Fara í efni
Fréttir

Landsbjörg þingar á Akureyri

Frá setningu landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær. Otti Rafn Sigmarsson, formaður SL, í ræðupúlti. Ljósmynd: Landsbjörg

Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur landsþing sitt í Íþróttahöllinni á Akureyri núna um helgina. Þingið var sett síðdegis í gær að viðstöddu fjölmenni, en tæplega 600 félagsmenn sækja þingið. Í upphafi þings var undirritaður samningur um fimm ný björgunarskip.

Otti Rafn Sigmarsson, formaður SL, sagði í setningarræðu sinni að félagið og merki þess væru eitt það verðmætasta og best metna í landinu. Í ræðu sinni og í ávarpi í Árbók Slysavarnafélagsins Landsbjargar 2022 kom Otti Rafn inn á að innan félagsins hafi farið fram umræða hvort krefjast ætti sakavottorðs þegar fólk er tekið inn í starf björgunarsveitanna og vísaði þar einkum til mögulegra kynferðisbrota og annars ofbeldis.

Samið um fimm ný björgunarskip

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ávarpaði þingið, en þeir Otti Rafn undirrituðu síðan samkomulag milli ríkisins og Landsbjargar um áframhaldandi endurnýjun björgunarskipaflota félagsins. Þrettán björgunarskip eru starfandi hringinn í kringum landið. Tvö hafa nú þegar verið endurnýjuð og von á því þriðja síðar á árinu. Samningurinn sem undirritaður var í gær tekur til fimm nýrra björgunarskipa til viðbótar. Hvert skip kostar um 285 milljónir króna að því er fram kemur í Árbókinni og heildarkostnaður við 13 skip um 3,7 milljarðar króna. „Þetta er mesta fjárfesting sem félagið hefur nokkru sinni ráðist í, gríðarlega mikilvægt og verður akkeri í flestu sjóbjörgunarstarfi og sjöbjörgun félagsins og í raun langt út fryrir það,“ sagði dómsmálaráðherra meðal annars um þetta risaverkefni sem endurnýjun björgunarskipa er. 


Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrita samning um fimm nýja björgunarbáta í risaverkefni sem stendur yfir við endurnýjun björgunarbátaflotans. Ljósmynd: SL

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpaði þingið, bauð þinggesti velkomna til Akureyrar og byrjaði, sem íslensk sjómannskona, á að þakka dómsmálaráðherra og ríkisstjórninni fyrir glæsilegt framlag til endurnýjunar á björgunarskipum í landinu. Hún þakkaði einnig björgunarsveitafólki sérstaklega fyrir ómetanlegt framlag þess til okkar allra.

Úr Árbók SL 2022

Við glugguðum í Árbók Slysavarnafélagsins Landsbjargar fyrir árið 2022, en hún kom út í lok apríl. Á meðal þess sem þar má lesa er að á árinu 2022 létust fleiri úr hópi fótgangandi eða hjólandi í umferðarslysum á Íslandi en úr hópi ökumanna og farþega vélknúinna ökutækja og er það í fyrsta skipti síðan 1973 sem það gerist. Fleiri létust í umferðarslysum í þéttbýli en utan þess, í fyrsta skipti frá 1992.

Í bókinni er yfirlit um allt það helsta úr starfi Landsbjargar og aðildarfélaga á árinu 2022. Hér eru fáeinir fróðleiksmolar.

  • Á áringu 2022 bættust við 6.262 bakverðir í hópinn fjá SL, sem styðja félagið með mánaðarlegu framlagi allan ársins hring.
  • Vorið 2022 fór fjöldi bakvarða yfir 30.000 og voru í lok ársins orðnir 32.660.
  • Hreyfingin seldi um 65.000 neyðarkalla, auk 1.800 eintaka af stærri útgáfunni sem seld er til fyrirtækja.
  • Landsbjörg býður fólki upp á að kaupa Landbjargargjafir, þ.e. að fólk geti keypt gjöf í nafni ástvinar og stutt þannig við bakið á SL og seldust þær fyrir tæplega tvær milljónir á nokkrum dögum.
  • Fjórar mismunandi útgáfur voru í boði: björgunarsveitargalli, rótarskot, eldsneyti og karabína. Rótarskotið seldist best, en það er nú í boði allt árið, ekki aðeins í kringum flugeldasöluna.
  • Tekjur Landsbjargar á árinu 2022 námu rúmum 2,2 milljörðum króna, og hagnaður að teknu tilliti til fjármagnsliða var rúmar 74,5 milljónir króna.
  • Björgunarskólinn hélt 300 námskeið á árinu 2022 og tóku 4.000 nemendur þátt í þeim.
  • Slysavarnaskóli sjómanna hélt 192 námskeið á árinu 2022 og sóttu 2.486 nemendur þau námskeið. Alls hafa 63.468 nemendur sótt námskeið skólans frá upphafi.
  • Fjöldi aðgerða björgunarsveita samkvæmt aðgerðagrunni fyrir árið 2022 var vel yfir meðallagi áranna frá 2005.
  • Alls var skráð 1.401 aðgerð á árinu 2022, en voru 1.188 árið á undan.
  • Á árinu voru gefin 10.000 endurskinsmerki.
  • Á árinu 2022 létust níu einstaklingar í jafnmörgum umferðarslysum. Þar af voru tveir erlendir ferðamenn og einn erlendur ríkisborgari sem bjó hér á landi.
  • Átta karlmenn og ein kona létust í umferðinni. Eitt banaslys var rakið til ölvunar og eitt til neyslu fíkniefna.
  • Á árinu 2022 létust fleiri í umferðarslysum í þéttbýli en utan þéttbýlis og er það í fyrsta skipti sem það gerist frá árinu 1992.
  • Fjórir fótgangandi létust í umferðinni, einn á rafhlaupahjóli og fjórir í bifreið. Þetta er í fyrsta skipti síðan 1973 sem fleiri létust úr hópi gangandi og hjólandi en úr hópi ökumanna og farþega vélknúinna ökutækja.
  • Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar starfa 42 unglingadeildir með um 800 ungmenni á aldrinum 13-18 ára innan sinna raða ásamt 150 umsjónarmönnum.
  • Innan SL eru starfandi 94 björgunarsveitir og 34 slysavarnadeildir. Akureyri er á svæði 11 og innan þess svæðis starfa átta björgunarsveitir, Súlur - björgunarsveitin á Akureyri þar á meðal, og fjórar slysavarnadeildir, þar af ein á Akureyri.