Fara í efni
Menning

Kammersveitin Elja með tónleika í Hofi

Kammersveitin Elja heldur sumartónleika í Hofi á fimmtudaginn, 22. júlí, klukkan 20.00.

Þetta er í fyrsta sinn sem Elja spilar á Akureyri. Þá verður flutt fjölbreytt efnisskrá með sígildri og samtímatónlist. Á tónleikunum verða frumflutt tvö ný verk, annað eftir Elenu Postumi og hitt eftir Hjalta Nordal. Einnig eru á efnisskránni verk eftir Witold Lutoslawski og Sergei Prokofiev.

Kammersveitin Elja er skipuð ungu íslensku tónlistarfólki og vísast geta Norðlendingar komið þar auga á kunnugleg andlit. Þessi hópur hefur síðastliðin ár einbeitt sér að hvers kyns tónlistarflutningi, en félagarnir hafa margir komið fram sem einleikarar og starfað með hljómsveitum hér á landi og víða í Evrópu og Bandaríkjunum, ýmist við spilamennsku eða hljómsveitarstjórn.

Efnisskráin er eftirfarandi:

  • Elena Postumi - Ónefnt verk (frumflutningur)
  • Hjalti Nordal - Ónefnt verk (frumflutningur)
  • Lutoslawski - Dance Preludes
  • Prokofiev - Sinfónía nr. 1

Miðaverð er 2500 kr. en 2000 kr. fyrir námsmenn, öryrkja og eldri borgara. Frítt er fyrir 15 ára yngri. Aðgöngumiðar fást á mak.is og tix.is en einnig við innganginn. Tónleikarnir eru styrktir af Akureyrarbæ og Tónlistarsjóði.

Nánari upplýsingar um sveitina má finna hér