Fara í efni
Íþróttir

KA-menn fagna 95 ára afmælinu í Hofi í dag

Brynjar Ingi Bjarnason og Rut Arnfjörð Jónsdóttir, sem kosin voru íþróttakarl og íþróttakona KA árið 2021.

Knattspyrnufélag Akureyrar verður 95 ára á morgun og verður því fagnað í dag í menningarhúsinu Hofi. Samkoman hefst klukkan 13.30 og eru allir velkomnir.

„Við gerum upp frábært ár sem nú er liðið og heiðrum þá einstaklinga og lið sem skarað hafa framúr í starfi félagsins. Þá verður veglegt kaffihlaðborð að hætti KA-manna á svæðinu, hlökkum til að sjá ykkur,“ segir á heimasíðu KA.

Ýmsar viðurkenningar verða veittar í hófinu, þar á meðal verður upplýst hver hafa verið kjörin íþróttakarl og íþróttakona KA fyrir árið 2022.

  • Sex eru tilnefndar til íþróttakonu KA.
  • Sex eru tilnefndir til íþróttakarls KA.
  • Sex lið hjá KA eru tilnefnd til liðs ársins hjá félaginu árið 2022.
  • Alls eru sjö þjálfarar eða þjálfarapör tilnefnd til titilsins þjálfara ársins.
  • Böggubikarinn verður afhendur í níunda skipti en alls eru sex ungir og öflugir iðkendur tilnefndir af deildum félagsins.
  • Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.