verið frumherji sem flestir fyrirlitu. En allir hans útreikningar varðandi vatnsafl og virkjanir hafa staðist, þótt samtímamenn hans hafi hunsað hann.“

Steinninn var tekinn úr Torfufellsá í Eyjafirði, en veturinn 1873-74 var Frímann vinnumaður í Villingadal, sú jörð liggur að Torfufellsánni. „Þetta er stuðull sem án efa hefur brotnað úr gilveggnum fyrir löngu,“ segir Valdimar.

HVER VAR FRÍMANN B. ARNGRÍMSSON?
Saga Frímanns er stórmerkileg, sannarlega óhefðbundin og ekki ofsagt að bók Valdimars er mjög áhugaverð. En hver var Frímann, þessi forvitnilegi maður?
 

Valdimar Gunnarsson upplýsir að umræddur maður, Arngrímur Frímann Bjarnason, fæddist í Sörlatungu 17. október. 1855. Hann var lausaleiksbarn, móðirin utan úr Fljótum en faðirinn ungur prestssonur frá Bægisá.

Einhver kann að klóra sér í höfðinu eftir lestur síðustu setningar því þar birtist ekki nafnið sem áður hefur verið fjallað. Valdimar útskýrir máið:

  • Hann var skírður Arngrímur Frímann og var Bjarnason. Þegar hann var í Ameríku og Englandi, og reyndar allt þar til hann fór til Frakklands kallaði hann sig Freeman B Anderson en í Frakklandi tók hann upp nafnið Frímann B. Arngrímsson sem hann bar til æviloka.
Gaman er og fróðlegt að stikla á stóru þegar Frímann B. Arngrímsson er annars vegar. Valdimar Gunnarsson segir svo frá:
 
  • Frímann ólst upp í Fljótum hjá vandalausu fólki til 9 ára aldurs en var eftir það hjá föður sínum á Vöglum á Þelamörk. Hann var þó einn vetur hjá presti í Hegranesi til náms og eitt ár vinnumaður í Villingadal.
  • Eftir það fór hann til Ameríku 1874, tæpra 19 ára. Þar settist hann á skólabekk með innlendum börnum og fikraði sig upp eftir skólastigum, tók kennarapróf og að lokum BA próf frá háskóla í Toronto og Winnipeg. Aðalgreinar hans voru náttúrufræði og stærðfræði.
  • Frímann ritaði í blöð í Winnipeg og lagði margt til sem gæti orðið Vestur-Íslendingum til framfara og stofnaði m.a. til þess blaðið Heimskringlu árið 1886 sem hann átti og ritstýrði fram til 1888. Hann var einnig starfsmaður Kanadastjórnar í innflytjendamálum en lenti í andstöðu við menn sem vildu ráða málum landnema og varð einnig ósáttur við stjórnvöld um fyrirgreiðslu við landnema. Fór svo að hann flutti burt frá Winnipeg, sár og reiður og greru þau sár seint og illa.

  • Næsti kafli var í Boston í Bandaríkjunum þar sem hann vann að þýðingum, sat í Harvard en vann líka hjá ýmsum rafmagnsfyrirtækjum. Þar lærði hann hvílík kraftaverk mátti vinna með rafvæðingu og fór mjög skyndilega til Íslands 1894 til að fá Reykvíkinga til að virkja Elliðaárnar og lýsa upp Reykjavík.
  • Bæjarstjórn Reykavíkur tók honum fálega eða illa og þrátt fyrir nokkra kynningu á málinu var honum hafnað. Það hefur líklega að einhverju leyti stafað af því að hann var mjög illa til hafður, gekk eins og umrenningur til fara, bæði vegna fátæktar en líka vegna einhverra bresta í sálarlífi og hugarfari.
  • Frímann átti ekki fyrir fari til Bandaríkjanna en fór þess í stað til Skotlands og vann þar eitt ár á efnafræðistofu en lét þá tilleiðast að gera aðra atrennu að bæjarstjórn Reykjavíkur. Það kom allt fyrir ekki og hann sneri til baka en þá til London því hann fékk ekki aftur vinnuna í Edinborg.
  • Í London kunni hann illa við sig, reyndi að fá stjórnvöld til að greiða skuld sem hann þóttist eiga inni hjá Kanadastjórn en fékk engan hljómgrunn.
  • Þá kom honum í hug að leita til Frakklands því þar var í vændum heimssýning árið 1900 og auk þess taldi hann Frakka vera hlynnta vísindum og hvers kyns framförum.
  • Þetta varð samt hin versta sneypuferð, Frakkar voru ekki ginkeyptir fyrir þessum tötramanni með einhver plögg frá Ameríku og hann komst alls ekki neitt áfram í þessu landi. Engu að síður dvaldist hann í París í rúm 16 ár, snapaði vinnu hér og þar en svalt og átti hvergi heima.
  • Dvölin í París var afar erfið og gekk nærri Frímanni svo mjög að stappaði nærri geðbilun. Veikindi og óhöpp gerðu honum einnig erfitt fyrir en þó varð honum ljóst áður en yfir lauk að ekki voru allir honum svo andvígir sem hann hafði ímyndað sér en hann taldi löngum að hann væri ofsóttur af ýmsum óvinum.

Frændsystkinin Sólveig Sigurrós Ingvadóttir, Haraldur Hauksson og Svanfríður Ingvadóttir voru viðstödd þegar steinninn var settur á leiðið. Langamma þeirra, Svanfríður Bjarnadóttir, var hálfsystir Frímanns.

  • Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út flúði Frímann sem margir aðrir og þá fór hann til Akureyrar. Þegar þangað kom vildi hann strax fara að hlutast til um margt í bænum, einkum rafvæðingu en þá stóð til að virkja Glerá (sem varð 1921). Ekki fékk hann neinn hljómgrunn hjá bæjaryfirvöldum fremur en fyrri daginn, enda þótt hann ekki líta út fyrir að vera ábyggilegur og kunni heldur ekki þá list að hrífa viðsemjendur sína.
  • Útgangurinn á honum og einstrengisháttur í málflutningi var eflaust það sem mest stóð honum fyrir þrifum. En á Akureyri gaf hann út tímarit (Fylkir) og ritaði þar mjög margt um landsins gagn og nauðsynjar, ekki síst rafvæðingu, húsbyggingar, skólamenntun og fjármálastjórn landsins.
  • Margar þeirra hugmynda sem Frímann setti fram í Fylki hafa síðan hafa ræst en voru allt of snemma á ferðinni til að geta orðið að veruleika.
  • Meginviðfangsefni Frímanns síðari árin á Akureyri var leit að jarðefnum til að hægt væri að framleiða sement svo mögulegt væri að byggja almennileg hús. Varði hann öllum sínum peningum til þessa og fékk lítilsháttar styrk frá Alþingi til starfsins. Auk þess kenndi hann eitthvað í einkatímum og naut stundum góðvildar manna sem vorkenndu honum.
  • Engu að síður var Frímann alla tíð einstæðingur og fékk aldrei notið sín eða þekkingar sinnar og lærdóms. Hann bar með sér einhverja bresti í geðsmunum og skapferli og virðist hafa verið mjög ónæmur fyrir öðru fólki, áliti þess og hugmyndum.
  • Þótt Frímann gengi ekki að jafnaði fram með ókurteisi eða skömmum var hann gersamlega sannfærður um eigið ágæti og ævinlega réttan málstað. Hann kunni lítið eða alls ekki að haga seglum eftir vindi eða laga sig að aðstæðum. Klókindi eða lempni var honum víðsfjarri en með árunum ágerðist sú sannfæring hans að hann væri einhvers konar píslarvottur og öll hans ógæfa væri öðrum að kenna.