Landsmót skáta 2026 haldið að Hömrum

Bandalag íslenskra skáta stendur fyrir Landsmóti skáta að Hömrum við Akureyri dagana 20.-26. júlí 2026 og er undirbúningur þess nú þegar kominn vel af stað. Landsmót skáta er eitt stærsta æskulýðsmót sem haldið er reglulega hér á landi með um 1.500-2.500 þátttakendum og gestum, bæði innlendum og erlendum.
Í erindi Bandalagsins til fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrar er farið yfir helstu samstarfsfleti milli mótshaldara og Akureyrarbæjar og óskað eftir samstarfi og samtali við bæjaryfirvöld um samgöngur, aðgang að sundlaugum og söfnum, formlega móttöku bæjarins og ferðir til Hríseyjar og Grímseyjar, auk neyðarhúsnæðis.
Frá Landsmóti skáta að Hömrum árið 2002. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Óskir mótshaldara eru í stórum dráttum, eins og fram kemur í erindi Bandalagsins til fræðslu- og lýðheilsuráðs:
- Almenningssamgöngur
Að strætisvagnar gangi allt að 2–3 sinnum á dag upp að Hömrum á meðan mótið stendur yfir í þeim tilgangi að bæta flæði fólks milli mótssvæðisins og bæjarins og auðvelda þátttöku skátanna í afþreyingu og menningu sem í boði er í bænum. - Aðgangur að sundi og söfnum
Óskað er eftir því að þátttakendur mótsins fái aðgang að sundlaugum og söfnum á afsláttarkjörum, sem hluta af dagskrárpósti skátanna, til að hvetja til heimsókna og efla samveru og upplifun af bænum. - Formleg móttaka bæjarins
Lagt er til að Akureyrarbær haldi formlega móttöku fyrir hluta þátttakenda, bæði erlendra gesti og innlenda fulltrúa. Slík móttaka yrði mikilvægt tákn um gestrisni og stuðning bæjarins við æskulýðsstarf. - Ferðir til Hríseyjar og Grímseyjar
Óskað er eftir sértilboði á ferjuferðum fyrir hópa á vegum mótsins til Hríseyjar og Grímseyjar. - Neyðarhúsnæði og öryggisáætlun
Óskað er eftir aðgangi að neyðarhúsnæði í samráði við viðbragðsaðila og bæjaryfirvöld, sem hluta af öryggis- og neyðaráætlun mótsins, ef svo óheppilega skyldi fara að óveður skylli á svæðinu á meðan á mótinu stendur.
Landsmót skáta er vikulöng uppskeruhátíð skáta og er ætlað skátum á aldrinum 10-17 ára. Á upplýsingasíðu mótsins á vef Bandalags íslenskra skáta segir meðal annars:
„Á Landsmóti skáta skapast sannkallaður ævintýraheimur. Á mótssvæðinu byggir hvert félag upp tjaldbúð þar sem skátarnir búa í vikutíma. Það reynir á skátana og mörg fara út fyrir þægindarammann sinn þegar þau fara í fyrsta sinn á skátamót og dvelja í tjaldi með öðrum. Skátarnir fá tækifæri til að kynnast ólíkum einstaklingum og mynda ný vinatengsl. Skátamót eru ein af lykilstoðum skátastarfs því þar gefst okkur kostur á að efla leiðtogahæfni og skapandi huga. Úti í náttúrunni getur skátinn fundið tengingu við umhverfið og eigin tilveru. Við tökumst á við krefjandi áskoranir sem styrkja sjálfstraust, ábyrgð og þekkingu okkar.“