Kveldúlfur er ný tónlistarhátíð á Hjalteyri

Ný tónlistarhátíð verður haldin á Hjalteyri 12. júlí næstkomandi. Hátíðin ber heitið Kveldúlfur og fram koma Júníus Meyvant, Kött Grá Pje, Skúli mennski, Lúpína og Katla Vigdís. Einnig verður á svæðinu grænmetismarkaður og opin listarými hjá listafólki á svæðinu, matarvagnar og alls konar fjör, heitur pottur og mögulega verður sauna við fjöruna, segir í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum.
Skipuleggjendur eru Sara Bjarnason og Vikar Mar Valsson.
Miðasala er á tix.is og takmarkaður fjöldi miða í boði.
Listamennirnir sem stíga á svið. F.v. Lúpína, Júníus Meyvant, Kött Grá Pje, Katla Vigdís og Skúli mennski. (Í pósti á Facebook síðu hátíðarinnar segir: Skúli mennski er original týpa frá Ísafirði sem hefur engan tíma til að senda skipuleggjendum prómómyndir af sér, þannig að hér er skjáskot af honum að fara að borða) Myndir af Facebook.
Tónleikarnir munu fara fram í þessu porti, en Verksmiðjan á Hjalteyri er þarna til hægri. Mynd: aðsend