LA með þrjár tilnefningar til Grímuverðlaunanna

Leikfélag Akureyrar hlaut þrjár tilnefningar til Grímunnar í gærkvöldi, við hátíðlega athöfn í Tjarnarbíói. Birta Sólveig Söring er tilnefnd sem leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt sem Auður í Litlu Hryllingsbúðinni, Unnur Elísabet Gunnarsdóttir fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins fyrir Litlu Hryllingsbúðina og svo fékk Jóla Lóla tilnefningu sem barnasýning ársins. Afhending Grímuverðlaunanna verður þann 10. júní.
Birta Sólveig Söring og Unnur Elísabet með tilnefningar sínar til Grímuverðlauna. Myndir: Facebook síða LA
Birta Sólveig Söring í hlutverki sínu sem Auður í Litlu Hryllingsbúðinni. Kristinn Óli Haraldsson í hlutverki Baldurs er í bakgrunni. Mynd: Auðunn Níelsson
Jóla Lóla heimatilbúin frá A-Ö
Jóla Lóla fékk tilnefningu sem barnasýning ársins. Um er að ræða glænýtt verk, frumsamið í herbúðum LA, og frumsýnt í vetur sem leið. Bergur Þór Ingólfsson leikhússtjóri LA samdi verkið í samstarfi við leikarana Kristin Óla Haraldsson, Urði Bergsdóttur og Hjalta Rúnar Jónsson, sem fóru með hlutverkin. Frumsamin tónlist er í verkinu líka, en tónlistarstjóri var Jói Pé, Jóhann Damian. Jóla Lóla var fyrsta tónlistarstjórnunarverk hans og tónlist úr verkinu fékk góðar viðtökur á streymisveitum.
Jóla Lóla fékk góðar viðtökur í Samkomuhúsinu fyrir jólin. Myndir: Facebook síða LA.
Ungfrú Ísland með flestar tilnefningar
Gríman er uppskeruhátíð leikhúsanna, en í ár hlaut verkið Ungfrú Ísland flestar tilnefningar, samtals níu. Verkið var sýnt í Borgarleikhúsinu, leikgerð eftir skáldsögu Auðar Övu og leikstýrt af Hríseyingnum Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Næst á eftir, með sjö tilnefningar eru Sýslumaður Dauðans og Hringir Orfeusar og annað slúður.
Hér má sjá allar tilnefningar til Grímuverðlaunanna í ár.