Fara í efni
Íþróttir

KA sigraði í sjö marka leik – MYNDIR

Elfar Árni Aðalsteinsson skorar sigurmark KA fallegri hælspyrnu! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA sigraði ÍBV 4:3 í gær í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins, eins og Akureyri.net greindi þá frá. Áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn, leikurinn tók reyndar án efa á taugar þeirra og ekki síður þjálfara liðanna því varnarleikurinn var of oft ekki til útflutnings. En mörkin glöddu vitaskuld og KA-menn fögnuðu langþráðum sigri þegar upp var staðið. 

_ _ _

EYJAMENN TAKA FORYSTUNA
Markvörður Eyjamanna spyrnti langt fram völlinn og einn félaga hans skallaði boltann enn lengra. Engin hætta virtist á ferðum þegar KA-maðurinn Dusan Brkovic hugðist senda á Ívar Örn við vítateiginn en sendingin var allt of laus, framherjinn José Sito náði boltanum og skoraði af öryggi undir Jajalo markvörð. Þetta var strax á 6. mínútu.

_ _ _

ÍVAR ÖRN JAFNAR
Sveinn Margeir tók hornspyrnu frá vinstri og æft atriði gekk sennilega fullkomlega upp; þegar boltinn kom fyrir markið var Ívar Örn Árnason  aleinn hægra megin í teignum og skallaði boltann til baka yfir hóp samherja sinna og varnarmanna ÍBV. Jón Ingason reyndi að skalla boltann frá á marklínu en tókst ekki. Þetta var á 12. mínútu.

_ _ _

NORÐLENSK SAMVINNA; VERÐI ÞÉR AÐ GÓÐU!
Elfar Árni sendi boltann út á hægri kant á Hrannar Björn Steingrímsson, hann spyrnti inn á miðjan vítateig þar sem Nökkvi Þeyr Þórisson var óvaldur og þrumaði boltanum í hægra hornið. Þetta var á 18. mínútu. Norðlenskt, já takk! Húsvíkingur sendi á Húsvíking sem lagði upp mark fyrir Dalvíking!

_ _ _

AFTUR SKORAR SÍTO
ÍBV fær hornspyrnu og þegar boltinn kemur fyrir mark KA er dæmd hendi og þar með víti á Ívar Örn Árnason. José Sito skorar af miklu öryggi af vítapunktinum; þrumaði boltanum með vinstri fæti út við stöng vinstra megin en Jajalo skutlaði sér í hitt hornið. Þarna voru aðeins 22 mínútur liðnar en búið að skora fjögur mörk!

_ _ _

EYJAMENN NÁ AFTUR FORYSTU
Arnar Breki Gunnarsson fékk sendingu fram vinstri kantinn, KA-menn töldu hann rangstæðan en svo var ekki, Arnar lék inn á teig, sendi fyrir markið þar sem Halldór Jón Sigurður Þórðarson var á undan Van Den Bogaert, Jajalo markvörður náði ekki til boltans og Eyjamaðurinn skoraði auðveldlega af stuttu færi. Þetta var á 45. mínútu, aðeins nokkrum sekúndum áður en fyrri hálfleikurinn var úti.

_ _ _

DANÍEL JAFNAR FYRIR KA
Andri Snær Stefánsson gaf boltann út á vinstri bakvörðurinn Van Den Bogaert sem sendi hárnákvæmt inn á miðjan teig þar sem Daníel Hafsteinsson var mættur og skallaði fallega í nærhornið. Markið kom á 56. mínútu.

_ _ _

GLÆSILEGT SIGURMARK
Það var vel við hæfi að flottasta markið réði úrslitum. Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði þá með glæsilegri hælspyrnu af markteig á 76. mínútu. Elfar Árni og Hallgrímur Mar unnu boltann af Eyjamanni fyrir aftan miðju, Hallgrímur óð af stað, sendi út til vinstri á Van Den Bogaert sem gaf boltann á Nökkva Þey fyrir utan vítateiginn, hann sendi laglega á Hallgrím sem hafði laumað sér inn á teig vinstra megin og Elfar Árni afgreiddi fyrirgjöf hans snyrtilega í markið framhjá bjargarlausum varnarmanni. Stórglæsileg sókn.