Látlaust, snoturt og geðþekkt hús

Í upphafi þessa árs setti Arnór Bliki Hallmundsson sér markmið í umfjöllun um Hús dagsins á bloggi sínu, að taka fyrir tvö elstu hús bæjarins, sem bæði eiga stórafmæli í ár, og í kjölfarið elstu hús bæjarins í aldursröð eftir það.
„En það er reyndar ekki svo einfalt að ákvarða þá röð. Á öllum húsum eru vitaskuld skráð byggingarár en stundum er allur gangur á því hvort þau standist. Í einhverjum tilfellum er útilokað, að sá sem vitað er að byggði húsið, hafi byggt húsið það ár,“ segir Arnór Bliki í nýjum pistli.
Í dag fjallar hann um Aðalstræti 62, sem er „látlaust, snoturt og geðþekkt hús sem stendur sunnarlega við Aðalstræti í skógi vöxnum hvammi neðst undir Skammagili.“
Það er talið nokkuð víst, segir Arnór Bliki, „að Hallgrímur Kristjánsson hafi reist húsið sem skráð er með byggingarárið 1846. Á því er einn hængur: Það er vitað með vissu, að Hallgrímur Kristjánsson flutti ekki til bæjarins fyrr en 1849 og mun að öllum líkindum ekki hafa byggt húsið fyrr en 1855 (sbr. Jón Hjaltason 1990:174). En gæti hann hafa flutt hingað á lóðina tæplega áratugs gamalt hús? Það er í sjálfu sér ekki útilokað enda þótt engar heimildir séu fyrir því, svo höfundur viti til.“
Pistill Arnórs Blika: Aðalstræti 62