Landvættir fjárfesta í Mýsköpun
Örþörungafyrirtækið MýSköpun ehf. hefur lokið 300 milljóna króna fjármögnun sem ætlað er að styðja við uppbyggingu nýrrar framleiðslueiningar félagsins á Þeistareykjum. Framtakssjóðurinn Landvættir slhf. á Akureyri kemur að verkefninu sem nýr kjölfestufjárfestir. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Mýsköpun.
Með fjármögnuninni hyggst MýSköpun ljúka hönnunarvinnu, skipulagsmálum og öðrum undirbúningi vegna hátækniframleiðsluhúsnæðis sem fyrirhugað er að reisa við jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Þeistareykjum. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist vorið 2027.
Samkvæmt áformum félagsins verður reist um 10.000 fermetra framleiðsluhúsnæði og framleiðsla aukin í áföngum. Gert er ráð fyrir að uppbyggingin skapi tugi starfa á Norðausturlandi þegar verkefnið verður komið í fullan rekstur. Afurðir fyrirtækisins verða að mestu ætlaðar erlendum mörkuðum, einkum til notkunar í fæðubótarefni.
Dr. Ingólfur Bragi Gunnarsson, framkvæmdastjóri Mýsköpunar, segir fjármögnunina marka mikilvægan áfanga í þróun fyrirtækisins og að samstarf við Landsvirkjun hafi skipt lykilmáli við að skapa traustan grundvöll fyrir verkefnið. Lagt verði upp með nýjustu tækni og framleiðsluaðferðir til að tryggja hagkvæma og samkeppnishæfa framleiðslu, samhliða því að byggja upp varanleg störf á svæðinu.
Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri AxUM Verðbréfa hf. og Landvætta slhf, segir fjárfestinguna falla vel að áherslum sjóðsins um að styðja við nýsköpun, atvinnuuppbyggingu og vaxtartækifæri á landsbyggðinni með virkri þátttöku í þróun fyrirtækja.
Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun, lýsir ánægju með framgang verkefnisins og segir uppbyggingu MýSköpunar á Þeistareykjum geta styrkt nýtingu auðlinda á starfssvæðinu, aukið verðmætasköpun tengda orkuvinnslu og skapað ný og fjölbreytt störf í nærsamfélaginu.
Landvættir slhf. er nýr framtakssjóður, sem Kaldbakur ehf. og KEA svf. stofnuðu nýverið. Sjóðurinn er í rekstri Axum Verðbréfa hf. og er fjárfesting í MýSköpun fyrsta einstaka fjárfesting hans.