Fara í efni
Íþróttir

KA tekur á móti Club Brugge í Laugardalnum

KA fær víti í leiknum gegn Breiðabliki í Bestu deildinni á dögunum. Elfar Árni Aðalsteinsson var togaður niður í teignum og Blikinn rekinn af velli. Elfar Árni skoraði gegn Connah's Quay Nomads á dögunum og Harley Willard, fyrir miðri mynd, gerði mark KA í Belgíu í síðustu viku. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn taka á móti stórliði Club Brugge frá Belgiu í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu í dag. Liðin mætast á Laugardalsvelli í Reykjavík og hefst leikurinn klukkan 18:00.

Þetta er seinni viðureign liðanna; Brugge vann KA 5:1 ytra fyrir viku og því er næsta víst að þátttöku KA-manna í Evrópukeppni í ár lýkur í kvöld. Aldrei er reyndar hægt að fullyrða neitt í íþróttum, KA-strákarnir mæta að sjálfsögðu ekki með því hugarfari til leiks og ævintýrin gerast enn – en setji utanaðkomandi upp raunsæisgleraugun er óhjákvæmilegt að hugsa á þessum nótum. 

Spennandi viðureign

Gaman verður að sjá hvernig leikur liðanna í kvöld þróast. Gestirnir eru með gott forskot og fara sér því væntanlega að engu óðslega en KA-strákarnir hafa í sjálfu sér engu að tapa og geta því vonandi skemmt sér og stuðningsmönnum sínum sem mæta á þjóðarleikvanginn. Þá fá þeir gott kjörið tækifæri til að kynna sér aðstæður í Laugardalnum en að mánuði liðnum mæta þeir þangað aftur og leika til úrslita í bikarkeppni KSÍ. Í gærkvöldi kom í ljós að Víkingur verður mótherjinn þann dag – Víkingur sigraði KR 4:1 í undanúrslitum í gær.

Mikið álag hefur verið á KA-liðinu undanfarið eins og Akureyri.net hefur fjallað um og nú er ljóst að þrír mikilvægir leikmenn verða fjarri góðu gamni í dag; miðvörðurinn Dusan Brkovic og miðjumennirnir Bjarni Aðalsteinsson og Andri Fannar Stefánsson eru ekki leikfærir. 

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var ánægður með margt í leik liðsins þrátt fyrir 5:1 tap gegn Brugge í síðustu viku. „Það var stuttur kafli í lok fyrri hálfleiks sem drap okkur,“ sagði hann við Akureyri.net. „Ég met frammistöðuna mjög góða. Ég var ótrúlega ánægður með að við þorðum að spila boltanum, við skorum mark [...]. AGF frá Danmörku átti eitt skot á móti Brugge hér í Belgíu í síðustu umferð en við áttum fleiri,“ sagði Hallgrímur.

Mjög góð frammistaða og dýrmæt reynsla