Fara í efni
Mannlíf

Lærði að hekla hjá ömmu í Brasilíu

Luiza Santos með litríkar peysur sem hún hefur sjálf hannað og heklað. Mynd: Anastasiia LeoNova Kramarenko

Luiza Santos býr á Eyrinni, vinnur á Kaffistofunni og heklar. Litríkar og lifandi peysur renna af heklunálinni hjá henni, en hún lærði málun í upprunalandi sínu Brasilíu í tvö ár. „Ég held að málunarnámið hafi haft áhrif á litagleðina, en ég elska einfaldlega að hekla litríkar peysur,“ segir hún við blaðamann Akureyri.net. Luiza ætlar að sýna peysurnar sínar á flóamarkaði í Kaktus um helgina, en þar verða einnig notuð föt til sölu.

Luiza flutti til Akureyrar í október síðastliðnum, en kærastinn hennar, Ivan Mendez, er fæddur hér og uppalinn. „Við fluttum heim eftir að hafa búið í Berlín í næstum 8 ár,“ segir Luiza. „Nú ætla ég ekki að fara neitt annað á næstunni! Mér líkar mjög vel á Akureyri.“

 

Ljósmyndir: Anastasiia LeoNova Kramarenko.

Ömmurnar kveiktu áhugann á handverki

„Ég lærði að hekla hjá ömmu minni þegar ég var í kringum 12 eða 13 ára aldurinn,“ segir Luiza. „Það er ekki algengt að börn í Brasilíu kunni að hekla eða prjóna, en það er ekki kennt í grunnskóla eins og á Íslandi. Báðar ömmur mínar hafa alltaf unnið við handverk og það kveikti áhuga minn. Ég byrjaði á því að mála handklæði, sem amma svo heklaði kant utanum. Mig langaði að geta gert það sjálf og hún var ekki lengi að kenna mér.“

Mér þætti vænt um að selja þær til einhverra sem kunna að meta verkin mín og vilja eiga, og enn ánægðari að sjá Ísland aðeins litríkara!

Luiza heklaði fyrstu peysuna árið 2017, en þá bjó hún í Þýskalandi. Svo kom Covid-faraldurinn og hún gerði fleiri peysur og datt í gírinn. „Tíminn sem fer í hverja peysu er mjög misjafn,“ segir hún. „Fyrsta peysan tók mig t.d. fimm mánuði og ég var að fylgja uppskrift. Nú hekla ég bara eftir eigin hönnun, sem þýðir vissulega að það er mikið um mistök og ég er alltaf að prófa mig áfram, en það er miklu meira gefandi.“

„Í dag er ég að reyna að ná 2-3 tímum á dag í heklið, og þannig get ég klárað meðalstóra peysu á tveimur til þremur vikum ef hún er einföld,“ segir Luiza. „Ef ég er ekki að vinna þá get ég klárað eina peysu á viku, en að meðaltali er ég að eyða 40 klukkustundum í eina. Kjóll eða stór flík getur tekið tvöfalt lengri tíma. Það er mjög algengt að ég vinni að verkefni í meira en mánuð, sérstaklega þegar ég er að hanna nýtt snið. Það getur auðveldlega tekið meira en 60 vinnutíma í heildina.“

 

Ljósmyndir: Anastasiia LeoNova Kramarenko

Hvött til þess að selja peysurnar

Luiza er ennþá að hugsa sig um, varðandi framtíðarplönin fyrir peysurnar. „Til að byrja með snerist þetta bara um að mér þótti svo gaman að hekla,“ segir hún. „Mér finnst svo gaman að velja saman liti og búa til mismunandi form og samsetningar og gleðin sem fylgir því að klára flíkina er einstök. Einnig fæ ég mikið út úr því að búa til flík fyrir einhvern annan sem kann að meta hana.“

„Ég var í rauninni hikandi við að selja peysurnar mínar í fyrstu, það fer svo mikil vinna í þær og ég gat ekki verðlagt þær einu sinni,“ segir Luiza. „En ég fæ svo oft hrós sjálf þegar ég klæðist þeim og oft hvött til þess að bjóða þær til sölu. Ég verð svo að segja að það mætti alveg bæta við litum í fatnaðinn hérna! Til að byrja með langar mig að sýna peysurnar og sjá hvert það leiðir. Mér þætti vænt um að selja þær til einhverra sem kunna að meta verkin mín og vilja eiga, og enn ánægðari að sjá Ísland aðeins litríkara!“

 

T.v. Auglýsing fyrir fatamarkaðinn og sýningu Luizu á listaverkunum sem peysurnar hennar eru. T.h. Mynd: Anastasiia LeoNova Kramarenko

Hver peysa er listaverk

„Mér datt í hug að það væri kannski bara sniðugt að sýna peysurnar mínar, þar sem ég lít á hverja þeirra sem listaverk,“ segir Luiza. „Það var því fullkomið þegar Yuliana Palacios bauð mér að vera með á markaði sem hún ætlar að halda í Kaktus á laugardaginn kemur frá 12-18. Ég ætla að sýna peysurnar, bæði þær sem eru í einkaeigu og þær sem eru glænýjar og til sölu. Einhverjir ætla að selja notuð föt, og þau sem hafa áhuga á að selja geta haft samband og óskað eftir að vera með.“ Hér má skoða viðburðinn á Facebook og hafa samband.

Fyrir utan heklið, hefur Luiza mikla ástríðu fyrir matargerð, en hún lærði matarfræði og matvælaverkfræði í Brasilíu. „Ég elda mikið og baka, þegar ég er ekki að hekla, og er sérstaklega hrifin af því að vinna með súkkulaði. Ég elska líka plöntur, tónlist og kaffi,“ segir hún að lokum, en ósjaldan er hægt að finna hana við kaffivélina á Kaffistofunni - að öllum líkindum í litríkri peysu! 

Hér má fylgja Luizu á Instagram og sjá fleiri myndir af peysunum hennar.