Fara í efni
Íþróttir

„Kominn tími á nýja áskorun á nýjum stað“

Arnór Atlason, til hægri, og Søren Hansen sem verður aðstoðarþjálfari liðsins. Ljósmynd: Tvis Holstebro

„Þetta er mjög spennandi tækifæri þótt ég sé auðvitað meðvitaður um að ég sé sennilega að fara frá mest spennandi handboltaklúbbi í Evrópu í augnablikinu!“ segir Arnór Atlason við Akureyri.net en eins og greint var frá í gær hefur hann verið ráðinn aðalþjálfari danska félagsins TTH Holstebro frá og með sumrinu 2023.

Á komandi vetri sinnir hann áfram starfi aðstoðarþjálfara Aalborg Håndbold, þar sem hann hefur verið frá 2018 með afar góðum árangri, en flytur sig um set að ári.

„Ég er búinn að vera fjögur ár hjá Álaborg og verð alltaf ótrúlega þakklátur fyrir þann möguleika og þá ábyrgð sem ég hef fengið hér. En mér finnst vera kominn tími á nýja áskorun á nýjum stað. TTH átti mjög erfitt tímabil í fyrra en hefur sýnt síðustu ár að félagið á heima á toppnum og þangað vilja menn fara aftur,“ segir Arnór. „Markmiðin eru háleit en raunsæ. Menn gera sér alveg grein fyrir að þetta muni taka tíma og danska deildin er bara orðin það öflug að það er ekkert auðvelt að verða hluti af toppnum.“

Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði Íslands, kom til Álaborgarliðsins fyrir síðasta vetur frá Barcelona og í sumar gekk danska stórstjarnan Mikkel Hansen til liðs við félagið. Því er ekki að undra að Arnór tali um mest spennandi félag í Evrópu en tækifæri til að verða aðalþjálfari hjá stóru félagi hefur verið of freistandi til að segja nei takk, ekki satt? 

„Jú, akkúrat, ég vildi prófa að verða aðalþjálfari. Ég hef fengið tilboð um það reglulega en núna finnst mér ég vera tilbúinn að fara og TTH er mjög spennandi klúbbur. Það er mikill metnaður í félaginu, aðstaðan er frábær og öll umgjörðin. Og þó svo tímabilið í fyrra hafi verið mjög slakt vilja menn komast hærra sem fyrst,“ segir Arnór.

Arnór aðalþjálfari TTH Holstebro næsta sumar