Fara í efni
Fréttir

Kvenfélagið Hlíf lagt niður – stofnað 1907

Leikskólinn Pálmholt á Akureyri. Hlífarkonur stofnuðu leikskólann árið 1950 og starfræktu um árabil en gáfu hann „ásamt öllum kostum og göllum“ til Akureyrarbæjar 1973. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri/Gísli Ólafsson

Kvenfélagið Hlíf á Akureyri hefur verið lagt niður. Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að þetta hafi verið samþykkt á aðalfundi 12. mars síðastliðinn. Hlíf hafði verið starfandi í 117 ár.

Kvenfélagið Hlíf var stofnað 4. febrúar árið 1907 af nokkrum konum í Akureyrarkaupstað. Aðalmarkmið félagsins fyrstu árin var „að hjúkra og aðstoða fátæka og örvasa gamalmenni“ eins og fram kemur í fyrstu lögum félagsins. í tilkynningunni segir meðal annars:

  • Síðar stofnuðu Hlífarkonur og starfræktu um árabil leikskólann Pálmholt en gáfu hann „ásamt öllum kostum og göllum“ til Akureyrarbæjar 1973.
  • Þá var sjónum félagsins beint að barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og varð deildin óskabarn félagsins um árabil. Flest eldri tæki deildarinnar, leikföng og afþreyingarefni má þakka vinnu Hlífarkvenna og velvilja bæjarbúa og fyrirtækja í bænum.
  • Seinni árin hefur kvenfélagið styrkt ýmis mál tengt börnum.

Ennfremur segir í tilkynningunni:

„Það sem helst hefur háð Kvenfélaginu Hlíf um margra ára skeið er húsnæðisskortur. Fundir hafa verið haldnir víða um bæinn.

Var nú farið að halla undir fæti hjá félaginu. Þó að nokkuð margar konur gengju í félagið á tímabili, mættu þær lítið sem ekkert á fundi og voru ekki tiltækar þegar fara átti í fjáröflun. Reynt var að halda kleinusölu, dansiball og kaffi á Mæðradaginn, en bæði var dræm þátttaka félagskvenna í undirbúningi og lítil aðsókn til þess að allt féll niður.

Síðan komu Covid árin, 2020 – 2022, og þá voru nánast engir fundir né starfsemi í félaginu. Hafði mæting á fundinn verið frekar dræm árin á undan og þegar farið var að funda á ný mættu aðeins nokkrar konur. Reynt var samt að halda sig við haustfund, jólafund og aðalfund. Í vorferð félagsins í maí 2023 mættu 6 konur.

Flestar urðu félagskonur um 60 en aðeins 11 konur mættu á síðasta aðalfundinn.

Nú var svo komið að stjórn Hlífar sá ekki fram á að hægt væri að auka áhuga kvenna á starfinu, margt annað hefur komið til í þjóðfélaginu sem konur eru að sýsla við.

Við leiðarlok vilja Hlífarkonur koma fram þakklæti til bæjarbúa og fyrirtækja á Akureyri fyrir hlýhug og velvild í garð félagsins alla tíð.“

Undir tilkynninguna rita stjórnarkonur í Hlíf 2023-2024, Birgit Schov formaður, Halldóra Stefánsdóttir ritari, Kristín Hilmarsdótti gjaldkeri og Margrét Steingrímsdóttir, meðstjórnandi.