Kári Kristján leikur með Þór í vetur

Kári Kristján Kristjánsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, leikur með nýliðum Þórs í vetur. Hann skrifaði á sjöunda tímanum í kvöld undir samning við félagið til vors.
Kári verður 41 árs síðar í haust. Eyjamenn ákváðu í sumar að bjóða honum ekki nýjan samning, þrátt fyrir að munnlegt samkomulag þar um fyrr á árinu, að því er komið hefur fram í fréttum. Þessum gríðarlega öfluga línumanni fannst ekki tímabært að leggja skóna á hilluna og ákvað því að slá til þegar Þórsarar föluðust eftir kröftum hans.
„Get ekki beðið!“
Þannig vill til að næsti leikur Þórs, og þar af leiðandi fyrsti leikur Kára Kristjáns með liðinu, verður gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á laugardaginn. Ekki fór á milli mála að Eyjapeyinn hlakkar til að mæta sínum gömlu félögum. „Ég get ekki beðið,“ sagði Kári við akureyri.net eftir að hann skrifaði undir samninginn áðan.
Urðum að ná í flottasta skeggið!
„Ég er mjög ánægður að við skyldum geta samið við Kára og ég hlakka mjög mikið til þess að vinna með honum,“ segir Daniel Birkelund, Norðmaðurinn sem tók við þjálfun Þórs í sumar, við akureyri.net. „Það er ekkert launungarmál að ég hef verið óánægður með liðið mitt; ég kem til Íslands sem þjálfari og ekki einn einasti maður í liðinu skartar alvöru víkinga-skeggi!“ segir þjálfarinn og hlær, en sjálfur er hann með mikið skegg eins og sjá má á myndinni. „Það kom því ekkert annað til greina en að ná í flottasta skeggið sem var á lausu, og fundum það sannarlega með því að semja við Kára ... Að öllu gamni slepptu þá mun koma Kára veita okkur meiri sveigjanleika, bæði í vörn og sókn. Hann er þrautreyndur og mikill persónuleiki þannig að ég geri líka ráð fyrir að hann verði mjög mikilvægur í klefanum,“ segir Daniel Birkelund.
Langur og farsæll ferill
Kári Kristján er Eyjamaður í húð og hár og hóf ferilinn eðlilega með ÍBV. Hann gekk til liðs við Hauka 21 árs að aldri, árið 2005, og lék með Hafnarfjarðarliðinu í fjögur ár. Hann hélt síðan í víking, lék með ZMC Amicitia Zürich í Sviss, HSG Wetzlar í Þýskalandi og Berringbro/Silkeborg í Danmörku. Kári var í herbúðum Vals veturinn 2014 til 2015 en hefur leikið með uppeldisfélaginu, ÍBV síðustu 10 ár.
Kári átti sæti í landsliðinu um ára skeið, frá 2005 til 2025, og á 145 landsleiki að baki.
Páll Pálsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, og Kári Kristján handsala samninginn eftir undirskrift í Hamri, félagsheimili Þórs.