Fara í efni
Menning

Kafteinn Frábær mun hreyfa við fólki

Fmmtán hlutverk á 80 mínútum. Ævar Þór stendur einn á senunni í Kafteinn Frábær. Tvær sýningar verða á Akureyri um miðjan janúar. Mynd: Björgvin Sigurðarson

Leikarinn og rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson snýr aftur á svið Samkomuhússins á Akureyri um miðjan janúar þegar hann flytur þar einleikinn Kapteinn Frábær. Sýningin hlaut frábærar viðtökur þegar hún var sýnd í Tjarnarbíói í byrjun árs 2025 og Ævar var tilnefndur til Grímunnar sem leikari ársins í aðalhlutverki.

„Ég hlakka óskaplega til að fá að leika aftur í Samkomuhúsinu,“ segir Ævar, sem síðast stóð á sviði Samkomuhússins með Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri fyrir rúmum tuttugu árum þegar hann var þar nemandi og lék aðalhlutverkin í söngleikjunum Hárinu og Chicago. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og Ævar komið nálægt ýmsu um starfsævina ekki síst ritstörfum en akureyri.net sagði nýlega frá nýjustu bók Ævars, Skólastjóranum, sem fengið hefur gríðargóðar viðtökur.

„Ég lofa, þetta er líka stórskemmtilegt þótt umfjöllunarefnið sé vissulega dramatískt. En það er það sem gerir þetta verk svo áhugavert,“ segir Ævar Þór um einleikinn Kafteinn Frábær. Mynd: Björgvin Sigurðarson 

Ljúfsár kvöldstund

Spurður út í sýninguna sem hann er að koma með í Samkomuhúsið um miðjan janúar segir Ævar að ekki sé um barnasýningu að ræða þó nafnið gæti jafnvel gefið það til kynna. „Kapteinn Frábær er 80 mínútna einleikur þar sem ég fer með fimmtán hlutverk. Þetta er mjög ljúfsár kvöldstund um mann sem verður óvænt faðir og kann engan veginn að díla við það en gerir sitt besta. Svo gerist það að dóttir hans verður veik og fellur að lokum frá, og verkið fjallar í rauninni um eftirköstin af því – það tók hann tíma að ná tökum á föðurhlutverkinu en eftir að dóttir hans fellur frá er hann engan veginn í stakk búinn til að takast á við tilfinningarnar sem fylgja því,“ segir Ævar og bætir við að verkið sé í senn fyndið, fallegt og erfitt. „Ég lofa, þetta er líka stórskemmtilegt þótt umfjöllunarefnið sé vissulega dramatískt. En það er það sem gerir þetta verk svo áhugavert.“

Leikstjórinn og leikarinn. Hilmar og Ævar Þór eru gamlir félagar. Næst segist Ævar ætla að leikstýra Hilmari. 

Skrítið, ögrandi og fyndið

Leikritið er eftir Alistair McDowall og ber enska titilinn Captain Amazing. Ævar þýddi verkið sjálfur og segir það hafa heillað sig við fyrstu kynni. „Mér fannst það skrítið og ögrandi og fyndið en samt fjallaði það um sorg. Mér fannst eitthvað ótrúlega fallegt við andstæðurnar í því.“ Hilmir Jensson leikstýrir sýningunni, Svavar Knútur semur tónlistina og Ólafur Ágúst Stefánsson sér um ljósahönnun. „Það er ekkert á sviðinu nema einn stóll og svo bara ég. Mér fannst óskaplega gaman að takast á við þetta verk og ögra sjálfum mér sem listamanni. Ég er ofsalega stoltur af þessari sýningu.“

Sýningarnar á Akureyri verða tvær, dagana 17. og 18. janúar og eru miðar seldir á mak.is. Segir Ævar að sýningarnar verði þær allra síðustu á verkinu en hann er að taka sýninguna upp aftur í Tjarnarbíó í janúar og verður þar með tvær sýningar áður en hann kemur norður. „Þetta er fyrir þá sem misstu af Kapteinn Frábær í fyrra. Ég get lofað því að þetta mun hreyfa við fólki,“ segir Ævar.