Fara í efni
Menning

Kammerhópurinn Öræfi í Hofi á sunnudaginn

Kammerhópurinn Öræfi, sem stofnaður var fyrr á árinu, kemur fram á tónleikum í menningarhúsinu Hofi á sunnudaginn. 

Öræfi skipa Sóley Þrastardóttir flautuleikari, Þórunn Harðardóttir víóluleikari og Ásdís Arnardóttir sellóleikari. Þetta eru þriðju tónleikar hópsins og jafnframt þeir fyrstu í tónleikaröðinni Hvítar Súlur sem Tónlistarfélag Akureyrar stendur fyrir í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar.

„Flutt verða fimm ólík tónverk, þó ekki öll í heild sinni. Samsetning kammerhópsins er mjög óvenjuleg og hljóðfærin harla ólík, sem vafalaust er ein af ástæðum þess að ekki hafa mörg tónverk verið samin með þessari skipan,“ segir í tilkynningu.

„Öll verkin sem verða flutt eru því nokkuð sérstök og tónskáldin leyfa sér að fara ótroðnar slóðir í að kanna nýjan hljóðheim. Tónverkin eru þó með nokkuð klassískri nálgun og uppbyggingu, en klárlega fá hljóðfærin að njóta sín hvert og eitt innan þeirra.“

Tríóið Öræfi er ákaflega stolt af því, segir í tilkynningunni, að fá að flytja verk Báru Sigurjónsdóttur „Leiðin að settu marki?“, en verkið er hluti af stærri heild sem tónskáldið hefur unnið að síðustu misseri og var frumflutt af Öræfi á Tónlistarstundum í Vallaneskirkju þann 6. júlí síðastliðinn.

„Tónleikarnir eru um klukkutími að lengd og gefa áhorfendum tækifæri til að kynnast kammermúsík á nýjan en þó aðgengilegan hátt, heyra þessi ólíku hljóðfæri spila saman en líka í sitthvoru lagi og mynda skemmtilega margslungna heild.“

Miðasala er á tix.is, mak.is og í Menningarhúsinu Hofi. Miðaverð er 3500 krónur, frítt fyrir ungmenni innan 18 ára og 20% afsláttur fyrir félagsmenn í Tónlistarfélagi Akureyrar.

Tónleikarnir verða í Hömrum í Hofi og hefjast klukkan 16.00.