Vilja að saga Hjalta Snæs hjálpi öðrum

Samverustund verður í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit í kvöld – Afmælis styrktarkvöld Hjalta Snæs eins og stundin er nefnd á Facebook – þar sem foreldrar Hjalta Snæs Árnasonar bjóði fólki að mæta. Hjalti Snær gekk í sjóinn við Kirkjusand í Reykjavík fyrir nokkrum vikum og hefur ekki fundist.
Hjalti Snær, sem hafði verið veikur í á annað ár, hefði orðið 23 ára í dag og af því tilefni ætlar fjölskylda hans að hrinda af stað styrktarverkefni.
Draumur fjölskyldunnar er að hægt verði að setja á stofn einhvers konar sjálfbært samfélag sem væri fyrirbyggjandi fyrir ungt fólk í sporum Hjalta Snæs, að því er fram kom í grein á mbl.is í gær. Fyrir „fólk sem hafi sterka tengingu við náttúruna og hefði meiri möguleika á endurhæfingu í slíku umhverfi en venjulegu stofnana- og spítalaumhverfi. Það hefði verið úrræði sem hefði passað Hjalta Snæ vel. Þau vilja að saga hans hjálpi öðrum í hans sporum.“
Gerður Ósk, móðir Hjalta, sagði í samtali við mbl.is að á Akureyri sé hvergi að fá þjónustu fyrir fólk í sporum Hjalta Snæs. Enginn viti hvað eigi að gera fyrir fólk í hans sporum og eina svarið séu lyf. Engin endurhæfing sé á Akureyri og ekkert sem taki við eftir að fólk er útskrifað af geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Gerður segir mjög algengt að börn í stöðu Hjalta Snæs fari í geðrof um tvítugt og að einhverfa skarist mikið við geðklofa. Sú varð einmitt raunin með Hjalta Snæ, sem hefur barist við sín veikindi undanfarin tvö ár, sérstaklega.
Fögnum honum
Á Facebook síðu viðburðarins í Freyvangi segir meðal annars: „Hann hefur aldrei viljað veislur en okkur hefur alltaf langað að fagna honum á einhvern hátt. Það verður opið svið þannig að ef einhver vill gera eitthvað þá er það velkomið. Allt samt í anda Hjalta Snæs.“
Þar segir einnig: „Fögnum honum eins og við þekktum hann áður en veikindin herjuðu á hann. Nokkrir vina okkar munu vera með varning til sölu þar sem ágóðinn mun renna til sjóðs/verkefnis sem verður eyrna merktur úrræði sem er nauðsynlegt fyrir ungt fólk eins og Hjalta hér á Norðurlandi. Nokkrar hugmyndir komnar en þetta mun skýrast með tímanum. Ef þið viljið aðstoða okkur með að gera þessa kvöld stund þá er hugmynd að vera með Pálínu boð. Munum enda kvöldið með því að sleppa fallegum kerta luktum upp í loftið.“
Samkoman í Freyvangi hefst klukkan 20.00.
Opnaður hefur verið styrktarreikningur, sem er skráður að sinni á Gerði Ósk, móður Hjalta:
- Reikningsnúmer: 0526-14-201214
- Kennitala: 050578-5779