Fara í efni
Íþróttir

KA-menn sigruðu Þórsara - MYNDIR

Árni Bragi Eyjólfsson býður Þórsaranum Karolis Stropus upp í dans - eða ekki. Vill líklega frekar ná…
Árni Bragi Eyjólfsson býður Þórsaranum Karolis Stropus upp í dans - eða ekki. Vill líklega frekar ná af honum boltanum... Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Handboltalið KA hafði betur í nágrannaslagnum við Þór í íþróttahöllinni í gærkvöldi, eins og greint var frá hér á Akureyri.net þá. Leikurinn var í bikarkeppninni og fór 26:23 eftir jafna og spennandi viðureign.

Þórsarar voru afar líflegir framan af og höfðu tvisvar þriggja marka forystu í fyrri hálfleik, 6:3 og 14:11, og voru einu marki yfir í hálfleik, 14:13. Í stöðunni 6:3 fengu Þórsarar meira að segja dauðafæri til að komast fjórum mörkum yfir en brást bogalistin; Igor Kopyshinki skaut í þverslá í hraðaupphlaupi, og KA-menn svöruðu með þremur mörkum. Þegar aðeins átta sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik reyndu Þórsarar svo sirkusmark; Karolis Stropus sendi inn í teiginn þar sem Ihor Kopyshynskyi kom fljúgandi úr horninu en greip ekki boltann, Svavar Ingi Sigmundsson markvörður KA var fljótur að átta sig, átti hárnákvæma sendingu fram á Einar Birgi Stefánsson sem skoraði og minnkaði muninn í eitt mark, þegar ein sekúnda var efir.

KA hafði hins vegar frumkvæðið í seinni hálfleik en Þór jafnaði yfirleitt jafnharðan. KA-menn skriðu svo fram úr þegar líða tók á hálfleikinn og komust þremur mörkum yfir, 21:18. Þórsarar gáfust þó ekki upp og þegar ein mínúta var eftir hafði KA eins marks forystu en unnu að lokum þriggja marka sigur.

Leikurinn var fín skemmtun, hart barist en drengilega og synd að áhorfendur skuli ekki leyfðir því öruggt má telja að frábær stemning hefði verið í höllinni við hefðbundnar aðstæður.

Mörk KA í leiknum gerðu: Áki Egilsnes og Árni Bragi Eyjólfsson 7 hvor, Ólafur Gústafsson 4, Andri Snær Stefánsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson 2 og eitt mark gerðu Sigþór Gunnar Jónsson, Patrekur Stefánsson Einar Birgir Stefánsson. 

Ihor Kopyshynskyi var markahæstur Þórsara með 9 mörk. Karolisr Stropu gerði 8, Sigurður Kristófer Skjaldarson 3, Garðar Már Jónsson og Arnþór Gylfi Finnsson gerði 3. 

Þórir Tryggvason og Skapti Hallgrímsson fylgdust með leiknum vopnaðir myndavélum. Hluta afraksturs vinnu þeirra má sjá hér að neðan.