Fara í efni
Fréttir

Kaupa hús fyrir starfsemi Sólbergs

Barmahlíð 2 á Akureyri, ný staðsetning fyrir fjölskylduheimilið Sólberg. Mynd af fasteignavef mbl.is

Akureyrarbær ætlar að kaupa húsnæði í Barmahlíð 2 á Akureyri undir starfsemi fjölskylduheimilisins Sólbergs, sem opnað var í Kotárgerði 20 í fyrrasumar. Bæjarráð Akureyrar samþykkti í gærmorgun að gera 120 milljóna króna tilboð í húsið. 

Fjölskylduheimilið var stofnað í fyrra sem tilraunaverkefni og var þá nýtt úrræði í greiningar- og þjálfunarvistun fyrir börn og foreldra þeirra. Fram kom í frétt á Akureyri.net í ágúst í fyrra þegar heimilið var formlega opnað að markmiðið með úrræðinu væri að veita inngrip til skamms tíma þegar hefðbundin úrræði duga ekki til þar sem börn og ungmenni eru vistuð utan heimilis, vandi þeirra greindur og viðeigandi þjálfun fer fram sem miðar að því að styrkja forsjáraðila í uppeldishlutverki þeirra og aðstoða börn og ungmenni með viðeigandi hætti svo þau geti snúið heim aftur.

Þessi mynd var tekin fyrir réttu ári, fimmtudaginn 8. ágúst 2024, þegar ormleg opnun Sólbergs fór fram.Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Ingibjörg Kristín Gunnarsdóttir, deildarstjóri í Sólbergi, Vilborg Þórarinsdóttir, forstöðumaður barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar, og Ásmundur Einar Daðason, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Húsið að Kotárgerði 20 var tekið á leigu, fyrst með samningi til eins árs sem síðan var framlengdur, en til lengri tíma er það talið óhagstætt fyrirkomulag og því ákveðið að kaupa húsnæði fyrir þessa starfsemi. Reikna má með að starfsemi Sólbergs verði komin í húsið um áramót.

Fasteignin að Barmahlíð 2, steinsnar frá verslanamiðstöðinni Sunnuhlíð í Glerárhverfi. Myndin er af fasteignavef mbl.is.

Fasteignin Barmahlíð 2 hefur verið á söluskrá í nokkurn tíma. Ásett verð á fasteignavef er núna 139 milljónir króna og hefur verið lækkað nokkuð frá því að eignin kom fyrst á söluskrá. Fasteignamat hússins er tæpar 133 m.kr. og brunabótamat rúmlega 158 m.kr. Akureyrarbær býður 120 milljónir króna í húsið, eins og áður kom fram.