Fara í efni
Fréttir

KEA og EBAK vilja þróa íbúðakjarna

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, lengst til vinstri, Karl Erlendsson og Guðmundur Magnússon frá EBAK.

KEA og EBAK – Félag eldri borgara á Akureyri, fyrir hönd óstofnaðs félags ÍBA 55+, hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf um undirbúning og þróun íbúðakjarna fyrir fólk 55 ára og eldra á Akureyri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KEA.

„Markmið samstarfsins er að kanna forsendur fyrir uppbyggingu sjálfstæðs búsetuforms sem leggur áherslu á lífsgæði, gott aðgengi, sjálfbærni og sterk tengsl við nærsamfélagið. Verkefnið mun meðal annars byggja á hugmyndum um svokallaða lífsgæðakjarna og „íbúðir út lífið“, þar sem íbúðir og sameiginleg rými styðja við virkt samfélag eldri borgara og gerir þeim kleift að búa á sínu heimili sem lengst,“ segir í tilkynningunni. „Gert er ráð fyrir að skipaður verði sameiginlegur undirbúningshópur sem vinni að greiningu á eftirspurn, greiðslugetu og búsetuþörfum, kanni mögulegar staðsetningar og eigi samtal við skipulagsyfirvöld. Niðurstöður þeirrar vinnu geta, ef forsendur reynast hagfelldar, leitt til stofnunar formlegs undirbúnings- og þróunarfélags sem taki til frekari þróunar og undirbúnings framkvæmda.“

Haft er eftir Halldóri Jóhannssyni framkvæmdastjóri KEA að hann sé ánægður með að samstarf við EBAK sé formlega hafið. „Þróun og uppbygging íbúða er nú hluti af kjarnastarfsemi KEA og þetta er mjög áhugavert viðfangsefni inn í þá flóru verkefna okkar. Við erum sammála EBAK um að þörf sé fyrir vel útfærða íbúðakjarna á Akureyri fyrir sístækkandi hóp eldri borgara,“ segir Halldór.

Karl Erlendsson formaður EBAK fagnar þessari viljayfirlýsingu sérstaklega: „Þarna fáum við til liðs við okkur sterkt fyrirtæki með mikla reynslu og sögu til frekari greiningar og vinnslu þeirra hugmynda sem við höfum verið með til skoðunar í nokkurn tíma í samstarfi við frumkvöðlasetrið Drift EA. Vonandi leiðir þetta til farsællar niðurstöðu og að þetta verkefni fái jákvæð viðbrögð skipulagsyfirvalda hér í bæ,“ segir Karl.