Köfuðu eftir reiðhjóli í sjónum við Hof

Fjórir sundgarpar tóku eftir reiðhjóli í sjónum sunnan við menningarhúsið Hof í dag. Þeir gerðu sér lítið fyrir og köfuðu eftir hjólinu, sem þeir hafa skilið eftir við Hof og þar getur eigandinn nálgast það. „Við vorum bara að hoppa í sjóinn þarna þegar við sáum hjólið,“ segir Hilmar Marinó Arnarsson, einn af fjórmenningunum við blaðamann Akureyri.net. „Við hugsuðum að kannski hefði einhver stolið því og hent því þarna ofaní.“ Ásamt Hilmari voru vinir hans, þeir Óðinn Helgi Harðarson, Björn Brimir Jóhannsson og Sveinn Bragi Bragason í björgunarteyminu.
Þetta var flott hjá þeim, þeir hjálpuðust allir að við þetta og komu hjólinu á land
„Jújú, það var smá djúpt þarna,“ segir Hilmar Marinó, aðspurður um það hvort að ekki hafi verið erfitt að ná hjólinu. „Það var ekkert erfitt að ná því upp af botninum, við hjálpuðumst allir að. En það var aðallega erfitt að ná því upp úr vatninu á land. Við gerðum plan, þar sem við létum það ganga á milli þangað til við náðum að koma því að bakkanum. Svo sáum við reyndar síma þarna líka, en ákváðum að láta hann eiga sig.“
Hörður Finnbogason, pabbi Óðins Helga, var staddur með strákunum við Hof og sá um að vera öryggisvörður í björgunaraðgerðum drengjanna. „Þeir töldu þetta hjól vera mikinn fjársjóð og ég held að upphaflega planið hafi verið að ná því og selja það,“ segir Hörður við blaðamann. „En svo kom nú á daginn að það var ekkert svo mikill fjársjóður og við skelltum því bara á Tapað-fundið síðu á Facebook og vonandi finnur eigandinn það aftur. En þetta var flott hjá þeim, þeir hjálpuðust allir að við þetta og komu hjólinu á land.“