Fara í efni
Fréttir

KEA eignast Ferro Zink að fullu – Jón Dan selur

Jón Dan Jóhannsson og Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA. Mynd af heimasíðu KEA.

KEA hefur keypt 30% hlut í Ferro Zink hf. af Jóni Dan Jóhannssyni og á eftir viðskiptin allt hlutafé í félaginu, sem er með starfsemi á Akureyri og í Hafnarfirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KEA.

Starfsemi Ferro Zink hf. er á sviði stálsölu, smiðju, málmhúðunar og verslunarrekstrar. Velta síðasta árs var tæpir 3 milljarðar króna og starfsfólk er um 60 talsins, segir í tilkynningunni.

KEA eignaðist fyrst hlut í félaginu árið 2006 og hefur frá þeim tíma bætt við eignarhlut sinn. Jón Dan hefur fylgt félaginu í yfir hálfa öld, fyrst sem starfsmaður, síðar framkvæmdastjóri og eigandi og svo í seinni tíð sem móteigandi KEA í félaginu og stjórnarmaður.

Í tilkynningunni segir að fjölbreytt verkefni og viðfangsefni liggi fyrir hjá félaginu og margt áhugavert sé að gerast í umhverfi þess á næstu misserum. „Það þarf að taka stefnumarkandi ákvarðanir um framtíðarskipulag félagsins. Þessi fjárfesting er hluti af þeim áherslum sem við vinnum að núna sem felast í því að fækka verkefnum en um leið að stækka í þeim fjárfestingum sem KEA kemur að,“ segir Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA.

Jón Dan Jóhannsson segir að nú sé komið að tímamótum hvað aðkomu hans að félaginu varðar en hún spannar yfir 61 ár. „Þetta fyrirtæki var stofnað af föður og föðurbróður mínum og hóf það starfsemi árið 1960. Ég varð framkvæmdastjóri þess og einn eigenda árið 1989. Ég kveð félagið með söknuði og óska því, starfsfólki þess og eiganda alls hins besta.“