Fara í efni
Mannlíf

Kex Studio – Ný fatabúð og skapandi rými

Sóley Eva Magnúsdóttir og Ylfa Rún Arnarsdóttir, eigendur Kex Studio. Mynd: aðsend

Kex Studio verður opnað að Týsnesi 14 á morgun, laugardag 13. september, kl. 17-20. Um er að ræða nýja „vintage“ fataverslun á Akureyri sem selur einnig listaverk og hönnunarvörur eftir íslenskt listafólk. „Með því að bjóða upp á skapandi rými er markmið Kex Studio að þjóna ákveðnu grasrótarhlutverki og skapa ramma fyrir hæfileikaríkt listafólk til þess að koma sér á framfæri,“ segja Sóley Eva Magnúsdóttir og Ylfa Rún Arnarsdóttir, eigendur Kex Studio.

Við sáum alltaf fyrir okkur að byggja upp samfélag með Kex Studio, þetta fyrirbæri á að vera meira en bara fatabúð

Vintage tíska er eitthvað sem við höfum báðar alltaf haft áhuga á og eftir að hafa búið erlendis fannst okkur þurfa að bæta úrvalið hérna heima,“ segir Sóley. „Við höfum svo verið að frétta af svo mörgu upprennandi listafólki að gera flotta hluti, þannig að okkur fannst tilvalið að blanda saman fataverslun og vettvangi fyrir lista- og hönnunarfólk að sýna og selja verkin sín.“

 

Mikil tilhlökkun er fyrir því hjá þessum ungu frumkvöðlum að opna dyrnar fyrir gestum um helgina. Mynd: aðsend

Handavinnukonur í grunninn

Sóley Eva og Ylfa Rún hafa báðar alist upp á Akureyri, eru 21 árs og hafa verið bestu vinkonur síðastliðinn 7 ár. Þær eru báðar með bakgrunn á skapandi sviðum, en Ylfa lærði húsasmíði við VMA og Sóley lærði sviðslistir við MA og kvikmyndagerð við FNV á Sauðárkróki. „Við erum báðar handavinnukonur í grunninn og til dæmis verða til sölu heklaðar töskur eftir okkur og fatahönnun úr endurunnum flíkum eftir Sóleyju,“ segir Ylfa Rún.

„Það er kannski skemmtilegt að segja frá því að nafnið Kex Studio kemur frá þeirri hugmynd að nýta gamla húsnæði Kexsmiðjunnar á Akureyri sem verslunarrými,“ segir Ylfa Rún. „Sú hugmynd varð því miður ekki að veruleika en nafnið lifði áfram. Að opna búðin í iðnaðarbili var eiginlega til þess að gera það besta úr því sem var í boði, en við lítum á það sem tækifæri til þess að skera okkur úr frekar en að hindra okkur.“

 

Stúlkurnar fara skapandi leiðir að því að setja upp verslunina. Til þess að búa til fataslár fóru þær í BYKO og keyptu pípur, fengu þær sniðnar og græjaðar hjá pípara og spreyjuðu svartar. Talandi um að bjarga sér á skapandi hátt! Myndir: Skjáskot úr samfélagsmiðlamyndbandi

Lifandi framtíðarplön

„Okkur langar í framtíðinni að einblína á að taka þátt í félags- og menningarlífinu á Akureyri með því að halda skemmtilega viðburði, pop-up búðir og vinnustofur,“ segir Sóley að lokum. „Við sáum alltaf fyrir okkur að byggja upp samfélag með Kex Studio, þetta fyrirbæri á að vera meira en bara fatabúð.“

Opnun Kex verður eins og áður sagði á morgun, laugardag, á milli 17 og 20. Eftir það verður opið frá kl. 15:00 - 20:00 á miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum og laugardagsopnun verður á milli kl. 12:00 og 18:00.